Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Stjörnumerkið Ljónið

 

Efnisyfirlit

Ljónið er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Það er stórt um sig og lendir í 12. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð. Ljónið er áberandi á himninum á vorin og auðþekkjanlegt. Stjörnurnar í höfðinu mynda eins konar sigð á himninum sem er tiltölulega auðvelt að finna á himninum talsvert neðan við Karlsvagninn.

Ljónið er að mestu norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Krabbanum í vestri, Litlaljóni og Stórabirni í norðri, Meyjunni og Bereníkuhaddi í austri og Bikarnum, Sextantinum og Vatnaskrímslinu í suðri. Ljónið eru eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Mynd sem teiknuð var eftir lýsingu samtíðarmanns á leonítaloftsteinadrífunni 1833.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Ljóninu seinni part sumars. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Ljónsins frá 10. ágúst til 16. september (en ekki frá 23. júlí til 23. ágúst eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Ljóninu. Skærasta stjarnan í Ljónsmerkinu, Regúlus, er örskammt frá sólbaugnum og sést því oft á svipuðum stað og hnettir sólkerfisins (eins og er betur lýst í umfjöllun um Regúlus hér að neðan).

Loftsteinadrífan leonítar er kennd við Ljónið sem nefnast Leo á latínu. Leonítar eiga rætur að rekja til halastjörnunnar Tempel-Tuttle. Drífan nær hámarki 17.-18. nóvember og virðist geislapunktur stjörnuhrapanna vera í við stjörnuna Algíebu í sigðinni fremst í Ljónsmerkinu.  Ljósrákirnar geta birst víða á himninum út frá stjörnunni. Leonítar eru án efa þekktasta loftsteinadrífan en ástæða þessarar miklu frægðar er sú að á um það bil 33 ára fresti fer jörðin í gegnum sérlega þéttan hluta af rykslóða Tempel-Tuttle halastjörnunnar. Árið 1833 var einstaklega mikil loftsteinahríð og gátu áhorfendur sér þess til að sést hefðu um 100 þúsund stjörnuhröp á einni klukkustund! Síðasta öfluga leonítahryðjan kom árið 1966.

Ljónið á himninum yfir Íslandi

Ljónið tekur að sjást að kvöldlagi upp úr áramótunum og er á kvöldhimninum fram í apríl. Það er í suðaustri klukkan tíu að kvöldi í mars.

Stjörnumerkið Ljónið á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (15. mars) klukkan 22:00. Horft er í suðaustur. Í austri eru Bereníkuhaddur og Meyjan, í vestri Sextantinn, Vatnaskrímslið og Krabbinn og í norðri Litlaljón og Stóribjörn. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Sem fyrr segir mynda fremstu stjörnurnar í Ljóninu áberandi mynstur á himninum og sér fólk út úr því ýmist sigð, speglað spurningamerki eða sjóræningjakrók. Auðveldast er að finna Ljónið á vorhimninum með því að leita að sigðinni fyrir neðan Karlsvagninn í Stórabirni.

Uppruni stjörnumerkisins

Í grískum goðsögum segir frá kappanum Herkúlesi sem þarf að leysa tólf þrautir. Í fyrstu þrautinni drepur hann ljón sem síðan var sett upp á himininn.

Stjörnur í Ljóninu

Um 52 stjörnur í Ljóninu sjást með berum augum. Björtustu stjörnurnar eru Regúlus, Denebóla og Algíeba.

 • Regúlus (α (alfa) Leonis) er bjartasta stjarnan í 78 ljósára fjarlægð frá jörðu. Nafnið er komið úr latínu og merkir prins eða lítill konungur. Hún er neðsta stjarnan og sú langbjartasta í sigðinni sem er eitt helsta einkenni stjörnumerkisins. Regúlus er með sýndarbirtustigið +1,35 og skærasta stjarnan í næsta nágrenni við sólbauginn. Þar sem sólkerfið okkar er nokkurn veginn flatt eins og pönnukaka ferðast tunglið og reikistjörnurnar í grennd við sólbauginn. Það kemur því stundum fyrir að Regúlus er í svipaða stefnu og reikistjörnurnar og eins gengur tunglið reglulega fyrir Regúlus. Regúlus er þrístirni þar sem ein stjarnan er heit og skær en hinar stjörnurnar stjörnurnar eru kaldar, daufar dvergstjörnur. Aðalstjarnan er 3,5 sinnum massameiri en sólin okkar og um 150 sinnum bjartari. Hún er nálægasta stjarnan við okkur í litrófsflokki B en í honum eru bláhvítar og bjartar sólstjörnur.
 • Denebóla (β (beta) Leonis) er í skotti Ljónsins. Nafnið er komið úr arabísku og vísar til aftasta hluta stjörnumerkisins rétt eins og stjarnan Deneb er í stéli Svansins. Hún er með birtustigið +2,1 í 36 ljósára fjarlægð frá sólu. Denebólu svipar til stjörnunnar Vegu í Hörpunni. Báðar stjörnurnar eru hvítar í litrófsflokki A og umhverfis þær er að finna rykskífu þar sem reikistjörnur gætu leynst. Enn hafa þó ekki fundist merki um reikistjörnur á braut um Denebólu og Vegu.
 • Algíeba (γ (gamma) Leonis) er þriðja bjartasta stjarnan í Ljóninu með birtustigið +2,2. Algíeba er í 126 ljósára fjarlægð frá sólu og er hluti af sigðinni svonefndu í höfði Ljónsins. Hún er tvístirni og við góðar aðstæður má með stjörnusjónauka greina á milli tveggja stjarna með birtustig +2,6 og +3,5 (hornbilið er 5 bogasekúndur). Þótt stjörnurnar séu svipaðar að lit ýkir augað litamuninn svo þær virðast ólíkar að sjá. Umferðartími stjarnanna umhverfis þyngdarmiðju tvístirnisins er um 620 ár en braut þeirra er mjög ílöng og því er bilið á milli þeirra allt frá því að vera 15 AU (stjarnfræðieiningar) og upp í 180 AU sem er rúmlega tvöföld fjarlægð frá sólinni. Fyrir tilviljun er geislapunktur leonítaloftsteinadrífunnar er á sama stað og þessi bjarta stjarna.
 • ρ (ró) Leonis er tiltölulega dauf að sjá með sýndarbirtustigið +3,85. Hún er hins vegar afar fjarlægð í tæplega 4.000 ljósára fjarlægð og því meðal björtustu og fjarlægustu stjarna sem auðvelt er að sjá með berum augum. Hún er tvístirni tveggja álíka bjartra sólstjarna sem nefndar eru Rho Leo A og Rho Leo B (með sýndarbirtustig +4,4 og +4,8). Skærari stjarnan er blár risi sem talin er vera um 160.000 sinnum bjartari en sólin og 23 sinnum massameiri! Hún er um 7 milljón ára gömul sem þýðir að endalokin eru ekki langt undan en hún mun springa sem áður en hún nær 10 milljón ára aldri.

Djúpfyrirbæri í Ljóninu

Fimm vetrarbrautir úr Messier-skránni er að finna í Ljóninu: M65, M66, M95, M96 og M105.

 • M66 er þyrilvetrarbraut í Ljónsþrenningunni ásamt vetrabrautunum M65 og NGC 3628. Hún er stærri en M65 og er með birtustigið +8,9.
 • NGC 3628 er daufasta þyrilvetrarbrautin í Ljónsþrenningunni með birtustigið +9,5.
 • M95 er bjálkaþyrilvetrarbraut með tvo meginarma og lítur því svipað út og Vetrarbrautin okkar sem hefur verið kortlögð út frá geislun frá gasskýjum. M95 er með birtustigið +9,7. M95 er hluti af Leo I vetrarbrautahópnum ásamt M96, M105 og fleiri daufari vetrarbrautum. Hópurinn er í um 40 milljón ljósára fjarlægð frá sólinni.
 • M96 er þyrilvetrarbraut og stærsta vetrarbrautin í Leo I vetrarbrautahópnum. Hún er með birtustigið +9,2.
 • M105 er sporvöluvetrarbraut í Leo I vetrabrautahópnum. Hún er nánast hringlaga að sjá frá jörðinni með birtustigið +9,3.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Ljónið (einfalt kort)

Ljónið og stjörnumerki umhverfis það.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Ljónsins til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíða um Ljónið á Wikipediu (skoðuð 10. ágúst 2008).
 3. Vefsíða um leoníta á Wikipedíu (skoðuð 10. ágúst 2008).
 4. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 10. ágúst 2008).
 5. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 10. ágúst 2008).
 6. http://www.daviddarling.info/encyclopedia/R/Regulus.html (skoðuð 10. ágúst 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook