Alheimurinn

Undur alheimsins

Alheimurinn er allt sem er, allt sem hefur verið og allt sem mun verða. Hér horfum við út fyrir sólkerfið og könnum undur alheimsins.


Alheimurinn

stjörnur, stjörnuþyrping, sól, sólstjarna

Stjörnur

Stjörnur (sólstjörnur) eru sjálflýsandi gashnettir í geimnum sem framleiða orku með kjarnasamruna vetnis í helíum á einhverju stigi æviskeiðs síns. Allar stjörnur næturhiminsins eru svipaðs eðlis og sólin okkar en svo órafjarri að fjarlægðin til þeirra mælist í ljósárum. Sú sem er nálægust, Proxima Centauri, er rúm fjögur ljósár í burtu.

Lesa meira
 
Flokkun stjarna

Flokkun stjarna

Stjörnur eru flokkaðar eftir yfirborðshitastigi og eru helstu flokkar auðkenndir með bókstöfunum O, B, A, F, G, K og M. O-stjörnur eru heitastar en M-stjörnur kaldastar. O stjörnur eru bláar, B-stjörnur bláhvítar, A-stjörnur hvítar, F-stjörnur gulhvítar, G-stjörnur gular, K-stjörnur rauðgular og M-stjörnur rauðar. Sólin okkar er G-stjarna.

Lesa meira
 
myndun stjarna, Herbig-Haro

Myndun stjarna

Allar stjörnurnar á næturhimninum eru sólir eins og sólin okkar, sumar smærri flestar stærri og miklu fjarlægari. Á himninum virðist sem stjörnurnar séu eilífar og óbreytilegar þótt því fari víðs fjarri. Stjörnur fæðast í gasskýjum í geimnum og þróast í milljarða ára áður en þær líða loks undir lok.

Lesa meira
 
stjörnuþoka, ljómþoka, hringþoka, endurskinsþoka

Stjörnuþokur

Stjörnuþokur eru gas- og rykský í geimnum. Upphaflega var orðið stjörnuþoka almennt notað yfir öll þau fyrirbæri sem sýndust þokukennd í gegnum augngler stjörnusjónauka, þar á meðal aðrar vetrarbrautir. Stjörnuþokur eru oft stjörnumyndunarsvæði.

Lesa meira
 
stjörnuþyrping, lausþyrping, ngc 265

Stjörnuþyrpingar

Stjörnuþyrping er hópur stjarna sem haldast saman á litlu svæði vegna þyngdaraflsins. Stjörnuþyrpingum má skipta í kúluþyrpingar og lausþyrpingar. Stjörnuþyrpingum má þó ekki rugla saman við vetrarbrautir sem eru miklu stærri og stjörnur þeirra laustengdari. Í flestum vetrarbrautum er bæði að finna kúluþyrpingar og lausþyrpingar. Stjörnur í hverri stjörnuþyrpingu eru yfirleitt jafngamlar sem bendir til þess að þær myndist samtímis úr sömu stjörnuþoku.

Lesa meira
 
Síríus A, Síríus B, hvítur dvergur

Hvítir dvergar

Hvítir dvergar (e. white dwarfs) eru daufar og þéttar stjörnur á stærð við jörðina en álíka massamiklar og sólin. Hvítir dvergar marka endalok þróunarsögu flestra stjarna í alheiminum. Þegar sólin okkar hefur náð lokastiginu í þróunarsögu sinni endar hún ævi sína sem hvítur dvergur og löngu síðar svartur dvergur.

Lesa meira
 
sprengistjörnur, sn1987a, stóra-magellanskýið, tarantúluþokan

Sprengistjörnur

Sprengistjörnur eru gríðarlega öflugar sprengingar mjög massamikilla stjarna. Vísindamenn telja að allar stjörnur sem upphaflega eru um 8 sólarmassar eða meira endi ævi sína í slíkum hamförum. Dæmi eru um að sprengistjörnur sendi frá sér meiri geislun en sólin er talin gera á öllu æviferli sínu og verða þessi fyrirbæri oft á tíðum bjartari en hýsilvetrarbrautir þeirra. Öll frumefni þyngri en járn myndast í leifum sprengistjarnanna þegar þung frumefni rekast saman. Því má með sanni segja að við séum öll gerð úr stjörnuryki.

Lesa meira
 
nifteindastjörnur, tifstjörnur

Nifteindastjörnur

Nifteindastjarna er leif af sprengistjörnu af gerð II, gerð Ib eða gerð Ic. Slíkar stjörnur eru næstum eingöngu úr nifteindum. Nifteindastjörnur eru geysilega heitar og er einsetulögmál Paulis það eina sem kemur í veg fyrir frekara þyngdarhrun. Venjulega nifteindastjarna er á bilinu 1,35 til 2,1 sólmassar og aðeins rúmlega 10 km í þvermál.

Lesa meira
 
svarthol, NGC 300, Wolf-Rayet stjarna

Svarthol

Svarthol er eitt af furðum veraldar. Það er staður í alheimi þar sem gríðarlegur massi sveigir tímarúmið út í hið óendanlega. Þyngdarkrafturinn er svo mikill að ekkert efni sem fellur þar inn sleppur þaðan aftur. Hér eiga orð Dantes úr Gleðileiknum guðdómlega afar vel við: „Lasciate ogne speranza, voi ch'intrate“ eða „Hver sem hingað kemur, gefi upp alla von“. Sökum eðlis þeirra vita menn harla fátt um þessi fyrirbæri. Okkar vitneskja byggir því nær eingöngu á kenningum og útreikningum stærðfræðinga og eðlisfræðinga um svarthol.

Lesa meira
 
Gammablossi

Gammablossar

Gammablossar, orkumestu sprengingar alheimsins, eru hrinur háorkugeislunar sem berast utan úr geimnum að jafnaði einu sinni á sólarhring. Hver hrina er skammlíf og getur varað allt frá þúsundasta úr sekúndu upp í allmargar mínútur. Talið er að blossarnir eigi upptök sín við myndun svarthola í fjarlægum vetrarbrautum, annars vegar í gríðarlega öflugum sprengistjörnum og hins vegar við samruna tveggja ofurþéttra fyrirbæra. Með sífellt öflugri tækni hefur þekking á blossunum stóraukist á undanförnum áratug og vegna mikilla fjarlægða þeirra gefa rannsóknirnar einnig mikilvægar vísbendingar um stjörnumyndunarsögu alheimsins í árdaga. Í þessari grein verður stiklað á stóru í mælingasögu gammablossa. Greint verður frá helstu kenningum um orsakir þeirra ásamt gerð vetrarbrautanna sem þeir kvikna í. Nokkrum þýðingarmiklum blossum verður lýst sérstaklega sem og áhrifum mögulegs blossa í Vetrarbrautinni. Að lokum verður fjallað um ný mælitæki og nýjar áherslur í rannsóknum á þessum orkumiklu fyrirbærum.

Lesa meira
 
fjarlægðarstiginn, sprengistjarnan 1994d

Fjarlægðarstiginn

„Hversu langt er til stjarnanna?“ Vísindamenn sem spyrja sig að þessari sömu spurningu eiga í fórum sínum mjög öflug verkfæri til að ákvarða fjarlægðir til reikistjarnanna, einstakra stjarna í Vetrarbrautinni og jafnvel til daufustu vetrarbrauta sem finnast á himninum. Saman hafa þessar aðferðir löngum verið nefnd Fjarlægðarstiginn, þar sem hvert þrep stigans byggir á áreiðanleika þeirra fyrir neðan.

Lesa meira
 
Vetrarbraut, M101, Hubblessjónaukinn

Vetrarbrautir

Vetrarbrautir (e. galaxies) eru risastór kerfi stjarna og sólkerfa og gass og ryks, sem þyngdarkrafturinn bindur saman. Vetrarbrautir eru stærstu sýnilegu einingar alheims. Smæstar eru dvergvetrarbrautir sem hafa innan við eina milljón stjarna á nokkur hundruð ljósára breiðu svæði, en stærstar eru risavetrarbrautirnar sem innihalda meira en hundrað trilljón stjörnur og geta verið yfir milljón ljósár í þvermál.

Lesa meira
 
stjörnur, ryk, vetrarbrautin okkar

Vetrarbrautin okkar

Vangaveltur um heimkynni mannsins hefur ætíð verið mikill drifkraftur í stjörnufræði. Hvar eigum við heima og hvernig er okkar næsta nágrenni? Hver er staða sólarinnar okkar miðað við allar óteljandi systur hennar? Skoðun manna á borð við Newton (1643-1727) var sú að stjörnurnar á næturhimninum væru jafndreifðar um allar víðáttur himingeimsins. Í dag vitum við hins vegar að stjörnurnar fylkja sér í tilkomumiklar fjöldasamkomur sem við köllum vetrarbrautir. Lítið annað en gapandi tómið skilur milli vetrarbrautanna sem mega með sanni teljast stórborgir alheimsins.

Lesa meira
 
vetrarbrautaþyrping, vetrarbrautahópur, Stephans Quintet

Vetrarbrautaþyrpingar

Upp úr 1930 sýndu rannsóknir stjarnvísindamanna að vetrarbrautir dreifast ekki handahófskennt um alheiminn. Flestar hópa sig saman og mynda enn stærri þyrpingar og allar eru á fleygiferð um geiminn. Þyrpingarnar eru svo aftur hluti af enn stærri heild, reginþyrpingum.

Lesa meira
 
heimsfræði, hubble ultra deep field

Heimsfræði

Heimsfræði tekur á grundvallarspurningum um eðli og gerð alheimsins í heild sinni. Upphafi hans, þróun og örlögum.

Lesa meira
 
örbylgjukliðurinn wmap

Örbylgjukliðurinn

Örbylgjukliðurinn er endurómur Miklahvells. Hann ber vitni fyrri tíð þegar alheimurinn var heitari og þéttari en hann er nú. Örbylgjukliðurinn gerir okkur kleift að skyggnast milljarða ára aftur í tímann, löngu fyrir tíma manna vetrarbrauta og jafnvel sólstjarna. Hann er bakgrunnsgeilsun sem fyllir allan alheim og á upptök sín um 380.000 árum eftir Miklahvell.

Lesa meira
 
hulduorka abell 1689 vetrarbrautaþyrpingar

Hulduorka (heimsfasti)

Samkvæmt nýlegum hugmyndum vísindamanna eru ríflega 70% af massa-orku alheims svokölluð hulduorka. Eðli hennar veldur því að alheimurinn þenst nú út með sívaxandi hraða.

Lesa meira
 
ngc4414

Örlög alheimsins og framtíð heimsfræði

Ef fram heldur sem horfir munu allar fjarlægar vetrarbrautir hverfa okkur sjónum. Sú heimsmynd sem við höfum nú mun gerbreytast. Við munum sýnast ein í miðju alheims.

Lesa meira
 
VLT, sjónaukar, stjarnvísindi, rannsóknir, stjörnufræði

Rannsóknir

Þann 30. nóvember árið 1609 steig Ítali nokkur út á akra í grennd við heimili sitt í Padúa. Í fórum hans var glæný hollensk uppfinning sem hafði þann eiginleika að stækka fjarlæg fyrirbæri svo þau sýndust nær. Ítalinn ákvað að prófa það sem fáir, jafnvel engir aðrir, höfðu prófað: Að beina sjónauka í átt að tunglinu, reikistjörnunum og fastastjörnunum. Á einu augabragði gerbreyttist stjörnufræðin og heimsmyndin um leið. Hann vissi það ef til vill ekki þá en þessa afdrifaríku nótt hratt Galíleó Galílei af stað vísindabyltingu. Til þess að minnast þessa atburðar útnefndu Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðasamband stjarnfræðinga árið 2009 Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar.

Lesa meira
 
Hubble, geimsjónauki, Hubblessjónaukinn

Hubble geimsjónaukinn

Þann 24. apríl 1990 hóf geimferjan Discovery sig á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Um borð í geimferjunni var Hubblesjónaukinn sem er eitt frægasta vísindatæki sem smíðað hefur verið. Sjónaukinn er samstarfsverkefni geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og geimferðastofnunar Evrópu (ESA). Þótt Bandaríkjamenn hafa borið hitann og þungann af kostnaðinum hafa Evrópumenn lagt sitt af mörkum til að mynda við smíði mælitækja í sjónaukann. Segja má að Hubblesjónaukinn sé fyrirtaks dæmi um hvað alþjóðlegt samstarf vísindamanna getur fengið miklu áorkað til heilla fyrir allt mannkynið.

Lesa meira
 
James Webb Space Telescope, James Webb geimsjónaukinn, arftaki Hubbles

James Webb geimsjónaukinn

James Webb geimsjónaukinn er innrauður geimsjónauki sem ætlað er að fylgja eftir Hubble geimsjónaukanum. Hubble hefur skapað sér arfleið sem eitt best heppnaða og afkastamesta vísindatæki sögunnar. Vonast menn til að hann endist í nokkur ár til viðbótar eða þar til erfinginn tekur við kyndlinum árið 2015.

Lesa meira
 
Very Large Telescope

Very Large Telescope (VLT)

Very Large Telescope (VLT) eru fjórir 8,2 metra breiðir stjörnusjónaukar í Paranal stjörnustöðinni, starfræktir af ESO. Paranal stjörnustöðin er í 2635 metra hæð yfir sjávarmáli í Atacamaeyðimörkinni í Chile, um 120 km suður af Antofagasta. Auk risasjónaukanna fjögurra eru fjórir aðrir 1,8 metra breiðir aukasjónaukar sem eru færanlegir. Saman geta þessir sjónaukar myndað víxlmæli sem greint getur 1 millíbogasekúndna hornbil, eða sem samsvarar bilinu milli ljósa á bíl sem staðsettur væri á tunglinu.

Lesa meira
 
European Extremely Large Telescope, ESO

European Extremely Large Telescope

Evrópski risasjónaukinn (European Extremely Large Telescope, E-ELT) er fyrirhugaður 39,3 metra breiður stjörnusjónauki sem Stjörnustöð Evrópu á suðurhveli (ESO) hyggst koma í gagnið í upphafi næsta áratugs. Sjónaukinn verður fjórum til fimm sinnum stærri en stærstu sjónaukar jarðar í dag og mun safna um 15 sinnum meira ljósi. 

Lesa meira
 
Keplerssjónaukinn, fjarreikstjörnur, leit að öðrum reikistjörnum

Keplerssjónaukinn

Keplerssjónaukinn er geimsjónauki sem er sérstaklega hugsaður til að leita fjarreikistjarna, einkum reikistjarna á stærð við jörðina. Sjónaukanum var skotið á loft með Delta II eldflaug þann 7. mars 2009 frá Canaveralhöfða í Flórída. Sjónaukinn er nefndur til heiðurs þýska stærð- og stjörnufræðingnum Jóhannesi Kepler. Keplerssjónaukinn er hluti af Discovery verkefni NASA sem getið hefur af sér fjölmörg velheppnuð verkefni á borð við Deep Impact, Stardust og Mars Pathfinder.

Lesa meira
 
litróf, sýnilegt ljós, ljós

Ljósið

Ljós er rafsegulgeislun; sveiflur í rafsviði og segulsviði og í því felst orka. Í daglegu tali er ljós sá hluti rafsegulgeislunar sem er sýnileg mönnum (sýnilegt ljós) en í eðlisfræði er ljós rafsegulgeislun sem einkennist af bylgjulengd sinni, hvort sem það er sýnilegt eða ekki. Ljós hefur bæði eiginleika bylgna og agna. Það svið eðlisfræðinnar, sem snýr að rannsóknum á ljósinu, kallast ljósfræði og er mjög mikilvægt í nútíma eðlisfræði.

Lesa meira
 
M87, kjarni, rafsegulrófið

Rafsegulrófið

Rafsegulrófið (e. electromagnetic spectrum) spannar allar hugsanlegar bylgjulengdir rafsegulgeislunar. Rafsegulróf fyrirbæris, t.d. sólstjörnu, er sú rafsegulgeislun sem einkennir og berst frá fyrirbærinu. Rafsegulrófið nær frá orkulitlum útvarpsbylgjum langbylgjugeislunar til orkuríkrar gammageislunar í stuttbylgjuendanum. Bylgjulengdin getur verið frá þúsundum kílómetra að stærð niður í brot úr stærð atóms. Talið er að minnsta mögulega bylgjulengd ljóss sé í námunda við Planckslengdina (1,616×10−35 metrar) en stærsta bylgjulengdin takmarkast af stærð alheims, þótt fræðilega séð sé rafsegulrófið óendanlegt og samfellt.

Lesa meira
 
svarthlutargeislun, kvika

Svarthlutargeislun

Alheimurinn er fullur af ljósi, en hvaðan kemur það? Mestur hluti ljóssins verður til við ferli sem kallast svarthlutargeislun (e. blackbody radiation). Í eðlisfræði er svarthlutur fyrirbæri sem gleypir í sig alla rafsegulgeislun (allt ljós) sem á hann fellur.

Lesa meira
 
Litrófsgreining, litróf, litrófslínur

Litrófsgreining

Litrófsgreining er kerfisbundin rannsókn á litrófi og litrófslínum ljóss. Litrófslínur eru sérstaklega mikilvægar í stjarnvísindum þar sem þær veita mjög áreiðanlegar upplýsingar um efnasamsetningu fjarlægra fyrirbæra.

Lesa meira
 
LISA

Þyngdargeislun

Þyngdargeislun eða þyngdarbylgjur eru bylgjur í þyngdarsviði massamikilla hluta, hliðstæðar rafsegulbylgjum. Til eru lausnir á jöfnum almennu afstæðiskenningarinnar sem lýsa þyngdarbylgjum en vísindamönnum hefur ekki tekist að nema þyngdarbylgjur.

Lesa meira
 
fiseindir, sólin

Fiseindir

Fiseind er öreind og tilheyrir hún því þeim grunneindum náttúrunnar sem ekki er vitað til að hægt sé að kljúfa. Fiseindir eru allt í kringum okkur og ferðast þær með næstum ljóshraða í gegnum efni. Á hverri sekúndu fer gríðarlegur fjöldi fiseinda í gegnum líkama okkar á miklum hraða. Rúmum 8 mínútum áður lögðu flestar þessara fiseinda af stað úr kjarna sólarinnar þar sem kjarnasamruni leysir orku úr læðingi. Uppruni fiseinda í náttúrunni er t.d. í andrúmslofti jarðar við árekstur geimgeisla, frá hrörnun geislavirka efna, frá kjarna sólarinnar og annara stjarna og frá sprengistjörnum. Fiseindir víxlverka mjög sjaldan við efni og því er erfitt að greina þær. Það kemur því ekki á óvart að fyrsta greinin um fund þeirra birtist ekki fyrr en árið 1956.

Lesa meira
 Leita á vefnum


 

Vinir okkar

  • Hugsmiðjan
  • Sjónaukar.is
  • Portal To The Universe
  • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
  • Vísindavefurinn
  • Hubble spacetelescope
  • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Fleygar setningar

- Edwin Hubble

„Útbúinn fimm skilningarvitum, kannar maðurinn alheiminn umhverfis sig og kallar ævintýrið vísindi"
 Alheimurinn


Þetta vefsvæði byggir á Eplica