Sólkerfið
Listi yfir Apollo geimfara

Listi yfir Apollo geimfara

Hér er að finna lista yfir alla þá geimfara sem tóku þátt eða tengdust Apollo geimáætlun NASA. Í heild flugu þrjátíu og átta geimfarar með Apollo geimfari, þar af tuttugu og níu sem hluti af Apollo geimáætluninni en afgangurinn í Skylab geimstöðvarverkefninu og Apollo-Soyuz. Tuttugu og fjórir geimfarar flugu alla leið til tunglsins og gengu tólf af þeim á tunglinu sjálfu. Þrír geimfarar flugu í tvígang til tunglsins en enginn þeirra lenti oftar en einu sinni.

Þessir tuttugu og fjórir geimfarar eru einu mennirnir sem heimsótt hafa annan hnött en jörðina. Þeir eru einu mennirnir sem séð hafa fjarhlið tunglsins með berum augum og einu mennirnir sem séð hafa jörðina í heild sinni utan úr geimnum. 

Apollo geimfararnir hafa ferðast manna lengst frá jörðinni. Fjarlægð tunglsins frá jörðinni er aftur á móti breytileg að ekki fóru allir jafn langt frá jörðinni. Fjarlægðarmetið eiga geimfararnir í Apollo 13 sem voru í 400.020 km fjarlægð frá yfirborði jarðar þegar þeir voru handan tungls þann 14. apríl 1970.[1]

Apollo geimfarar sem létust við störf sín

Engir geimfarar létu lífið í geimnum, þótt áhöfn Apollo 13 hafi verið hætt kominn. Þrír geimfarar létust aftur á móti þegar eldur braust út í Apollo 1. Apollo 1 var enn á skotpallinum þegar eldurinn kviknaði og var áhöfnin inni í stjórnfarinu við hefðbundnar prófanir og æfingar. Þeir sem létust voru:

 1. Virgil "Gus" Grissom (hefði orðið fyrsti maðurinn til að ganga á tunglinu samkvæmt ævisögu Deke Slayton)[2]

 2. Edward White

 3. Roger B. Chaffee

Aðrir geimfarar sem létust á meðan Apollo geimáætlunin stóð yfir

 1. Edward Givens, lést í bílslysi nærri Houston í Texas þann 6. júní 1967. Hann var í varaáhöfn Apollo 7

 2. Clifton Williams, lést í flugslysi nærri Tallahassee í Flórída 5. október 1967. Hann var í varáhöfn Apollo 9

Listi yfir geimfara sem gengu á tunglinu

Milli júlí 1969 og desember 1972 gengu tólf menn á tunglinu. Þeir eru:

Nafn Fæðingardagur/ár Dánardægur Aldur við fyrsta skref Leiðangur Dagsetning tunglgöngu
1. Neil Armstrong 5. ágúst 1930
38ár 11m 15d Apollo 11 21. júlí 1969
2. Buzz Aldrin 20. janúar 1930 39ár 6m 0d
3. Pete Conrad 2. júní 1930 8. júlí 1999 39ár 5m 17d Apollo 12 19–20. nóvember 1969
4. Alan Bean 15. mars 1932 37ár 8m 4d
5. Alan Shepard 18. nóvember 1923 21. júlí 1998 47ár 2m 18d Apollo 14 5–6. febrúar 1971
6. Edgar Mitchell 17. september 1930 40ár 4m 19d
7. David Scott 6. júní 1932 39ár 1m 25d Apollo 15 31. júlí – 2. ágúst 1971
8. James Irwin 17. mars 1930 8. ágúst 1991 41ár 4m 14d
9. John W. Young 24. september 1930 41ár 6m 28d Apollo 16 21-23. apríl 1972
10. Charles Duke 3. október 1935 36ár 6m 18d
11. Eugene Cernan 14. mars 1934 38ár 9m 7d Apollo 17 11–14. desember 1972
12. Harrison Schmitt 3. júlí 1935 37ár 5m 8d

Jarðfræðingur Harrison Schmitt var seinasti maðurinn til að fara til tunglsins þar sem Gene Cernan var fyrri til að fara út úr tunglferjunni. Cernan er aftur á móti seinasti maðurinn til að yfirgefa tunglið þar sem Schmitt fór fyrstur inn í tunglferjuna. Yngsti tunglfarinn var Charles Duke (36 ára) og Alan Shepard elstur (47 ára).

Listi yfir geimfara sem flugu til tunglsins en gengu ekki á því

Ætíð voru þrír geimfarar um borð í Apollo geimförunum. Af þeim gengu tveir á tunglinu á meðan einn þeirra hringsólaði um tunglið í stjórnfarinu. Apollo 8, Apollo 10 og Apollo 13 fóru öll til tunglsins án þess að tilraun væri gerð til lendingar.

 1. Frank Borman - Apollo 8

 2. Jim Lovell - Apollo 8, Apollo 13

 3. William Anders - Apollo 8

 4. Tom Stafford - Apollo 10

 5. John Young - Apollo 10 (lenti síðar með Apollo 16)

 6. Eugene Cernan - Apollo 10 (lenti síðar með Apollo 17)

 7. Michael Collins - Apollo 11

 8. Dick Gordon - Apollo 12 (átti að lenda með Apollo 18)

 9. Jack Swigert - Apollo 13

 10. Fred Haise - Apollo 13 (átti að lenda með Apollo 19)

 11. Stuart Roosa - Apollo 14 (átti að lenda með Apollo 20)

 12. Al Worden - Apollo 15

 13. Ken Mattingly - Apollo 16

 14. Ronald Evans - Apollo 17

Jim Lovell, John Young og Eugene Cernan eru einu geimfararnir sem hafa flogið tvisvar sinnum til tunglsins. Af þremenningunum var Lovell sá eini sem aldrei gekk á tunglinu. Lovell og Fred Haise voru um borð í Apollo 13 þegar sprenging um borð í þjónustufarinu varð til þess að hætta varð við tungllendingu.

Apollo geimfarar sem fóru út í geiminn en ekki til tunglsins

Apollo 7 og Apollo 9 fóru aðeins á braut um jörðina. Þar af leiðandi fóru eftirfarandi Apollo geimfarar út í geiminn en aldrei til tunglsins:

 1. Walter Schirra - Apollo 7

 2. Donn Eisele - Apollo 7 (var í varaáhöfn Apollo 10)

 3. Walter Cunningham - Apollo 7

 4. James McDivitt - Apollo 9

 5. Rusty Schweickart - Apollo 9 (var í varaáhöfn Skylab 2)

Þriðji úr áhöfn Apollo 9, David Scott, lenti á tunglinu með Apollo 15.

Varáhafnir sem flugu aldrei með Apollo

Allir Apollo leiðangrarnir höfðu varaáhafnir sem æfðu sömu hluti og aðaláhafnirnar. Ef einhver úr aðaláhöfninni gat af einhverjum ástæðum ekki flogið hefði geimfari úr varaáhöfninni komið í staðinn. Jack Swigert var eini úr varaáhöfn sem leysi geimfara úr aðaláhöfn af hólmi þegar hann kom í stað Ken Mattingly í Apollo 13. Mattingly átti á hættu að veikjast af mislingum og var kyrrsettur viku fyrir geimskot Apollo 13 en flaug síðar með Apollo 16. 

Stuttu fyrir geimskot Apollo 17 slasaðist leiðangursstjórinn Eugene Cernan á fæti en náði sér rétt áður en haldið var af stað. Varamaður Cernans var John Young og hefði hann þar með orðið fyrsti og eini maðurinn til að ganga í tvígang á tunglinu.

Einu varáhafnarmeðlimirnir sem flugu aldrei í Apollo geimáætluninni voru:

 1. Gordon Cooper,  varaleiðangursstjóri Apollo 10

 2. Joe Henry Engle, varaflugmaður tunglferju í Apollo 14. Átti að fljúga í Apollo 17 en var skipt út fyrir Harrison Schmitt þegar hætt var við Apollo 18 vegna þrýstings frá vísindasamfélaginu um að senda vísindamann til tunglsins. Engle flaug síðar geimferjununum Enterprise, Kólumbíu og Discovery.

Geimfarar sem flugu með Apollo

Úr Mercury geimfarahópnum

 • Wally Schirra - Apollo 7

 • Alan Shepard - Apollo 14

Úr geimfarahópi 2: „Hinir sjö nýju“

 • Neil Armstrong - Apollo 11

 • Frank Borman - Apollo 8

 • Pete Conrad - Apollo 12, Skylab 2

 • Jim Lovell - Apollo 8, Apollo 13

 • Jim McDivitt - Apollo 9

 • Tom Stafford - Apollo 10, Apollo-Soyuz

 • John Young - Apollo 10, Apollo 16

Úr geimfarahópi 3

 • Buzz Aldrin - Apollo 11
 • Bill Anders - Apollo 8
 • Alan Bean - Apollo 12, Skylab 3
 • Eugene Cernan - Apollo 10, Apollo 17
 • Michael Collins - Apollo 11
 • Walt Cunningham - Apollo 7
 • Donn Eisele - Apollo 7
 • Dick Gordon - Apollo 12
 • Rusty Schweickart - Apollo 9
 • Dave Scott - Apollo 9, Apollo 15

Úr geimfarahópi 4

 • Harrison "Jack" Schmitt - Apollo 17

Úr geimfarahópi 5

 • Charles Duke - Apollo 16
 • Ron Evans - Apollo 17
 • Fred Haise - Apollo 13
 • Jim Irwin - Apollo 15
 • Ken Mattingly - Apollo 16
 • Edgar Mitchell - Apollo 14
 • Stuart Roosa - Apollo 14
 • Jack Swigert - Apollo 13
 • Alfred Worden - Apollo 15

Eftirtaldir geimfarar flugu með Apollo geimförum í Skylab geimstöðvarverkefniu eða Apollo-Soyuz:

Úr Mercury geimfarahópnum

 • Deke Slayton - Apollo-Soyuz

Úr geimfarahópi 4

 • Owen Garriott - Skylab 3
 • Edward Gibson - Skylab 4
 • Joseph Kerwin - Skylab 2

Úr geimfarahópi 5

 • Vance Brand - Apollo-Soyuz
 • Gerald Carr - Skylab 4 (átti að lenda með Apollo 19)
 • Jack Lousma - Skylab 3 (átti að lenda með Apollo 20)
 • William Pogue - Skylab 4
 • Paul Weitz - Skylab 2

Tilvísanir

 1. Apolló tunglferðirnar. Þorsteinn Sæmundsson, vefur Almanaks Háskóla Íslands, sótt 26. júlí, 2009 
 2. Detailed Biographies of Apollo I Crew - Gus Grissom, Mary C. Zornio, NASA, sótt 26. júlí, 2009.

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Listi yfir Apollo geimfara. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/listi-yfir-apollo-geimfara (sótt: DAGSETNING).

Leita á vefnum


 

Fleygar setningar

- Mark Twain

Það er göfugt að kenna sjálfum sér, en enn göfugra að kenna öðrum - og minni fyrirhöfn.

 

Vinir okkar

 • Hugsmiðjan
 • Sjónaukar.is
 • Portal To The Universe
 • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
 • Vísindavefurinn
 • Hubble spacetelescope
 • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica