Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2008

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

26. desember 2008

Facebook

Stjörnufræðin er einstaklega myndræn vísindagrein. Á hverju ári eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugamönnum, stjörnufræðingum eða sendiherrum jarðarbúa úti í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru í gullfallegar og verðskulda sannarlega að sem flestir fái að njóta þeirra.

Myndirnar sem hér eru valdar tíu besti stjörnuljósmyndir ársins 2008 voru fyrst og fremst valdar út frá fegurðargildi, en ekki síður vísindalegu.

Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augum ber, enda eru fyrirbærin ekki síður áhugaverð en myndirnar fallegar.

Njótið!

----

10. Messenger heimsækir Merkúríus

Fyrir árið 2008 höfðu jarðarbúar aðeins séð helminginn af yfirborði innstu reikistjörnu sólkerfisins. Þá voru 33 ár liðin frá því Mariner 10 flaug framhjá Merkúríusi árin 1974 og 1975. Biðu menn því í ofvæni eftir heimsókn MESSENGERS sem flaug í tvígang framhjá Merkúríusi þetta árið, fyrst þann 14. janúar og aftur þann 6. október en þá var þessi glæsilega ljósmynd tekin. MESSENGER mun fljúga einu sinni í viðbót framhjá Merkúríusi þann 29. september 2009 áður en farið kemst á sporbraut um þann 8. mars 2011.

Á myndinni sést bjartur og mjög áberandi gígur fyrir miðju reikistjörnunnar. Þessi gígur nefnist Kuiper en hann er tiltölulega nýlegur (ekki nema yfir 3000 milljón ára gamall) og frá honum stefna bjartar efnisslettur langt frá gígnum. Annar tiltölulega nýr og ferskur gígur er nærri norðurpólnum en hann á sök á björtu efnisrákunum sem stefna út frá honum næstum umhverfis alla reikistjörnuna að suðurpólnum.

Til gamans má geta að tveir gígar á Merkúríusi eru nefndir eftir íslenskum listamönnum. Hverjir skyldu það vera? Svarið er að finna í ítarlegri umfjöllun okkar um Merkúríus hér á Stjörnufræðivefnum.

Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Carnegie Institution of Washington

----

9. Risavetrarbrautin NGC 1132

Í alheiminum eru vetrarbrautir stærstu einingarnar. Sólkerfið okkar tilheyrir einni slíkri sem telur um eða yfir 200 milljarða stjarna. Vetrarbrautin okkar er þó talsvert frábrugðin þessari vetrarbraut sem sést hér að ofan en hún er miklu stærri en Vetrarbrautin okkar. Þessi sporvöluvetrarbraut nefnist NGC 1132 og sýnir hvað gerist þegar vetrarbraut gleypir í sig nokkrar aðrar vetrarbrautir. Þessa glæsilegu mynd af NGC 1132 tók Hubblessjónaukinn árin 2005 og 2006 en hún var birt árið 2008.

NGC 1132 er í hvorki meira né minna en 318 milljón ljósára fjarlægð sem þýðir að ljósið er 318.000.000 ár á leiðinni til okkar frá henni. Talið er að hún innihaldi yfir trilljón (þúsund milljarðar) stjörnur. Á myndinni sést að vetrarbrautin er nokkuð gulleit. Þennan gula lit má rekja til aldurhniginna stjarna í vetrarbrautinni. Sporvöluvetrarbrautir eins og NGC 1132 innihalda nefnilega ekki mikið af köldu gasi svo nýjar stjörnur fæðast þar ekki lengur. Gasið í vetrarbrautinni er með öðrum orðum of heitt til þess að stjörnur geti myndast. En hvernig vita menn að gasið er kalt? Þegar við skoðum aðrar öldulengdir ljóss, sést að frá henni stafar gríðarlegt magn röntgengeislunnar. Röntgengeislunin verður til í mjög heitu gas. Fyrir utan þetta inniheldur vetrarbrautin einnig sambærilegt magn hulduefnis og finnst í vetrarbrautarþyrpingum, nokkuð sem kom stjörnufræðingum mjög á óvart.

Á myndinni sést fjöldi smærri vetrarbrauta, sumar nálægri en aðrar miklu fjarlægri.

Mynd: NASA, ESA, og Hubble Heritage (STScI/AURA)-ESA/Hubble Collaboration

----

8. Tunglið gengur fyrir jörðina

Tunglið okkar snýst einn hring um jörðina á tæpum mánuði. Þaðan er enda orðið mánuður upprunið. Frá jörðu séð sjáum við tunglið færast smám saman þvert yfir himinninn og minnkar eða vex á sama tíma. Stundum gengur tunglið fyrir sólina frá jörðu séð. Fáum við þá sólmyrkva. Stundum gengur tunglið líka inn í jarðskuggan. Fáum við þá tunglmyrkva.

Við sjáum aftur á móti tunglið aldrei ganga fyrir jörðina vegna þess að við stöndum á jörðinni. Geimförin okkar geta á hinn bóginn notið útsýnisins.

Árið 2005 skaut NASA á loft Deep Impact geimfarinu. För þess var heitið til halastjörnunnar Tempel 1. Um borð í Deep Impact var koparmassi sem geimfarið átti að losa frá sér og rekast á halastjörnuna með tilheyrandi hamförum. Á meðan þessu stóð sigldi geimfarið sjálft framhjá og heimsótti halastjörnuna aldrei aftur. Leiðangrinum var breytt og því gert að leita að ummerkjum um þvergöngu fjarreikistjarna ásamt því að heimsækja halastjörnuna Hartley 2 árið 2010.

Deep Impact geimfarið var í tæplega 50 milljón km fjarlægð frá jörðu þegar myndavélum geimfarsins var beint heim. Myndir voru teknar á 15 mínútna fresti yfir heilan sólarhring til þess að útbúa þessa stórkostlegu hreyfimynd af göngu tunglsins fyrir jörðina. Á myndinni kemur tunglið inn í myndinna (vegna umferðarhraða þess), gengur fyrir jörðina og út úr myndinni. Önnur geimför hafa myndað jörðina og tunglið utan úr geimnum en Deep Impact er fyrsta geimfarið sem sér tunglið ganga fyrir jörðina. Á myndinni má augljóslega greina stóra gíga á tunglinu og höf og meginlönd á jörðinni.

Mynd: Donald J. Lindler, Sigma Space Corporation/GSFC; EPOCh/DIXI Science Teams

----

7. Vetrarbrautin NGC 1275

Þessa glæsilegu mynd af vetrarbrautinni NGC 1275 tók Hubblessjónaukinn í júlí og ágúst 2006, en myndin var ekki birt opinberlega fyrr en árið 2008 og er ein besta stjörnuljósmynd ársins. Á myndinni sjást ótrúleg smáatriði í vetrarbrautinni. Rauðleitu þræðirnir umhverfis vetrarbrautina sjálfa eru kaldir þrátt fyrir að gasið í kringum þá sé um 55 milljón gráðu heitt. Þessir gasþræðir eru fastir í segulsviði og viðheldur það uppbyggingu þeirra. Þræðirnir sýna hvernig orka frá svartholi í kjarna vetrarbrautarinnar flyst út til gassins í kringum vetrarbrautina. Með því að skoða þessa gasþræði geta stjörnufræðingar ákvarðað styrk segulsviðsins.

Minnstu þræðirnir sem sjást á þessari mynd eru aðeins um 200 ljósár í þvermál en allt að 200.000 ljósára langir. Svæðið á myndinni er um 260.000 ljósár í þvermál.

Á myndinni sést einnig ryk frá annarri þyrilvetrarbraut. Rykið liggur að hluta til fyrir fram sporvöluvetrarbrautina í miðjunni sem hefur tvístrast algjörlega af völdum flóðkrafta innan vetrarbrautarþyrpingarinnar. Bláu þræðirnir eru heitar nýfæddar stjörnur.

Mynd: NASA/ESA og Andy Fabian (University of Cambridge, UK)

----

6. Bjartasti gammablossinn

Þann 12. september greindum við frá því að Swift gervitunglið hafi í þann 19. mars 2008 greint bjartasta gammablossann sem sést hefur hingað til. Blossinn varð til þegar gríðarlega massamikil stjarna sprakk við ógnarlegar hamfarir og myndaði svarthol. Blossinn átti sér stað í 7,5 milljarða ljósára fjarlægð, en hann varð samt nógu bjartur til þess að sjást með berum augum! Stjarnan sem áður var, sprakk tvö þúsund milljón árum áður en jörðin okkar varð til! Ljós hennar var svo skært að við hefðum getað séð það með berum augum, 7,5 milljörðum árum síðar! Ótrúlegt en satt.

Við þessar hamfarir getur hluti geislunarinnar frá sprengingunni myndað mjóa stróka sem beinast út í geim, ekki ósvipað og þegar við sjáum ljós frá áttavita berast til okkar. Benist strókurinn beint í átt til jarðar verður blossinn einstaklega bjartur frá sjónarhorni okkar. Gammablossar eru mestu hamfarir sem þekkjast í alheiminum. Ef gammablossi ætti sér stað í innan við þúsund ljósára fjarlægð frá okkur myndi geislunin þeyta burt lofthjúpnum okkar, steikja okkur líkt og örbylgjuofn og eyða nánast öllu lífi á jörðinni. Sem betur fer þurfum við engar áhyggjur af hafa, því engin stjarna svo nálægt okkur getur sprungið á þennan hátt. 

Mynd: NASA/Swift/Stefan Immler et al.

----

5. Rykstormur á Mars

Þessa ótrúlegu mynd af rykstormi við gljúfrakerfi á Mars tók Mars Reconnaissance Orbiter geimfarið. Mars Reconnaissance Orbiter er útbúið gríðarlega öflugum myndavélum sem gegna því hlutverki að kortleggja yfirborðið mjög nákvæmlega svo unnt sé að draga upp sögu fljótandi vatns á yfirborðinu. MRO gegnir auk þess hlutverki veðurtungls sem fylgist stöðugt með veðurfarinu á Mars. Stundum sér geimfarið storma verða til á yfirborðinu, líkt og á myndinni hér fyrir ofan.

Rykstormar á Mars verða til þegar vindur lyftir rykögnum upp af yfirborðinu og hátt upp í lofthjúpinn. Vatnsís í lofthjúpnum þéttist á rykagnirnar og mynda ljósleit ský. Stundum breytast litlir staðbundnir rykstormar sem þessi í einn risavaxinn hnattrænan rykstorm sem hylur allt yfirborðið svo aðeins hæstu tindar eldfjallanna á Mars standa upp úr.

Á hverju degi verða talsverðar breytingar í lofthjúpi Mars. Þessar breytingar má að hluta rekja til þess að á Mars eru engin höf eins og á jörðinni. Á jörðinni geyma höfin mikinn varma svo hitasveiflur hér eru ekki ýkja miklar milli dags og nætur. Yfirborð Mars er ein eyðimörk sem hitnar fljótt á daginn en kólnar jafnsnöggt á næturnar, líkt og í eyðimörkum jarðar. Daglegar hitasveiflur upp á 100°C sem endurspeglast í breytileika lofthjúpsins.

Veðurfarið á Mars er óskaplega heillandi og lærdómsríkt fyrir okkur sem lifum á tímum loftslagsbreytinga á jörðinni. Mars Reconnaissance Orbiter er sendherra jarðarbúa á rauðu reikistjörnunni og er ætlað að afhjúpa leyndardóma hennar.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

----

4. Ganýmedes hverfur bakvið Júpíter

Hubblessjónaukinn er fjarri því stærsti stjörnusjónauki heims en hann býr yfir þeim ótvíræða kosti að staðsetning hans er bókstaflega ójarðnesk. Hubblessjónaukinn er nefnilega á sporbraut um jörðina í 600 km hæð, langt yfir skaðlegum áhrifum lofthjúpsins á ljósið frá fyrirbærum himingeimsins. Lofthjúpurinn okkar hegðar sér ekki ósvipað og vatn. Þegar ljós berst í gegnum hann, brotnar ljósið og myndin verður óskýrari.

Hubblessjónaukinn gerir stjörnufræðingum þess vegna kleift að ná ótrúlega skörpum ljósmyndum af reikistjörnum og tunglum í sólkerfinu. Hubble tók þessa fallegu ljósmynd af Júpíter og tunglinu Ganýmedes, skömmu áður en tunglið hvarf aftur fyrir gasrisann. Myndin var útbúin úr þremur ljósmyndum sem teknar voru með rauðri, grænni og blárri litsíu þann 9. apríl 2007, en hún var ekki birt fyrr en í desember 2008. Myndin sýnir Júpíter og Ganýmedes nánast alveg eins og þessir fallegu og forvitnilegu hnettir kæmu geimfara fyrir sjónir. Vel fer á að þessi stórkostlega mynd birtist skömmu fyrir Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 þegar þess er minnst að 400 ár eru liðin frá því Galíleó beindi sjónauka til himins og uppgötvaði meðal annars þetta tungl (reyndar í janúar 1610).

Ganýmedes snýst einn hring umhverfis Júpíter á sjö dögum á braut sem er nærri á rönd í átt til jarðar. Tunglið sést því reglulega ganga fram fyrir eða hverfa aftur fyrir Júpíter. Ganýmedes er stærsta tungl sólkerfisins, meira að segja stærra en reikistjarnan Merkúríus. Væri hann á braut um sólina teldist hann því reikistjarna. 

Mynd Hubbles er svo skörp að sjá má smáatriði á ísilögðu yfirborði Ganýmedesar. Mest áberandi er hvít skella á gráleitu yfirborðinu. Þetta er árekstragígurinn Tros og ljósar efnisskvettur sem stefna út frá honum. Svæðið í heild er álíka stórt og Ísland að flatarmáli. 

Á myndinni sést einnig Stóri rauði bletturinn á Júpíter. Þessi blettur er risavaxið háþrýstisvæði sem er tvöfalt stærra en jörðin að þvermáli og hefur sennilega verið til staðar í yfir 300 ár.

En þótt myndin sé falleg hefur hún líka heilmikið vísindalegt gildi. Stjörnufræðingar nota þessa mynd til þess að rannsaka efri hluta lofthjúps Júpíters. Þegar Ganýmedes hverfur á bak við reikistjörnuna, endurvarpar hann sólarljósi sem berst í gegnum lofthjúp Júpíters. Í þessum ljósgeislum leynast heilmiklar upplýsingar um hitastigið og skýjafarið.

Sjá nánar: Júpíter

Mynd: NASA, ESA, og E. Karkoschka (University of Arizona)

----

3. Phoenix finnur vatnsís við norðurpól Mars

Phoenix geimfarið lenti norðan norðurheimskautsbaugs Mars þann 25. maí 2008 eftir tíu mánaða ferðalag. Lendingarstaðurinn var valinn eftir að geimför á sporbraut um Mars höfðu greint merki um vetni undir yfirborðinu sem benti til þess að vatnsís í miklu magni væri þar að finna. Phoenix átti að sannreyna þessa athugun. 

Um leið og Phoenix opnaði augun við komuna til Mars sáust greinileg merki þess að ís væri að finna undir yfirborðinu. Á myndunum sáust svonefndir frosttiglar, en þeir myndast þegar ísinn undir þiðnar og frýs til skiptis. Þegar ísinn frýs þenst hann út, en þegar hann þiðnar dregst hann saman og skilur eftir sig augljóst tiglamynstur. Þessir tiglar finnast víða á jörðinni, meðal annars á Íslandi.

Um borð í Phoenix var meðal annars armur og skófla. Þannig gat Phoenix rétt út höndina, snert jarðveginn og safnað honum saman í lófann. Síðan var jarðvegurinn færður í ofna sem kallast TEGA. Í TEGA var efnið hitað smám saman þar til efni losnuðu sem gufa. Þannig gátu vísindamenn áttað sig á því hvaða efni leyndust í jarðveginum. Einnig voru gerðar sýrumælingar og í ljós kom að sýrustig jarðvegsins var um pH 8 sem er álíka hátt og á jörðinni. 

Á hreyfimyndinni hér til hliðar sést hvar Phoenix gróf ofan í jarðveginn. Við gröftinn kom Phoenix fljótt niður á harða ljósa fyrirstöðu. Ljósmyndirnar sýndu að þetta efni þurrgufaði, þ.e. breyttist úr föstu formi í loftkennt form án þess að verða fljótandi á milli, sem staðfesti að þetta var ís en ekki ljós jarðvegur. Þessi ís er vatn: ef þú næðir honum upp og bræddir hann gætir þú gætt þér á svalandi vatni frá Mars! Hver veit nema Marsfarar framtíðarinnar geri þetta dag einn?

Möndull Mars hallar um 25 gráður frá lóðréttu sem þýðir að Mars gengur í gegnum svipuð árstíðaskipti og jörðin. Árstíðirnar eru tvöfalt lengri þar sem Mars er tvöfalt lengur en jörðin að snúast einn hring umhverfis sólina. Phoenix lenti að sumri til á norðurheimskautsbaug Mars sem þýðir að sólin settist aldrei á meðan leiðangurinn stóð sem hæst. Smám saman fór sólin þó lækkandi á lofti og myrkrið tók við. Phoenix var knúinn sólarrafhlöðum sem fóru þverrandi eftir því sem sólar naut minna við. Að lokum fór svo að samband rofnaði við geimfarið og lýsti NASA yfir leiðangurslokum 2. nóvember 2008. 

Mynd: NASA/JPL/-Caltech/University of Arizona

----

2. Fjarreikistjarnan Fomalhaut b

Auga Saurons úr Hringadróttinssögu?

Síðustu þrettán ár hafa stjörnufræðingar fundið hundruð reikistjarna á braut um fjarlægar sólstjörnur. Allar hafa þessar reikistjörnur fundist óbeint. Með því er átt við að við höfum aðeins greint ummerki um þær eða þau áhrif sem reikistjörnurnar hafa á móðurstjörnuna sína. Þegar massamiklar reikistjörnur ganga í kringum móðurstjörnuna toga þær í stjörnuna svo hún virðist vagga örlítið til og frá. Stundum ganga reikistjörnurnar einnig fyrir móðurstjörnuna frá okkur séð. Þá minnkar birta stjörnunnar örlítið, en þó nógu mikið til þess að mælitækin okkar greini það.

Stjörnufræðingar höfðu því aldrei séð fjarreikistjörnu fyrr en í nóvember á þessu ári. Þegar stjörnufræðingurinn Paul Kalas tók ljósmynd af stjörnunni Fomalhaut í Suðurfisknum árið 2004 tók hann eftir örlitlum ljósdepli sem hann grunaði að væri reikistjarna. Tveimur árum síðar tók Hubble aðra ljósmynd af stjörnunni og tók Kalas eftir því að ljósdepillinn hafði færst miðað við stjörnuna. Færslan benti til þess að depillinn væri bundinn við Fomalhaut og lýsti hún umferðartímanum sjálfum.

Kalas hafði uppgötvað fjarreikistjörnu með beinum hætti. Myndir Hubbles voru fyrstu ljósmyndirnar af reikistjörnu í kringum aðra stjörnu en sólina okkar.

Myndin hér að ofan sýnir stjörnuna Fomalhaut falda bak við svokallaða kórónusjá og rykhringinn sem umlykur hana (kórónusjáin dregur úr glýjunni frá stjörnunni og gerir okkur kleift að sjá rykhringinn). Hringurinn hefur óvenju skarpa innri brún auk þess sem hún víkur talsvert frá miðju. Þegar stjörnufræðingar sáu þetta tók þá að gruna að ástæðan lægi í þyngdaráhrifum frá reikistjörnu á sveimi umhverfis stjörnuna.

Reikistjarnan ber það ótrúlega frumlega nafn Fomalhaut b. Hún er sennilega þrefalt massameiri en Júpíter en er 870 ár að ljúka einni hringferð um Fomalhaut. Þyngdarkrafturinn frá reikistjörnunni mótar hringinn.

Sjá nánar: Fomalhaut b

Mynd: NASA, ESA, P. Kalas, J. Graham, E. Chiang, E. Kite (University of California, Berkeley), M. Clampin (NASA Goddard Space Flight Center), M. Fitzgerald (Lawrence Livermore National Laboratory), og K. Stapelfeldt og J. Krist (NASA Jet Propulsion Laboratory)

----

1. Phoenix kemur inn til lendingar

Besta mynd ársins! Myndin var tekin sunnudaginn 25. maí 2008 þegar Mars Reconnaissance Orbiter geimfarið beindi HiRISE myndavélinni að lendingarsvæði Phoenix á sama tíma og Phoenix kom inn til lendingar. HiRISE er öflugasta myndavél sem send hefur verið út í sólkerfið; svo öflug að hún gæti hæglega greint þig í fótbolta á yfirborðinu... ef þú værir þar auðvitað.

Mars Reconnaissance Orbiter var yfir lendingarstaðnum þegar Phoenix kom inn til lendingar og tók þessa stórkostlegu mynd af atburðinum. Á myndinni sést geimfarið innan í verndarskelinni þar sem það hangir í fallhlífinni. Á þessu augnabliki er Phoenix í átta til tíu km hæð yfir Mars og í um 20 km fjarlægð frá gígnum í bakgrunni, sem heitir Heimdallur!

Tuttugu og tveimur klukkustundum síðar flaug MRO aftur yfir lendingarstaðinn og smellti af. Á myndinni hér til hægri neðan sést Phoenix geimfarið á sléttu yfirborðinu, innan um svonefnda frosttigla sem benti einmitt til þess að undir jarðveginum væri ís í talsverðu magni.

Hvers vegna valdi ég þessa mynd? Hún er einfaldlega stórkostleg og sýnir sendiherra jarðarbúa lenda á annari reikistjörnu! Þetta er mynd sem kallar fram "Vá" þegar fólk sér hana fyrst. Ótrúleg mynd sem ber verkfræðikunnáttu manna fagurt vitni.

Sjá stærri mynd hér.

Sjá nánar: Phoenix

Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

 

 

- Sævar Helgi Bragason

 

Facebook