Sólkerfið
Kórónuskvettur

Kórónuskvettur (kórónugos)

 • kóróna sólar, sólblossar, kórónuskvettur
  Kórónuskvettur

Kórónuskvetta (e. Coronal mass ejections) eða kórónugos er, líkt og heitið bendir til, útkast efnis úr kórónu sólar - gríðarstórar gasbólur sem springa út frá kórónunni. Efnið sem þeytist út í geiminn er mestmegnis rafgas (plasma) úr rafeindum og róteindum en inniheldur einnig þyngri efni á borð við helíum, súrefni og járn í minna magni. Kórónuskvetta getur innihaldið allt að tíu milljarða tonna af efni og ef það stefnir í átt til jarðar, verða til miklir segulstormar (e. geomagnetic storms) með tilheyrandi norðurljósasýningu. Kórónuskvettur ferðast venjulega á milli 500 til 1500 km hraða á sekúndu og er efnið því tvo til þrjá daga að ferðast 150 milljón km vegalengd milli jarðar og sólar.

Flestar kórónuskvettur eiga rætur að rekja til virkra svæða (sólblettahópa) á sólinni. Í þessum virku svæðum er segulsviðið nógu sterkt til þess að halda rafgasinu inni. Kórónuskvetta þarf að slíta þessar sviðslínur til þess að losna frá sólinni. Kórónuskvettur geta hins vegar líka komið frá rólegri svæðum sólarinnar, en eru þá sjaldnast mjög öflugar. Eitt sinn var talið að kórónuskvettur kæmu samfara sólblossum. Í dag vitum við að sólblossar og kórónuskvettur eru tengdir atburðir en orsaka ekki endilega hvor annan.

Tíðni kórónuskvetta veltur á því hvar sólin er í sólblettasveiflunni svonefndu. Við lágmark sveiflunnar verður um það bil ein skvetta dag hvern og þá helst við miðbaug sólar. Við hámark sveiflunnar geta fimm til sex kórónuskvettur orðið dag hvern frá virkum svæðum á víð og dreif um sólina. Hafa ber í huga að hér er um lágmarkstíðni skvetta að ræða, þar sem kórónusjár um borð í geimförum greina ekki kórónuskvettur á fjærhlið sólar.

Mjög mikilvægt er að skilja eðli kórónuskvetta og sólblossa til þess að unnt sé að spá fyrir um virknina og áhrif hennar á jörðina og sólkerfið í heild. Skelli kórónuskvetta á jörðina verður segulstormur sem getur meðal annars valdið rafmagnsleysi og skemmt fjarskiptagervitungl. Í geimnum fylgja höggbylgjur úr orkuríkum ögnum kórónuskvettum sem geta bæði skaðað rafmagnstæki og geimfara fyrir utan verndarvængs segulsviðs jarðar.

segulsvið, norðurljós, kórónuskvettur, sólblossar, sólgos
Kórónuskvettur á sólinni þeyta miklu efnismagni út í geiminn. Stefni efnið í átt að jörðinni rekst það á segulsvið jarðar sem feykir því að mestu burt, en sumar agnir lenda á lofthjúpnum þar sem þær mynda norðurljós. Mynd: Steele Hill/SOHO og Stjörnufræðivefurinn

Ekki var hægt að fylgjast með kórónuskvettum fyrr en menn fóru með sólarsjónauka út í geim. Þannig uppgötvaðist fyrsta kórónuskvettan ekki fyrr en árið 1971 en eftir það sáu menn tengslin milli mikilla segulstorma áður fyrr, t.d. þann sem varð árið 1989. Í sólmyrkva sést kórónan í of skamman tíma til þess að hægt sé að fylgjast með breytingum í henni og í sjónaukum á jörðu sést aðeins innsti hluti hennar (nægilega bjartur til að hverfa ekki í bláan himinninn). Hægt er að fylgjast með kórónunni með gervitunglum með svokallaðri kórónusjá, en þá er hringskífa sett yfir sjálfa sólkringluna og í kringum hana glóir kórónan.

Heimildir:

 • Coronal Mass Ejections and "Halo Events". Spaceweather.com.
 • Coronal Mass Ejections, Solar Flares, and the Sun-Earth Connection.
 • Coronal Mass Ejections. Solar Physics. Marshall Space Flight Center.

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Kórónuskvettur. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/solin/koronuskvettur (sótt: DAGSETNING).Leita á vefnum


 

Fleygar setningar

- Höfundur ókunnur

„Upphaf þekkingar er að uppgötva eitthvað sem við skiljum ekki."

 

Vinir okkar

 • Hugsmiðjan
 • Sjónaukar.is
 • Portal To The Universe
 • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
 • Vísindavefurinn
 • Hubble spacetelescope
 • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica