




![]() |
Mímas (fylgitungl Satúrnusar)
Satúrnus I
|
Mímas er áttunda þekkta og sjöunda stærsta fylgitungl Satúrnusar. Tunglið fann ensk-þýski stjörnuáhugamaðurinn William Herschel þann 17. september árið 1789. Tunglið var nefnt eftir títananum Mímasi sem var sonur Gæju í grískri goðafræði, en hann var einn þeirra risa sem Ólympusarguðinn Hefæstos slátraði.
Mímas hringsólar um Satúrnus í um 185.500 km fjarlægð frá miðju reikistjörnunnar, innan E-hringsins örþunna. Tunglið er á jafntímabraut (synchronous orbit) sem þýðir að tunglið er jafn lengi að snúast um möndul sinn eins og að ljúka einum umferðartíma og snýr því ætíð sömu hlið í átt að Satúrnusi, rétt eins og tunglið okkar.
Mímas er aðeins um 390 km í þvermál og nokkurn veginn eins lítið og það getur verið til þess að ná kúlulögun. Eðlismassi Mímasar er mjög lágur (1,17 g/cm3) og bendir það til þess að tunglið sé að mestu úr vatnsís en einnig bergi að litlu leyti. Talsverðir flóðkraftar verka á tunglið sem gerir það af verkum að tunglið er ekki fullkomlega kúlulaga. Langás tunglsins er þannig um 10% lengri en skammásinn. Þetta veldur því að tunglið er nokkurn veginn egglaga.
Yfirborð
Fyrstu nærmyndir af Mímasi bárust árið 1980 þegar Voyager 1 flaug framhjá. Á myndunum sést að yfirborðið er mjög gígótt og bendir það til þess að það hafi ekki breyst mikið í milljarða ára.
Stærsti árekstragígurinn og um leið mest áberandi kennileiti tunglsins er gígurinn Herschel sem veldur því að tunglið minnir einna helst á Helstirnið í Stjörnustríðsmyndunum. Þess vegna er Mímas stundum kallað Helstirnið.
Herschel gígurinn er engin smásmíð, rétt eins og Helstirnið í Stjörnustríði. Gígurinn er 130 km í þvermál og þekur næstum þriðjung af þvermáli tunglsins. Gígbarmarnir mynda fimm km háa hamraveggi og gígurinn sjálfur er tíu km djúpur. Í miðju hans er fjallstindur sem rís sex km upp úr gígbotninum. Áreksturinn sem myndaði gíginn hefur haft mikil áhrif á tunglið í heild og næstum tvístrað því. Á gagnstæðri hlið eru stórar sprungur sem mynduðust af völdum höggbylgna í kjölfar árekstursins.
Allir gígar á Mímasi utan Herschel eru nefndir eftir persónum úr sögunni um Arthúr konung. Sprungusvæðin eru aftur nefnd eftir stöðum sem koma fyrir í sömu sögu.
Tölulegar upplýsingar
Meðalfjarlægð frá miðju Satúrnusar: | 185.520 km |
Umferðartími um Satúrnus: | 0,94 jarðdagar |
Snúningstími: | Bundinn möndulsnúningur |
Þvermál: |
390 km |
Massi: |
~3,7 x 1019 kg |
Eðlismassi: |
1,7 g/cm3 |
Þyngdarhröðun: |
0,0636 m/s2 |
Lausnarhraði: | ~0,016 km/s |
Meðalhitastig yfirborðs: |
-200°C |
Endurskinshlutfall: |
0,96 |
Brautarhalli miðað við miðbaug Satúrnusar: |
1,51° |
Birtustig: | +12,9 |
Uppgötvað af: | William Herschel |
Uppgötvað árið: |
17. september 1789 |
Heimildir
- Saturn's Moon Mimas. The Planetary Society. Sótt 08.07.08.
- Mimas. The Nine Planets.org. Sótt 08.07.08.
- USGS: Mimas Nomenclature. Sótt 08.07.08.
- Solar System Exploration: Planets: Saturn: Moons: Mimas. Sótt 08.07.08.




