Smástirni á stærð við bíl fellur inn í lofthjúpinn í nótt (aðfaranótt 7. október)

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

6. október 2008

Smástirni á stærð við bíl, sem fannst á myndum sem teknar voru frá stjörnustöð í Arizona klukkan 18:28 í kvöld (6. október), mun brenna upp í lofthjúpi jarðar klukkan 02:46 að íslenskum tíma aðfaranótt þriðjudagsins 7. október yfir Súdan í norðausturhluta Afríku; sem sagt núna í nótt þegar þetta er skrifað (klukkan 21 á mánudagskvöldi 6. október). Smástirnið, sem heitir 2008 TC3 er afar smátt og mun því ekki valda nokkrum skaða. Afríkubúar eiga aftur á móti von á stórfenglegum vígahnetti.

Stjörnufræðingar eru bókstaflega himinlifandi með þessa uppgötvun. Þetta er nefnilega í fyrsta sinn sem tekist hefur að spá fyrir komu smástirnis inn í lofthjúp jarðar með fullkominni vissu. Mikilvægt er að ítreka að þetta smástirni er ekki hættulegt þótt stærð þess sé á bilinu 1 til 5 metrar. Smástirnið mun að öllum líkindum brenna upp til agna, hátt í efri hluta lofthjúpsins, langt yfir þeirri hæð sem flugvélar fljúga í.

Þegar smástirnið tvístrast í lofthjúpnum verður sprenging sem jafngildir orkulosun eins kílótonns af dýnamíti. Væri enginn lofthjúpur til staða, myndi smástirnið að öllum líkindum rekast á jörðina í Darfur í Súdan. Gígurinn sem myndi myndast í kjölfarið yrði um 35 metra breiður og 10 metra djúpur á að giska.

Þegar smástirnið kemur inn í lofthjúp jarðar þrýstir það frá sér loftinu fyrir framan sig. Þessi loftþjöppun hitar loftið, sem að lokum hitar upp fyrirbærið og veldur því að það glóir og gufar upp. Um leið og hnötturinn byrjar að glóa tölum við um loftsteinahrap eða stjörnuhrap í daglegu tali

Hefðbundin stjörnuhröp sem við verðum oft vitni að, hljótast af völdum rykagna á stærð við sandkorn. Hér er aftur á móti um að ræða smástirni á stærð við bifreið og eiga íbúar norðanverðrar Afríku fyrir höndum stórkostlega flugeldasýningu. Smástirnið mun koma mjög hratt inn í lofthjúpinn í stefnu frá norðaustri til suðvesturs. Íbúar syðst í Evrópu og nyrst í Afríku gætu því séð smástirnið koma inn í lofthjúpinn.

Við munum að sjálfsögðu birta myndir af þessum merka atburði, sem sést því miður ekki frá Íslandi, um leið og þær berast!

Sjá nánar:

- Sævar Helgi Bragason