Sólkerfið
Tunglið

Tunglið

 • Tunglið, máninn
  Tunglið
Tölulegar upplýsingar
Meðalfjarlægð frá jörðu: 384.400 km
Mesta fjarlægð frá jörðu:
405.696 km
Minnsta fjarlægð frá jörðu:
363.104 km
Miðskekkja brautar:
0,0549
Meðalbrautarhraði um jörðu: 1,022 km/s
Umferðartími miðað við fastastjörnur: 27dagar 7klst 43mín
Lengd tunglmánaðar: 29dagar 12klst 44mín
Möndulhalli: 1,54° (miðað við sólbaug)
Brautarhalli miðað við sólbaug:
5,145°
Þvermál:
3.474 km
Þvermál (jörð=1):
0,272
Massi:
7,347 x 1022 kg
Massi (jörð=1):
0,0123
Eðlismassi:
3.346 kg/m3
Þyngdarhröðun:
1,622 m/s2
(0,165 g)
Lausnarhraði: 2,38 km/s
Meðalhitastig yfirborðs:
-50°C (miðbaug)
-140°C (póla)
Hæsti yfirborðshiti: +120°C (miðbaug)
-40°C (póla)
Lægsti yfirborðshiti:
-170°C (miðbaug)
-260°C (póla)
Endurskinshlutfall:
0,136
Sýndarbirtustig:
-12,74 (fullt tungl að meðaltali)
Hornstærð: 29,3 til 34,1 bogamínútur

Tunglið eða máninn er eini náttúrulegi fylgihnöttur jarðarinnar og er nálægasta fyrirbæri himinsins ef frá eru talin geimför og gervitungl. Tunglið er bjartasti hnötturinn á næturhimninum og sá eini þar sem við getum skoðað landslagið með berum augum. Saga tunglsins er nátengd sögu jarðarinnar enda er talið að það hafi myndast þegar hnöttur á stærð við Mars rakst á jörðina skömmu eftir myndun sólkerfisins. Tunglið hefur líka sögulega þýðingu fyrir okkur mannfólkið því það er eini hnötturinn þar sem menn hafa stigið niður fæti utan jarðarinnar.

Tunglið hefur skipað stóran sess hjá ýmsum menningarþjóðum. Rómverjar til forna nefndu tunglið Luna en Grikkir nefndu það Selenu og Artemis. Önnur heiti á tunglinu eru til í mörgum öðrum trúarbrögðum. Þannig nefna Hindúar tunglið Chandra, Arabar Hilal, Astekar Tecciztecatl, Inkar Mama Quilla og kínverska tunglgyðjan nefnist Heng O.

Máni var persónugervingur tunglsins í norrænni goðafræði. Hann var sonur Mundilfara og bróðir Sólar. Á næturnar ferðaðist hann í hestvagni yfir himinninn og ákvarðaði þannig hvort tunglið væri vaxandi eða minnkandi. Úlfurinn Hati elti Mána og þegar hann greip í tunglið varð tunglmyrkvi. Það olli talsverðri skelfingu og beittu menn ýmsum brögðum til hrekja úlfinn burt.

Íslensku orðin mánudagur og mánuður eru dregin af heiti tunglsins. Íslenska orðið tungl er einnig eitt þeirra orða í íslensku máli sem á sér ekkert rímorð. Gríska orðið „Luna“ er rót enska orðsins „lunatic“ sem þýðir brjálæðingur en merkti upphaflega tunglsjúkur (flogaveikur, þótt flogaveiki tengist tunglinu ekki neitt).

Tunglið er langbjartasta fyrirbærið á næturhimninum og fullt tungl er mörg hundruð sinnum bjartari en Venus, sem er björtust af öllum reikistjörnum og sólstjörnum á himninum.

1. Braut og snúningur

Hér kemur inn umfjöllun um braut og snúning tunglsins.

Tunglið er fimmta stærsta tungl sólkerfisins á eftir Ganýmedesi, Títan, Kallistó og Íó. Það er hlutfallslega stærsti fylgihnöttur sólkerfisins sé miðað við stærð móðurreikistjörnunnar, að Plútó og Karoni undanskildum. Tunglið er fjórðungur af þvermáli jarðar en 1/81 hluti af massanum. Massamiðja jarðar og tungls er 1.700 km undir yfirborði jarðar.

2. Kvartilaskipti

Við sjáum útlit tunglsins breytast eftir því sem líður á tunglmánuðinn. Það fer frá því að vera nýtt og vex þangað til það verður fullt. Þá minnkar það aftur þangað til það verður nýtt eftir 29,53 daga (sem er lengd tunglmánaðarins).

2.2 Myrkvar

Sjá nánar: Tunglmyrkvi og sólmyrkvi

Sól- og tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sól, jörð og tungl mynda beina línu.

2.3 Flóðkraftar

Sjá nánar: Flóðkraftar

Hér kemur inn umfjöllun um flóðkrafta.

3. Myndun tunglsins

Sjá nánar: Myndun tunglsins

Sönnunargögn benda til þess að tunglið hafi myndast við árekstur jarðar og smáhnattar á stærð við Mars fyrir um 4,5 milljörðum ára. Árekstrarkenningin var fyrst lögð fram af tveimur vísindamönnum, William Hartmann og Donald Davis, árið 1975. Þeir byggðu hana á reiknilíkönum sem sýna dreifingu smáhnatta í nýmynduðu sólkerfi og lögðu til að mögulega hafi tunglið myndast við árekstur slíks hnattar og frumjarðarinnar. Kenningin er studd gögnum frá Apollo tunglleiðöngrunum. Við áreksturinn hnattarins við frumjörðina myndaðist tunglið sem er hlutfallslega næststærsta tungl sólkerfisins og hefur því mikil áhrif á jörðina. Áður en árekstrarkenningin kom til sögunnar höfðu nokkrar aðrar kenningar komið fram á sjónarsviðið, en engin þeirra stóðst miðað við þau eðlisfræðilögmál sem við þekkjum auk þess sem sannanir fyrir þeim skorti.

4. Innri gerð

Tunglið er lagskipt. Innst er fastur járnkjarni umlukinn fljótandi ytri járnkjarna. Umhverfis kjarnann er hlutbráðið berglag. Þar yfir er möttull og loks skorpan ofan á honum.

4.1 Kjarni

4.2 Möttull

4.3 Tunglskjálftar

5. Jarðfræði

Með berum augum sést að yfirborðið skiptist gróflega í tvennt. Ljósi svæðin eru hálendi en dökku svæðin eru höf. Með stjörnusjónauka sést að bæði hálendið og höfin eru þakin loftsteinagígum, hálendið þó sínu meira.

5.1 Gígar

moon8_mandel_br
Yfirborð tunglsins er mjög gígótt. Hér sést gígurinn Tycho á suðurhveli tunglsins og efnisrákir sem liggja frá honum. Mynd: Steve Mandel, Hidden Valley Observatory

Yfirborð tunglsins er þakið gígum sem urðu til þegar loftsteinar, smástirni og halastjörnur rákust á það. Áætlað er að á nærhliðinni einni séu um það bil 300.000 gígar stærri en 1 km í þvermál. Af þeim sjást á að giska 30.000 í gegnum áhugamannasjónauka frá jörðinni. Nærmyndir af tunglinu sýna hins vegar milljónir gíga sem eru of smáir til að sjást frá jörðu. Á 17. öld varð til sú hefð að nefna stærstu gígana eftir frægum heimspekingum, stærðfræðingum og öðrum vísindamnönnum eins og Plató, Aristótelesi, Pýþagórasi, Kópernikusi, Tycho Brahe og Kepler. Frá jörðu séð er gígurinn Tycho einna mest áberandi.

Tunglið hefur engan lofthjúp svo veðrun er lítil sem engin. Því eru gígarnir margir hverjir mjög vel varðveittir. Árekstragígar myndast á nær stöðugt svo hægt er að telja gíga á ákveðnu svæði til að áætla aldur yfirborðsins. Mælingar á geislavirkum samsætum í tunglgrjóti sem Apollo geimfararnir sneru með til jarðar frá tunglinu sína að fyrir 3,8 til 4,1 milljarði ára varð árekstrahrina, Síðbúna árekstrarhrinan svonefnda, en þá urðu flestir gígarnir til.

5.2 Höf

minnakort_clementine_islensk_heiti_apollo11
Höfin á nærhlið tunglsins. Myndin var sett saman úr gögnum frá Clementine geimfarinu. Mynd: NASA/JPL/USGS

Stóru dökku svæðin á tunglinu, sem minna stundum á mannsandlit eða önnur form, til dæmis kanínu, eru kölluð höf (maria í fleirtölu á latínu, mare í eintölu). Hugtakið „höf“ á rætur að rekja til stjörnufræðinga á 17. öld sem héldu að dökku svæðin væru raunveruleg höf. Þeir gáfu þeim rómantísk nöfn sem vísa til veðurfyrirbæra og geðlags eins og Kyrrðarhafið, Skýjahafið, Stormahafið, Rósemishafið og Regnhafið.

Tunglhöfin eiga þó ekkert skylt til við jarðnesk höf. Þau eru stórar, dökkar þóleiítbasaltsléttur sem urðu til þegar hraunkvika vall upp á yfirborðið. Höfin endurvarpa minna sólarljósi en hálendið í kring vegna ólíkrar efnasamsetningar og sýnast þess vegna dekkri. Tunglbasaltið inniheldur engar vatnaðar steindir og er járnríkara en jarðneskt basalt sem gerir það mjög dökkt. Í höfunum eru eldfjöll eins og dyngjur og bungur.

Höfin þekja 16% af heildaryfirborði tunglsins. Mest er um þau á nærhlið tunglsins þar sem þau þekja um 31% yfirborðsins en aðeins 2% fjærhliðarinnar þar sem þau eru líka smærri og að mestu í stórum gígum eins og Tsiolkovsky. Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna svo er en talið er að ástæðan sé magn hitamyndandi frumefna undir skorpunni á nærhliðinni eins og fram kemur á jarðefnakorti sem gert var með gögnum frá Lunar Prospector gervitunglinu. Þessi hitamyndandi frumefni ollu hlutbráðnun í möttulefni undir skorpunni sem síðan reis og gaus upp á yfirborðið.

Gígar eru færri í höfunum en á hálendinu. Það bendir til þess að höfin séu tiltölulega ung og hraunið sem myndaði þau hljóti að hafa orðið til á síðari stigum jarðsögu tunglsins. Aldursgreining á tunglgrjóti sýnir að basaltið í höfunum er yfirleitt milli 3 til 3,5 milljarða ára en talning á gígum sýnir að yngsta svæðið, Stormahafið á nærhliðinni, er rétt rúmlega 1 milljarða ára.

Höfin eru hringlaga, rétt eins og gígarnir, sem bendir til þess að þau séu dældir sem urðu til við mikla árekstra stórra smástirna. Eftir árekstrana fylltust dældirnar smám saman af hrauni. Þessi kenning skýrir líka bogadregnu fjallgarðana sem umlykja dældirnar.

5.3 Hálendið

Tunglið, fjærhlið, dökka hlið tunglsins, hálendi, Suðurpóls-Aitken
Fjærhlið tunglsins er að mestu hálendi. Mest áberandi kennileitið er Suðurpóls-Aitken dældin, stærsti þekkti gígur sólkerfisins. Mynd: NASA/Goddard/Arizona State University

Ljósu svæðin sem umlykja tunglhöfin eru kölluð meginlönd því stjörnufræðingar á 17. öld töldu þau rísa upp úr höfunum eins og meginlönd jarðar. Hæðarmælingar sýna einmitt að höfin eru um það bil 2 til 5 km undir meðalhæð yfirborðsins á meðan meginlöndin eru nokkra kílómetra yfir meðalhæðinni. Ljósu svæðin eru þess vegna líka nefnd hálendi tunglsins og eru um 84% af yfirborðinu.

Aldursgreining á grjóti frá hálendinu, sem aðallega var safnað í leiðangri Apollo 16, sýnir að hálendið er um 4 til 4,4 milljarða ára gamalt. Ljósa litinn má rekja til anortósíts sem er ljósleitt berg sem inniheldur efni eins og kísil, kalsíum og ál. Á jörðinni finnst anortósít í mjög gömlum fjallgörðum eins og Adirondack í austanverðum Bandaríkjunum.

Þegar sovéska geimfarið Luna 3 tók fyrstu ljósmyndirnar af fjærhlið tunglsins árið 1959 kom það vísindamönnum mjög á óvart að sjá þar nánast engin höf heldur endalaust hálendi. Talið er að skorpan á fjærhliðinni sé þykkari en skorpan á nærhliðinni. Skorpan þar er líklega það þykk að álíka stórir árekstrar og skópu höfin á nærhliðinni ristu ekki nægilega djúpt.

Fjærhlið tunglsins er þakin árekstrargígum eins og nærhliðin. Mest áberandi kennileitið á fjærhliðinni er Suðurpóls-Aitken dældin, stærsti þekkti gígur sólkerfisins. Suðurpóls-Aitken dældin er um 2.500 km í þvermál — um það bil jafnstór meginlandi Evrópu — og 12 km djúp.

5.4 Tunglgrýti

Tunglið, anortósít, Genesis Rock, Apollo 15
„Sköpunarsteinninn“ er anortósít sem Dave Scott og James Irwin í Apollo 15 náðu í á tunglinu árið 1971. Steinninn er um 4,1 milljarða ára gamall. Mynd: NASA

Mannaðar tunglferðir Bandaríkjamanna milli 1969 og 1972 og ómannaðar sýnasöfnunarferðir Sovétmanna milli 1970 og 1975  hafa kennt okkur mest af því sem við vitum um bergfræði tunglsins. Allt berg á tunglinu er storkuberg. Þar finnst ekkert setberg eða myndbreytt berg (nema storkuberg sem hefur orðið fyrir árekstrarmyndbreytingu). Það bendir til þess að yfirborð tunglsins hafi eitt sinn verið albráðið. Storkuberg á tunglinu inniheldur mjög svipaðar steindir og storkuberg á jörðinni.

Tunglhöfin eru úr basalti, svipuðu því sem finnst á Íslandi þótt það innihaldi meira járn og títan. Hálendið er að úr ljósleitu plagíóklasríku bergi sem kallast anortósít. Anortósítið er eðlisléttara en basaltið og því er talið að það hafi risið upp á við þegar yfirborðið var bráðið.

Þótt anortósít sé algengasta bergið sem finnst á hálendinu voru flest sýnin sem tekin voru þaðan árekstrabrotaberg. Brotaberg er úr ýmsu bergi sem tvístraðist, blandaðist og þjappaðist saman eftir árekstra.

5.5 Jarðvegur/berghula


5.6 Vatn

6. Rannsóknir á tunglinu

Hér kemur inn umfjöllun um rannsóknir á tunglinu.

6.1 Tunglferðir Sovétmanna

Lunokhod tunglbíll Sovétmanna
Lunokhod tunglbíll Sovétmanna.

Ferðalög til tunglsins hófust árið 1959 þegar Sovétmenn sendu þangað þrjú lítil ómönnuð geimför: Luna 1 sem var fyrsta geimfarið sem flaug framhjá tunglinu; Luna 2 sem var fyrsta geimfarið sem brotlenti á tunglinu og Luna 3 sem tók fyrstu nærmyndirnar af fjærhlið tunglsins.

Árið 1966 lenti Luna 9 fyrst geimfara á tunglinu. Sama ár komst Luna 10 á braut um tunglið, fyrsta geimfara. Bæði voru að sjálfsögðu ómönnuð. Upp úr 1970 sendu Sovétmenn þrjú ómönnuð sýnasöfnunargeimför til tunglsins, Luna 16 árið 1970, Luna 20 árið 1972 og Luna 24 árið 1976. Samanlagt sneru þau aftur til jarðar með 0,3 kg af jarðvegi og tunglgrjóti.

Árið 1970 og 1973 óku tveir ómannaðir sovéskir Lunokhod tunglbílar um yfirborðið. Lunokhod 1 lenti á Regnhafinu 17. nóvember 1970 og var fyrsti fjarstýrði færanlegi þjarkinn sem sendur var til annars hnattar. Bíllinn ók 10,5 km fram í september 1971, tók yfir 20.000 ljósmyndir og gerði fjölmargar rannsóknir á yfirborði tunglsins. 

Lunokhod 2 lenti í Le Monnier gígnum 15. janúar 1973. Hann var nokkuð fullkomnari en fyrirrennari sinn. Hann starfaði í fjóra mánuði, ók 37 km og tók yfir 80.000 ljósmyndir.

6.2 Ómannaðar tunglferðir Bandaríkjamanna

Tunglið, Surveyor 3, Apollo 12, Stormahafið
Tunglfarinn Alan Bean skoðar Surveyor 3 á Stormahafinu. Tunglferjan Intrepid í bakgrunni. Mynd: NASA

Tilraunir Bandaríkjamanna hófust skömmu eftir 1960 með Ranger verkefninu. Ranger geimförin voru útbúin sex myndavélum sem tóku nærmyndir af yfirborði tunglsins í nokkrar mínútur áður en þau brotlentu. Þessar myndir sýndu mun meiri smáatriði en bestu myndir sem teknar höfðu verið frá jörðinni.

Árið 1966 og 1967 var fimm Lunar Orbiter geimförum komið á braut um tunglið og kortlögðu 99,5% af yfirborðinu í góðri upplausn. Sumar þessara mynda komu að góðum notum þegar lendingarstaðir Apollo voru valdir.

Milli júní 1966 og janúar 1968 lentu fimm bandarísk Surveyor geimför á tunglinu og lögðu línurnar fyrir Apollo tunglferðirnar. Surveyor 1 lenti fjórum mánuðum á eftir Luna 9. Meginmarkmið Surveyor verkefnisins var að lenda mjúklega á yfirborðinu, gera á því rannsóknir og taka ógrynni ljósmynda.

Árið 1969 lenti Apollo 12 örskammt frá Surveyor 3 sem hafði lent á Stormahafinu tveimur og hálfu ári fyrr. Tunglfararnir tóku myndavél geimfarsins með heim til jarðar. Hún er nú til sýnis í Smithsonian Loft- og geimferðasafninu í Washington D.C. í Bandaríkjunum.

6.3 Mannaðar tunglferðir

Sjá nánar: Apollo geimáætlunin


Tunglfarinn Jim Irwin úr Apollo 15 fyrir framan tunglferjuna og tunglbílinn. Mynd: NASA

Milli áranna 1968 og 1972 ferðuðust menn til tunglsins. Í desember árið 1968 komust þrír geimfarar um borð í Apollo 8 á braut um tunglið í fyrsta sinn. Fyrsta mannaða lendingin fór fram 20. júlí 1969 þegar tunglferja Apollo 11 lenti á Kyrrðarhafinu. Geimfararnir Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu þá fyrstir manna fæti á tunglið.

Apollo 12 lenti á Stormahafinu, skammt frá öðru geimfari, Surveyor 3, sem hafði lent þar tveimur og hálfu ári áður. Spenging í þjónustufari Apollo 13 kom í veg fyrir að hægt yrði að lenda á tunglinu í þeim leiðangri en geimförunum tókst að snúa heim til jarðar heilir á húfi.

Bið varð á frekari tunglferðum þar til ljóst varð hvað olli sprengingunni í Apollo 13. Þann 31. janúar 1971 hófust Apollo tunglferðirnar á ný þegar Apollo 14 var skotið á loft. För þess var heitið til Fra Mauro sem var fyrirhugaður lendingarstaður Apollo 13.

Í þremur seinustu tunglferðunum var meiri áhersla lögð á vísindi en áður og lengri dvöl á tunglinu. Í Apollo 15 dvöldu tunglfararnir Dave Scott og James Irwin í þrjá daga á tunglinu og fóru í þrígang í tunglgöngu í Hadley Rille. Í för Apollo 16 var í fyrsta sinn förinni heitið á hálendissvæði tunglsins.

Apollo 17 var seinasta tunglferð Apollo geimáætlunarinnar. Í fyrsta sinn var vísindamaður í áhöfninni, jarðfræðingurinn Harrison Schmitt. Apollo 17 lenti í Taurus-Littrow dalnum á tunglinu. Í Apollo 15, 16 og 17 var tunglbíll með í för sem gerði tunglförunum kleift að ferðast mun lengra en áður.

6.4 Könnun tunglsins frá 1990

Eftir tunglferðir Sovétmanna og Bandaríkjamanna hafa fleiri þjóðir tekið þátt í rannsóknum á tunglinu. Árið 1990 komu Japanir ómannaða geimfarinu Hiten á braut um tunglið. Árið 1994 sendu Bandaríkjamenn Clementine til tunglsins en það var sameiginlegur leiðangur varnarmálaráðuneytisins og NASA. Clementine varði meira en tveimur mánuðum á braut um tunglið og kortlagði yfirborð þess í sýnilegu, útfjólubláu og innrauðu ljósi í góðri upplausn. Það gerði mönnum kleift að rannsaka efnasamsetningu yfirborðsins betur en áður. Forvitnilegast var að Clementine fann merki um töluvert magn vatnsíss í varanlega skyggðum gígum á suðurpól tunglsins.

Árið 1998 sendi NASA Lunar Prospector geimfarið til tunglsins. Mælitæki þess fundu merki um vetni við pólana sem þótti renna stoðum undir uppgötvun Clementine geimfarsins. Í leiðangurslok í júlí 1999 var Lunar Prospector látið brotlenda í gíg á suðurpólnum í þeirri von að strókur með vatnsgufu kæmi upp við áreksturinn. Tugir sjónauka á jörðu niðri fylgdust með árekstri geimfarsins en engin merki um vatnsgufu sáust í gögnunum. Rannsóknir sem gerðar voru með útvarpssjónaukum á jörðinni bentu til þess að ef ís var á annað borð að finna á pólum tunglsins væri hann nokkrir sentímetrar á þykkt í mesta lagi.

Þann 15. nóvember 2004 komst evrópska geimfarið SMART-1 á braut um tunglið og gerði fyrstu nákvæmu kortlagninguna á efnafræði yfirborðsins. Geimfarið var látið rekast á tunglið 3. september 2006.

Kínverjar komu sínu fyrsta geimfari, Chang'e-1, á braut um tunglið 5. nóvember 2007. Leiðangur þess stóð yfir í sextán mánuði. Á þeim tíma náði það að ljósmynda allt yfirborðið. Það var síðan látið rekast á tunglið 1. mars 2008.

Milli 4. október 2007 og 10. júní 2009 hringsólaði japanska geimfarið Kaguya um tunglið. Í farmi þess var háskerpuupptökuvél sem tók fyrstu myndskeiðin í fullri háskerpu af tunglinu. Þann 8. nóvember 2008 komst Chandrayaan, fyrsta tunglfar Indverja, á braut um tunglið en samband við það rofnaði 27. ágúst 2009. Chandrayaan gerði jarðefna-, steinda- og jarðfræðikort af tunglinu og staðfesti tilvist vatnssameinda í jarðvegi þess. Indverjar hyggjast senda Chandrayaan II til tunglsins árið 2013 en með í þeirri för verður fjarstýrður rússneskur tunglbíll.

Þann 18. júní 2009 sendi NASA Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS geimförin til tunglsins. Þann 9. október 2009 var LCROSS og skeyti á stærð við jeppa látin falla ofan í gíginn Cabeus sem er við suðurpól tunglsins. Við áreksturinn fundust merki um vatn á tunglinu. LRO er enn á braut um tunglið og hefur gert nákvæmar hæðarmælingar á yfirborðinu og ljósmyndað það í mjög hárri upplausn.

Árið 2011 verður GRAIL leiðangurinn sendur til tunglsins. GRAIL samanstendur af tveimur ómönnuðum geimförum sem eiga að útbúa nákvæmasta kort af þyngdarsviði tunglsins til þessa. Með því að kortleggja þyngdarsviðið geta jarðeðlisfræðingar áttað sig betur á innviðum tunglsins, efnasamsetningu og hitun og kólnun þess í gegnum tíðina.

Eftir nokkur ár hyggjast Rússar senda Luna-Glob, net tunglskjálftamæla, til tunglsins og brautarfar sem byggir á Phobos-Grunt leiðangrinum til Mars.

Frekari mannaðir leiðangrar til tunglsins eru ekki fyrirhugaðir sem stendur.

Að skoða tunglið

Myndasafn

grænt leiftur, tunglsetur, tunglið

Grænt leiftur við tunglsetur

Á Cerro Paranal, 2.600 metra háu fjalli í Atacamaeyðimörkinni í Chile sem geymir Very Large Telescope ESO, eru aðstæður í lofthjúpnum svo framúrskarandi að atburðir eins og grænt leiftur á sólinni við sólsetur er harla algengt sjónarspil. Öllu sjaldgæfara er að verða vitni að grænu leiftri á tunglinu þegar það gengur til viðar. Ljósmyndari ESO, Gerhard Hüdepohl, náði þessari frábæru mynd, sem er líklega sú besta sem til er af þessu sjaldgæfa fyrirbæri. Myndina tók hann árla morguns frá Residencia hótelinu í Paranal.

Þessu valda hyllingar sem magna ljósbrot í lofthjúpi jarðar. Lofthjúpur jarðar beygir og brýtur ljós — ekki ósvipað stóru prisma. Áhrifin eru meiri í lægri og þéttari lögum lofthjúpsins svo ljósgeislar frá sólinni eða tunglinu brotna örlítið í stefnu niðurávið. Stuttar bylgjulengdir ljóss brotna meira en lengri bylgjulengdir svo grænt ljós frá sólinni og tunglinu sýnast berast okkur örlítið hærra en appelsínugult og rautt ljós. Við kjöraðstæður sést dauft grænt leiftur við efri brún sól- eða tunglskífunnar þegar þessi hnettir setjast.

Mynd: ESO/G. Hüdepohl (atacamaphoto.com)

 

Tunglmynd 2

TunglmyndTunglmynd 3

Tunglmynd

Tengt efni

Heimildir

 • Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2011). Tunglið. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/tunglid
Leita á vefnum


 

Sólkerfið

sólkerfið okkar

Sólkerfið okkar

Sólkerfið okkar inniheldur sól, átta reikistjörnur, á annað hundrað fylgitungla þeirra, fimm dvergreikistjörnur og milljarða smærri hnatta eins og smástirni, halastjörnur, útstirni, loftsteina og rykagnir. Allir hnettir, stórir sem smáir, á sporbaug umhverfis sólina eru hluti af sólkerfinu okkar.

Lesa meira
 
sólin, sólstjarna, stjarna, sólin okkar

Sólin

Sólin er stjarna í miðju sólkerfisins, ein af yfir 200 milljörðum sólstjarna í Vetrarbrautinni okkar. Sólin er í um 26 þúsund ljósára fjarlægð frá miðju Vetrarbrautarinnar en aðeins 150 milljón km frá jörðinni. Sólin er meðalstór stjarna, en þó svo stór að um 109 jarðir kæmust fyrir í röð þvert í gegnum hana. Þessi glóandi gashnöttur er langstærsti hnöttur sólkerfisins og inniheldur um 99,9% af massa þess. Stærsti gasrisinn, Júpíter, inniheldur mest af því efni sem eftir er. Jörðin og allar hinar reikistjörnur sólkerfisins auk halastjarna, smástirna, loftsteina og geimryks snúast umhverfis sólina á sporöskjulaga brautum samkvæmt lögmálum Keplers.

Lesa meira
 
Merkúríus

Merkúríus

Merkúríus er innsta og minnsta reikistjarna sólkerfisins, minni en tunglin Ganýmedes og Títan. Merkúríus er bergreikistjarna í innra sólkerfinu og hefur þar af leiðandi fast yfirborð. Yfirborðið er mjög gígótt og gamalt og líkist þannig mest yfirborði tunglsins. Merkúríus gengur einnig undir stuttnefninu Merkúr.

Lesa meira
 
Venus

Venus

Venus er önnur reikistjarnan frá sólinni og sjötta stærsta reikistjarna sólkerfisins, örlítið minni en jörðin. Við fyrstu sýn virðist sem Venus sé tvíburasystir jarðar. Þær hafa næstum sama massa, þvermál, eðlismassa og þyngdarhröðun. Á báðum reikistjörnum eru fáir gígar sem bendir til þess að jarðfræðileg virkni eigi sér stað. Þó er eitt veigamikið atriði sem skilur á milli: Venus er eyðileg en jörðin er eini staðurinn þar sem vitað er um líf með vissu.

Lesa meira
 
jörðin

Jörðin

Jörðin er þriðja reikistjarnan frá sólu. Hún er fimmta stærsta reikistjarna sólkerfisins en stærsta bergreikistjarnan. Jörðin er 330.000 sinnum massaminni en sólin og 109 sinnum minni að þvermáli. Væri sólin hol að innan kæmust meira en milljón jarðir fyrir innan í henni. Jörðin er jafn gömul sólkerfinu, um 4,6 milljarða ára.

Lesa meira
 
Mars

Mars

Mars er fjórða reikistjarnan frá sólu og sú næst minnsta. Mars er einnig oft nefndur rauða reikistjarnan (rauða plánetan Mars) enda virðist hann rauðleitur að sjá á næturhimninum. Mars er bergreikistjarna í innra sólkerfinu og hefur örþunnan lofthjúp. Á yfirborðinu eru fjölmargar áhugaverðar jarðmyndanir eins og árekstragígar, eldfjöll, gljúfur og pólhettur. Mars er meðal mest könnuðu reikistjarna í sólkerfinu enda mjög áhugaverður. Mars hefur alla tíð verið kunnugur mönnum enda er hann oft meðal björtustu fyrirbæra næturhiminsins. Aðeins sólin, tunglið, Venus og Júpíter geta verið bjartari.

Lesa meira
 
Júpíter

Júpíter

Júpíter er fimmta reikistjarnan frá sólu og sú langstærsta í sólkerfinu. Júpíter er gasrisi líkt og Satúrnus, Úranus og Neptúnus og hefur því ekkert fast yfirborð

Lesa meira
 
Satúrnus

Satúrnus

Satúrnus er næst stærsta reikistjarna sólkerfisins á eftir Júpíter og sú sjötta í röðinni frá sólu. Satúrnus er gasrisi líkt og Júpíter, Úranus og Neptúnus og hefur því ekkert fast yfirborð.

Lesa meira
 
Úranus

Úranus

Úranus er sjöunda reikistjarnan frá sólu og sú þriðja stærsta. Úranus er örlítið stærri að þvermáli en Neptúnus en massinn er ögn minni. Þessar tvær reikistjörnur eiga margt sameiginlegt og eru oft flokkaðar sem vatnsrisarnir í sólkerfinu, á meðan Júpíter og Satúrnus eru hinir eiginlegu gasrisar. Þessu ræður fimbulkuldinn yst í sólkerfinu en sökum hans eru ýmsar gastegundir í föstu eða á fljótandi formi.

Lesa meira
 
Neptúnus

Neptúnus

Neptúnus er áttunda og ysta reikistjarnan frá sólu og sú fjórða stærsta. Neptúnus er örlítið minni að þvermáli en Úranus en ögn massameiri. Þessar tvær reikistjörnur eiga margt sameiginlegt og eru oft flokkaðar sem vatnsrisarnir í sólkerfinu, á meðan Júpíter og Satúrnus eru hinir eiginlegu gasrisar. Þessu ræður fimbulkuldi yst í sólkerfinu en sökum hans eru ýmsar gastegundir í föstu eða á fljótandi formi.

Lesa meira
 
dvergreikistjarna, Plútó

Plútó

Plútó er næst stærsta þekkta dvergreikistjarnan í sólkerfinu, miklu minni en reikistjörnurnar átta. Sjö fylgitungl í sólkerfinu eru stærri en Plútó, þ.e. tunglið okkar, Íó, Evrópa, Ganýmedes, Kallistó, Títan og Tríton. Plútó líkist á margan hátt síðastnefnda tunglinu að stærð, efnasamsetningu og má vera að uppruni þeirra sé af sama toga.

Lesa meira
 
dvergreikistjarna, útstirni, Eris, Dysnómía

Útstirni

Handan Neptúnusar, ystu reikistjörnu sólkerfisins, leynast milljónir smárra íshnatta sem nefnd eru útstirni á íslensku (Trans-Neptunian object). Útstirnin eru hluti af sólkerfinu okkar líkt og reikistjörnurnar og smástirnin en eiga það sammerkt að vera svo agnarsmá og fjarlæg að aðeins á síðustu árum hefur tæknin til að greina þau verið til staðar.

Lesa meira
 
smástirni, Lútesía

Smástirni

Smástirni eru litlir hnettir úr bergi og málmum í sólkerfinu, innan við 1.000 km í þvermál, hafa enga halastjörnuvirkni, snúast í kringum sólina en eru ekki nægilega stór til að geta talist til reikistjarna. Þau eru oft óreglulöguð vegna þess að þyngdarkrafturinn er ekki nægilega mikill til að mynda kúlulaga hnött.

Lesa meira
 
halastjarna, Hale-Bobb

Halastjörnur

Halastjörnur eru litlir hnettir úr ís og ryki sem sveima um sólina. Halastjörnur mynduðust á sama tíma og reikistjörnurnar fyrir um 4,6 milljörðum ára. Ólíkt reikistjörnunum hafa þær ekki hitnað í gegn og teljast því meðal frumstæðustu hnatta sólkerfisins. Innviðir þeirra geyma því trúlega mikilvægar upplýsingar um myndun þess.

Lesa meira
 
loftsteinar

Loftsteinar

Loftsteinar birtast sem hraðskreiðar ljósrákir á næturhimninum og eru því oft kallaðir stjörnuhröp. Flestir virðast hvítir eða blá-hvítir að lit þegar þeir falla í gegnum lofthjúpinn þótt aðrir litir sjáist stundum, t.d. gulur eða appelsínugulur. Litirnir eru frekar háðir hraða loftsteinsins en samsetningunni. Rauðir loftsteinar birtast stöku sinnum sem mjög langar rákir og eru venjulega hátt yfir jörðu. Stöku sinnum sjást líka grænir loftsteinar sem eru venjulega mjög bjartir. Græni liturinn gæti verið af völdum jónaðs súrefnis.

Lesa meira
 
Marsjeppi, Spirit, Opportunity

Geimferðir

Í gegnum tíðina hefur mestum hluta þekkingar okkar á sólkerfinu verið aflað með stjörnusjónaukum á jörðu niðri. Bylting varð þegar mannkynið hafði þróað tækni til að senda geimför út í geiminn og upp frá því hafa geimför heimsótt allar reikistjörnur sólkerfisins, nokkur tungl, smástirni og halastjörnur. Geimför hafa hjálpað okkur að öðlast ómetanlega þekkingu á þessum forvitnilegu hnöttum sólkerfisins.

Lesa meira
 

Fleygar setningar

- Carl Sagan

„Stundum er sagt að vísindamenn séu órómantískir, að ástríða þeirra til að finna út hluti ræni heiminn fegurð og dulúð. Það dregur alls ekki úr rómantík sólsetursins að vita lítið eitt um það.“
 

Vinir okkar

 • Hugsmiðjan
 • Sjónaukar.is
 • Portal To The Universe
 • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
 • Vísindavefurinn
 • Hubble spacetelescope
 • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica