Listaverk frá Mars (myndasyrpa)

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

19. janúar 2010

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Frá árinu 2006 hefur Mars Reconnaissance Orbiter geimfar NASA sveimað umhverfis Mars í tæplega 300 km hæð. Um borð í geimfarinu er HiRISE, öflugasta myndavél sem send hefur verið út í sólkerfið. Myndir HiRISE eru í senn stórglæsilegar og stórfurðulegar og líkjast oft á tíðum fegurstu listaverkum. Hér er að finna tuttugu ljósmyndir sem HiRISE hefur tekið síðustu árin af yfirborði Mars. Sumar ljósmyndirnar eru svarthvítar, aðrar vísvitandi í fölskum litum til þess að draga fram smáatriði sem annars sæjust illa eða alls ekki.

HiRISE er 0,5 metra breiður sjónauki með stórri CCD myndavél sem gefur 0,3 metra upplausn úr 300 km hæð. Til samanburðar eru gervihnattamyndirnar í Google Earth með 1 metra upplausn úr sambærilegri hæð. HiRISE sér þrjár mismunandi bylgjulengdir ljóss: 400-600 nm (blá-græn), 550-850 nm og 800-1000 nm (nær-innrautt). Ein ljósmynd frá HiRISE, tekin með rauðri síu, er 20.000 x 126.000 pixlar eða 2520 megapixlar. Blá-grænar og nær-innrauðar myndir eru öllu minni eða 4000 x 126.000 pixlar (504 megapixlar). Óþjöppuð ljósmynd frá HiRISE er 28 Gb. Allar myndirnar eru þjappaðar áður en þær eru sendar til jarðar, venjulega niður í 11,2 Gb.

HiRISE er sem sagt engin vasamyndavél.


1. Stór sandalda þakin dökkum rákum í eyðimerkurlandslagi Mars. Á þessu svæði verða stundum til öflugir sandstrókar sem þyrla upp hinu örfína ryðrauða ryklagi sem þekur Mars. Þegar sandstrókarnir leika um svæðið, fýkur rykið burt og við blasir dökkur basaltsandur sem undir er. Myndin var ein af tíu bestu stjörnuljósmyndum ársins 2009 að mati Stjörnufræðivefsins. Meira.
 
2. Viktoríugígurinn á Meridianisléttunni, lendingarsstað Opportunity jeppans, á Mars. Gígurinn er um 800 metra breiður en til þess að glöggva sig betur á stærðinni má benda á að Laugardalsvöllur kæmist í heild sinni fyrir á sandöldusvæðinu á botni gígsins. Við skorum á þig að skoða myndina í 4045x5085 punkta upplausn (3 mb).
 
3. Marsjeppinn Opportunity rannsakaði Viktoríugíginn árið 2006. Hér sést hann á gígbarminum. Ef vel er að gáð sést skugginn af myndavélamastrinu skaga út úr jeppanum í suðausturátt. Glöggir sjá ef til vill slóðina eftir jeppann á myndinni.
 
4. Þessi mynd sýnir 800 metra breiða sprungu sem er hluti af stóru sprungusvæði sem kallast Cerberus Fossae. Reikistjörnufræðingar telja að upp úr þessum sprungum hafi fossað vatn eða hraun, ef til vill hvort teggja, einhvern tímann í fyrndinni, en straumlínulagaðar hæðir bera þess merki. Meira.
 
5. Á þessari mynd sést skriða falla niður hlíð á norðurpól Mars. Skriðan er um 180 metra breið og nær næstum 200 metra frá hlíðinni. Hún  inniheldur ryk, ísagnir, sand og hugsanlega stærra grjót og hnullunga. Meira.
 
6. Á heimskautum Mars eru pólhettur úr vatnsís. Þegar vetur gengur í garð á pólunum verður svo hrikalega kalt að koldíoxíðið í lofthjúpnum frýs og leggst eins og teppi yfir pólsvæðin. Hér sést þurrís (frosið koldíoxíð) á suðurpóli Mars. Sléttu svæðin er nokkurra metra þykkur þurrís. Lægðirnar myndast þegar ísinn þurrgufar. Meira.
 
7. Í botni margra gíga á Mars eru stærðarinnar sandöldur. Hér sjást nokkrar slíkar í gíg sem heitir Noachis Terra sem er vestan við Hellas risaárekstradældina. Blái liturinn er svartur basaltsandur. Á milli sandaldanna sést í stærra grjót og hnullunga. Meira.
 
8. Í ármilljónir hefur yfirborð Mars mótast af vatni, vindum, frosti og árekstrum. Þessi mynd sýnir litamun á setlögum í Juventae Chasma í Marinergljúfrunum á Mars. Ljósu setlögin innihalda kísil og járnsúlföt. Meira.
 
9. Víða á Mars eru augljós merki þess að vatn hafi eitt sinn runnið þar um. Á þessari mynd blasa sönnunargögnin við. Þetta eru svonefnd giljadrög þar sem vatn hefur sorfið bergið í hlíðum gígs á Mars. Þú hefur mörgum sinnum séð svona giljadrög en kannski ekki veitt þeim neina sérstaka athygli. Þau eru nefnilega að finna í öllum fjöllum Íslands þar sem vatn rennur niður hlíðarnar. Meira.
 

10. Setlög og sandöldur í Noctis Labyrinthus sem er sprungusvæði við vesturenda Marinergljúfranna. Um borð í Mars Reconnaissance Orbiter er öflugur litrófsmælir sem gerir jarðfræðingum kleyft að átta sig á efnasamsetningu setlaganna á svæðinu. Á Mars, líkt og á jörðinni, er ævisaga svæðisins rituð í setlög. Á þessu svæði finnast járnsúlföt og leirsteindir sem benda til þess að þarna hafi eitt sinn runnið vatn. Meira.
 
11. Einmana sandstrókur á yfirborði Mars austan Hellas og sunnan Reull Vallis. Efsti hluti sandstróksins er um 200 metra breiður en við yfirborðið er hann sennilega miklu smærri. Með aðferðum hornafræðinnar er hægt að reikna út hæð hans út frá lengd skuggans á myndinni. Strókurinn er líklega 500 metra hár. Meira.
 
12. Súkkulaðikaka? Sandöldur geta tekið á sig sérkennilegar myndir á Mars. Þessi mynd sýnir sandöldur á botni eins gígs á suðurhvelinu. Myndin er tekin að vetri til og hefur hrím lagst yfir. Hrímið gefur sandöldunum þennan sérkennilega glampa svo þær minna fremur á súkkulaðikrem á gómsætri súkkulaðiköku. Meira. 
 
13. Aurkeila í Mojave gígnum á Xanthe Terra svæðinu á Mars. Aurkeilur eru eitt helsta landslagseinkenni í eyðimörkum jarðar. Þær verða til þar sem vatn flæðir út á sléttu við gljúfur- eða giljaenda. Þegar það gerist hægir vatnið á sér og dreifist yfir stórt svæði. Við það fellur setið úr vatninu og myndar aurkeilu, keilulaga svuntu úr seti. Meira.
 
14. Á henni sést risasvaxið sandöldusvæði á norðlægum breiddargráðum, á stað sem e.t.v. var á kafi í vatni fyrir milljörðum ára. Á veturnar verður svo kalt á þessum slóðum að koldíoxíðið í lofthjúpnum frýs og þurríslag legst yfir sandöldurnar og bindur ryk í hlíðum sandöldunnar. Með vorinu hækkar sólin á lofti og hitastigið um leið. Við það þurrgufar þurrísinn, rykið losnar úr krumlum hans og fossar niður hlíðarnar. Við það myndast dökku rákirnar í sandölduhlíðunum. Meira.
 
15. Setlög í Chasma Boreal við norðurpól Mars. Chasma Boreal er stórt gljúfur sem myndast hefur við rof á setlögum. Á myndinni eru rauðleitu setlögin blanda íss og ryks en dökki sandurinn er sennilega hefðbundinn basaltsandur. Hér er sennilega loftslagssaga Mars rituð í ísinn og rykið í þessum fallegu jarðlögum. Meira.
 
16. Skriðuföll í gíg á Arabia Terra á Mars. Yngstu skriðurnar eru dekkstar en þær elstu ljósastar. Meira. 
 
17. Sunnudaginn 25. maí 2008 lenti Phoenix geimfarið á Mars. Á sama tíma og Phoenix kom inn til lendingar var Mars Reconnaissance Orbiter var yfir lendingarstaðnum þegar Phoenix kom inn til lendingar og tók þessa stórkostlegu mynd af atburðinum. Á myndinni sést geimfarið innan í verndarskelinni þar sem það hangir í fallhlífinni. Á þessu augnabliki er Phoenix í átta til tíu km hæð yfir Mars og í um 20 km fjarlægð frá gígnum í bakgrunni, sem heitir Heimdallur! Meira.
 

18. Tuttugu og tveimur klukkustundum síðar flaug MRO aftur yfir lendingarstað Phoenix og smellti af. Á myndinni sést Phoenix geimfarið á sléttu yfirborðinu, innan um frosttigla sem benti til þess að undir jarðveginum væri ís í talsverðu magni sem reyndist síðar raunin. Meira.
 
19. Tvö fylgitungl ganga umhverfis Mars, Fóbos og Deimos. Hér sést gígurinn Stickney á Fóbosi sem er 9 km breiður. Í gígbörmum Stickney sjást ummerki skriðufalla. Meira.
 
20. Jörðin og tunglið séð frá Mars. Á jörðinni glittir í útlínur Suður-Ameríku. Þú ert á þessari mynd. Meira.

Ítarefni á Stjörnufræðivefnum:

 - Sævar Helgi Bragason

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook