Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Stjörnumerkin         

Efnisyfirlit

Allri himinhvelfingunni er skipt í 88 hluta sem við nefnum stjörnumerki. Hvert stjörnumerki er myndað af litlum stjörnuhópi sem, frá jörðu séð, sýnast tiltölulega nálægt hver annarri. Stjörnurnar í merkjunum tengjast yfirleitt ekkert innbyrðis enda er fjarlægðin milli stjarnanna og einnig til þeirra mjög mismunandi.

Útlit merkjanna ræðst af hreyfingum stjarnanna sem mynda þau. Þessar stjörnur eru allar svo fjarlægar að hreyfing þeirra frá ári til árs er agnarlítil og sést yfirleitt ekki með berum augum og því köllum þær fastastjörnur. Á milljón árum getur hreyfing stjarnanna þó verið umtalsverð og ef við skoðum til dæmis hvernig Ljónsmerkið á eftir að líta út eftir milljón ár, sjáum við að Ljónið afmyndast. Merkið sem þá verður til minnir ef til vill heldur á útvarpssjónauka, sem verða þá væntanlega löngu úreltir. Þá verður hins vegar gaman að sjá hvernig stjörnuspekin metur persónuleika þess sem fæðist í útvarpssjónaukamerkinu!

Eins og áður segir er fjarlægðin milli stjarnanna í hverju merki mjög mismunandi. Ef við ferðumst nokkur hundruð eða þúsund ljósár út í geiminn og horfum á stjörnumerkið frá hlið, sjáum við allt aðra mynd af því en frá jörðu. Þá kemur í ljós að allar myndirnar á himninum eru tilviljanakenndar og því engin möguleiki á því að merkin geti haft áhrif á líf okkar. Þegar við tölum um að stjörnuþoka eða vetrarbraut sé í ákveðnu merki, til dæmis Andrómeduvetrarbrautin, er í raun átt við að hún sé fyrir aftan merkið frá jörðu séð.

Stjörnumerki himinsins eru ekki raunveruleg, en ímynduðu verurnar á himninum eiga líklega rætur að rekja til bænda og stjörnufræðinga sem höfðu hagnýt gildi fyrir merkin. Megintilgangur merkjanna var að segja hvaða stjörnur voru hvar á hverjum tíma. Bændur til forna notuðu merkin til þess að vita hvenær skyldi sá og hvenær taka ætti afraksturinn upp, því sum merki sjást aðeins á sérstökum tíma ársins. Til þess að aðstoða sig við að muna merkin var gott að búa til persónur sem þau minntu ef til vill á.

Sjá nánar: Himinhvelfingin

Stjörnumerki Ptólmæosar

Kládíus Ptólmæos

Þau merki sem við þekkjum í dag eru byggð á hópi 48 grískra persóna sem Kládíus Ptólmæos frá Alexandríu skráði í rit sitt Almagest um 150 e.Kr. Önnur menningarsamfélög höfðu sín merki eins og Forn-Egyptar og Kínverjar en Egyptar teiknuðu upp óvenjulegri merki á borð við kött og flóðhest svo dæmi séu tekin.

Rit Ptólmæosar inniheldur mikilvægustu stjörnumerkin sem sáust frá breiddargráðu Alexandríu, þar sem nú er Kaíró höfuðborg Egyptalands. Á meðal þeirra eru nokkur merki sem margir þekkja ef til vill, eins og til dæmis birnirnir tveir, Svanurinn, Herkúles, Vatnaskrímslið og Vatnsberinn ásamt merkjum dýrahringsins. Í riti hans er einnig að finna nokkur smærri, óskýrari merki á borð við Folann og Örina.

Sagt hefur verið að himininn sé eins og goðfræðileg myndabók. Á himninum er nefnilega að finna persónur úr mörgum frægum goðsögum, til dæmis flestar persónurnar úr sögunum af Perseifi – þar á meðal sjávarskrímsli eitt sem þó er betur þekkt í dag sem meinlaus hvalur. Á himninum er líka að finna veiðimanninn mikla Óríon sem sest niður fyrir sjóndeildarhringinn og mundar kylfu sína í átt til Nautsins. Þegar Óríon sest, rís drápsvera hans Sporðdrekinn og beinir eiturodda sínum að honum; Herkúles liggur í norðri ásamt fórnarlambi sínu Ljóninu.

Sjá nánar: Stjörnumerki Ptólmæosar (ásamt lista yfir merkin)

Dýrahringurinn

Á himninum reikar sólin og reikistjörnunar í gegnum þrettán stjörnumerki og mynda tólf þeirra dýrahringinn. Stjörnumerki hans eru:

Stjörnumerki Dagsetningar skv. stjörnuspeki Raunverulegar dagsetningar Dvöl sólar í merki
Fiskarnir
19. febrúar til 20. mars
12. mars til 18. apríl 38 dagar
Hrúturinn
21. mars til 19. apríl
18. apríl til 14. maí
26 dagar
Nautið
20. apríl til 20. maí
14. maí til 21. júní
38 dagar
Tvíburarnir 21. maí til 21. júní
21. júní til 20. júlí
29 dagar
Krabbinn
22. júní til 22. júlí
20. júlí til 10. ágúst
21 dagur
Ljónið
23. júlí til 22. ágúst
10. ágúst til 16. september
37 dagar
Meyjan
23. ágúst til 22. september
16. september til 31. október
45 dagar
Vogin
23. september til 23. október 31. október til 23. nóvember
21 dagur
Sporðdrekinn 24. október til 21. nóvember
23. nóvember til 29. nóvember
8 dagar
Naðurvaldi -
29. nóvember til 18. desember
18 dagar
Bogmaðurinn 22. nóvember til 21. desember
18. desember til 19. janúar 34 dagar
Steingeitin 22. desember til 19. janúar 19. janúar til 16. febrúar
27 dagar
Vatnsberinn
20. janúar til 18. febrúar
16. febrúar til 12. mars
24 dagar

Eins og sést hér að ofan er sólin mislengi í stjörnumerkjunum þrettán. Það væri nú nokkuð sérkennileg tilviljun ef sólin væri nákvæmlega mánuð í hverju þeirra og færði sig alltaf á milli á miðnætti!

Dagsetningarnar í seinni dálknum töflunni hér að ofan miðast við árin 2009-2010. Þær eru breytilegar á milli ára m.a. vegna þess að árið er í raun u.þ.b. 365,25 dagar (sem er leiðrétt með því að skjóta inn 29. febrúar á fjögurra ára fresti).

Frá þeim tíma þegar stjörnuspekikerfið var í mótun fyrir nokkur þúsund árum var það miklu nær raunverulegum dagsetningum en nú er. Það er pólvelta jarðar sem veldur því að staðsetning sólar á himninum hefur færst um u.þ.b. mánuð frá þeim tíma. Stjörnuspekingar ættu samt ekki að örvænta þar sem sveiflan vegna pólveltunnar tekur um 26.000 ár. Dýrahringurinn kemst því aftur nálægt því að passa eftir rúmlega 20.000 ár (ef litið er framhjá því að sólin dvelur mislangan tíma í merkjunum!).

Sjá nánar: Stjörnuspeki

Önnur stjörnumerki

Johannes Hevelius

Stjörnumerki Ptólmæosar þöktu þó ekki allan himininn og milli þeirra voru skörð sem óhjákvæmilega varð að fylla. Menn bættu þá við nýjum merkjum, stundum með því að breyta upprunalegu mörkunum. Á síðustu árum 16. aldar bjuggu tveir hollenski sjófarendur, Pieter Drikszoon Keyser (1540-96) og Fredrick de Houtman (1571-1627), til tólf ný stjörnumerki á suðurhimininn, þar sem grísku stjörnufræðingarnir sáu ekki til. Hollenski kortagerðamaðurinn Petrus Plancius (1552-1622) bætti þremur merkjum við þau sem Grikkir þekktu og aðskildi hann stjörnurnar í Suðurkrossinum og Mannfáknum. Enn síðar varð að skipta suðurhimninum í fleiri merki og sum heitin bera óneitanlega keim af nútímanum; þar er til dæmis að finna Sjónaukann, Smásjána og Loftdæluna. Á miðri 18. öld kláruðu menn svo að kortleggja suðurhimininn þegar franski stjörnufræðingurinn Nicolas de Lacaille (1713-63) bjó til fjórtán ný merki og skipti Argó Navis í þrjú merki; Kjölinn, Skutinn og Seglið en upprunalega merkið þótti ekki skynsamlegt.

Hinn merki þýski stjörnufræðingur Jóhannes Hevelíus (1611-87) lauk svo við að kortleggja norðurhimininn - eins og við þekkjum hann í dag - árið 1687. Hevelíus kynnti nokkrar nýjar myndir en af þeim þekkjast sjö enn í dag. Mörk Alþjóðasambands stjarnfræðinga voru svo samþykkt árið 1930 með örlitlum tilbreytingum.

Í gegnum aldirnar hefur oft verið stungið upp á breytingum á stjörnumerkjunum. Árið 1688 stakk til að mynda maður að nafni Erhard Weigel upp á því að stjörnumerkjunum skyldi breytt. Þau áttu að tákna skjaldarmerki hvers lands í Evrópu til heiðurs konungsfjölskyldunum. Þannig átti til dæmis Ljón og Einhyrningur að tákna England. Stjörnumerkin væru þá miklu flóknari en þau eru nú og sem betur fer var hlaupið frá þessari slæmu hugmynd.

Pólhverf stjörnumerki

Af stjörnumerkjunum 88 sjást 53 merki að öllu leyti eða að hluta frá Íslandi. Nokkur merkjanna eru pólhverf frá Íslandi séð, eins og Stóribjörn, Kassíópeia og fleiri, en með því er átt við að þau rísa hvorki né setjast á himinhvelfingunni frá okkur séð, heldur hringsóla um himinpólinn.

Þeir sem hafa varið stundarkorni í stjörnuskoðun utandyra hafa margir tekið eftir því að stjörnumerkin virðast færast. Ef við gætum fylgst með næturhimninum í heilan sólarhring sæjum við himinhvelfinguna snúast einn hring um Pólstjörnuna. Að sjálfsögðu er það ekki himininn sem snýst heldur snýst jörðin einn hring um sjálfa sig á hverjum sólarhring.

Snúningur jarðar um sólu hefur einnig áhrif. Okkur virðist sem sólin flakki á milli stjörnumerkja dýrahringsins en í raun er það jörðin sem snýst heilan hring umhverfis sólina á einu ári. Á hringferðinni sjást síðan ólík mynstur stjarna á bak við sólina (stjörnumerki dýrahringsins). Ferðalag jarðarinnar umhverfis sólina veldur því einnig að stjörnumerkin eru alltaf á nýjum stað á himninum eftir því sem líður á veturinn. Til að mynda rís Óríon upp á himininn síðla nætur á haustin en sést strax eftir að myrkur skellur á í febrúar og mars.

Samstirni

Stjörnur mynda ýmis mynstur á himninum sem eru ekki í hópi stjörnumerkjanna sem voru ákvörðuð 1930. Kallast þessi mynstur samstirni og er Karlsvagninn í stjörnumerkinu Stórabirni tvímælalaust þekktasta samstirnið. Stjörnur sem mynda samstirni geta verið allar innan sama stjörnumerkis eða tilheyrt ólíkum stjörnumerkjum. Þær eru yfirleitt í mismunandi fjarlægð frá sólu og því ekki tengdar innbyrðis. Á þessu eru undantekningar og er Sjöstirnið í Nautinu trúlega þekktasta dæmið um stjörnur sem mynda samstirni og eru einnig í sömu stjörnuþyrpingu. Samstirni hjálpa fólki að rata um himininn og glæða hann lífi. Fjósakonurnar þrjár í belti Óríons auðvelda leitina að stjörnumerkinu. Samstirnin sem hér hafa verið nefnd sjást greinilega með berum augum en svo eru til samstirni sem sjást aðeins í stjörnusjónauka eins og Trapisan í Sverðþokunni í Óríon.

Meðal annarra þekktra samstirna eru Sumarþríhyrningurinn og Vetrarþríhyrningurinn, ferhyrningurinn í Pegasusi (Vængfáknum) og Herðatréð í Litlarefi. Þótt til séu listar yfir víðkunn samstirni er ekkert því til fyrirstöðu að leita að eigin samstirnum út frá uppröðun stjarnanna!

Sjá nánar: Listi yfir samstirni

Að læra á stjörnuhimininn

Það tekur áhugamenn mjög mislangan tíma að átta sig á næturhimninum, hvernig hann hreyfist og hvar á að leita að áhugaverðum fyrirbærum til skoðunar. Til þess að læra að þekkja stjörnumerkin getur verið gott að fara að heiman án sjónauka (nema e.t.v. handsjónauka) og finna sér góðan stað þar sem truflun vegna götuljósa er í lágmarki. Stjörnukort, vasaljós (helst með rauðu ljósi til þess að skemma sem minnst aðlögun augnanna að náttmyrkrinu), hlý föt og heitt kakó er allt sem þarf að hafa með í farteskinu þegar haldið er á vit stjörnumerkjanna. Þessi grein er hugsuð sem hjálpargagn fyrir stjörnuáhugamenn sem vilja læra að þekkja stjörnumerkin. Það er þó ekki svo að maður læri að þekkja öll merkin á einu kvöldi (frá Íslandi sjást yfir 50 stjörnumerki!) heldur er gott að miða við að læra eitt stjörnumerki á kvöldi og rifja í leiðinni upp kunnuleg stjörnumerki sem sjást á himninum. Áður en langt um líður er staðsetning tíu til tuttugu stjörnumerkja komin á hreint og þá er auðveldara að finna ný stjörnumerki og fyrirbæri út frá þeim sem komin eru á hreint í kollinum.

Til þess að hægt sé að læra stjörnumerkin er nauðsynlegt að verða sér úti um stjörnukort eða hringskífu með stjörnumerkjunum. Í Íslenskum stjörnuatlasi eru kort sem sýna stjörnumerkin sem sjást frá Íslandi og bókinni fylgir einnig hringskífa sem miðast við Ísland og er hentugt að taka með sér í stjörnuskoðun. Stjörnukort er að finna í sumum landabréfabókum sem gefnar hafa verið út fyrir grunnskóla og við á Stjörnufræðivefnum gefum út nýtt stjörnukort  í prentvænni útgáfu í hverjum mánuði. Ennfremur mælum við með Starry Night hugbúnaðinum fyrir þá sem vilja læra merkin og geta prentað út eigin stjörnukort.

Sjá nánar: Leiðarmerki

Listi yfir stjörnumerkin

Íslenskt heiti
Latneskt heiti Eignarfall á latínu Sést frá Íslandi Áhugaverð djúpfyrirbæri
Andrómeda
Andromeda
Andromedae
M31, M32, M110
Altarið
Ara
Arae Nei
 
Áttavitinn
Pyxis Pyxidis Að hluta
 
Áttungurinn
Octans
Octanis
Nei  
Bereníkuhaddur
Coma Berenices
Comae Berenices
M53, M64, M85, M88, M91, M98, M99, M100, NGC 4565
Bikarinn
Crater
Crateris
Að hluta
 
Bogmaðurinn
Sagittarius Sagittarii Að hluta M8, M17, M18, M20, M21, M22, M23, M24, M25, M28, M54, M55, M69, M70, M75
Borðið
Mensa Mensae
Nei Stóra Magellanskýið (að hluta)
Drekinn
Draco
Draconis

M102, NGC 6543
Dúfan
Columba
Columbae
Nei
 
Dælan
Antlia Antilae
Nei  
Eðlan
Lacerta
Lacertae
 
Einhyrningurinn Monoceros
Monocerotis

M50, Rósettuþokan
Fiskarnir
Pisces
Piscium

M74
Fljótið
Eridanus
Eridani
Að hluta
 
Flugan
Musca
Muscae
Nei
 
Flugfiskurinn
Volans Volanis
Nei
 
Folinn
Equuleus Equulei
 
Fönix
Phoenix
Phoenicis Nei  
Gaupan Lynx
Lyncis

 
Gírafinn
Camelopardalis Camelopardalis
NGC 2403
Harpan Lyra
Lyrae

M56, M57
Hegrinn
Grus
Gruis
Nei
 
Herkúles
Hercules
Herculis
M13, M92
Hérinn
Lepus
Lepors
Að hluta
M79
Hjarðmaðurinn Boötes
Boötis

 
Hornmátið
Norma
Normae
Nei
 
Hrafninn
Corvus
Corvi
Að hluta
NGC 4038/4039
Hringfarinn
Circinus
Circini
Nei  
Hrúturinn
Aries
Arietis

 
Hvalurinn
Cetus
Ceti
Að hluta M77
Höfrungurinn
Delphinus
Delphini

 
Höggormurinn
Serpens Serpentis Að hluta
M5, M16
Indíáninn
Indus
Indi
Nei
 
Kamelljónið
Chamaeleon Chamaeleontis Nei
 
Kassíópeia Cassiopeia Cassiopeiae M52, M102
Kjölurinn
Carina
Carinae
Nei
Eta Carinae, Kjalarþokan, NGC 3532
Klukkan
Horologium
Horologii
Nei
 
Krabbinn
Cancer
Cancri

M44, M67
Lagarormurinn
Hydrus Hydri
Nei
 
Litlibjörn
Ursa Minor Ursa Minoris

 
Litlaljón Leo Minor
Leonis Minoris

 
Litlihundur Canis Minor
Canis Minoris
 
Litlirefur Vulpecula
Vulpeculae

M27
Ljónið
Leo
Leonis

M65, M66, M95, M96, M105, NGC 3628
Mannfákurinn
Centaurus
Centauri
Nei
Omega Centauri, Centaurus A
Málarinn
Pictor Pictoris Nei
 
Meitillinn Caelum
Caeli
Nei
 
Meyjan
Virgo
Virginis
Að hluta
M49, M58, M59, M60, M61, M80, M84, M86, M87, M89, M104
Myndhöggvarinn
Sculptor Sculptoris
Nei
NGC 55
Naðurvaldi Ophiuchus Ophiuchi
Að hluta M9, M10, M12, M14, M19, M62, M107
Nautið Taurus
Tauri

M1, M45 (Sjöstirnið)
Netið
Reticulum
Reticuli
Nei
 
Norðurkórónan
Corona Borealis Coronae Borealis

 
Ofninn
Fornax
Fornacis
Nei
NGC 1416, Fornax-þyrpingin
Óríon
Orion
Orionis

M42, M43, M78, Riddaraþokan
Paradísarfuglinn Apus Apodi Nei
 
Páfuglinn Pavo
Pavonis Nei
 
Pegasus/Vængfákurinn Pegasus
Pegasi

M15, NGC 7742
Perseus/Perseifur Perseus
Persei

M34, M76, NGC 869, NGC 884
Sefeus
Cepheus
Cephei

 
Seglið
Vela
Velorum
Nei
 
Sextanturinn
Sextans
Sextanis
 
Sjónaukinn
Telescopium
Telescopii
Nei
 
Skuturinn
Puppis Puppis
Nei
M46, M47, M93
Skjöldurinn Scutum
Scuti
M11, M26
Smásjáin
Microscopium Microscopii Nei
 
Sporðdrekinn
Scorpius Scorpii Að hluta
M4, M6, M7, M80
Steingeitin Capricornus
Capricorni
Að hluta
M30
Stóribjörn
Ursa Major
Ursa Majori
M40, M81, M82, M97, M101, M108, M109
Stórihundur Canis Major Canis Majoris
Að hluta M41, VY Canis Majoris
Suðurfiskurinn Piscis Austrinus Piscis Austrini
Nei
Fomalhaut
Suðurkórónan Corona Australis
Coronae Australis Nei
 
Suðurkrossinn
Crux
Crucis
Nei
Kolapokinn, NGC 4755 (Skartgripaskrínið)
Suðurþríhyrningurinn
Triangulum Australe Trianguli Australis Nei
 
Svanurinn Cygnus
Cygni

Slörþokan, Norður-Ameríkuþokan
Sverðfiskurinn
Dorado
Doradus
Nei
 
Túkaninn/Piparfuglinn
Tucana
Tucanae
Nei Litla-Magellanskýið, 47 Tucanae
Tvíburarnir
Gemini Geminorum

M35, NGC 2158, NGC 2392 (Eskimóaþokan)
Úlfurinn
Lupus
Lupi
Nei
Stóra-Magellanskýið
Vatnaskrímslið
Hydra
Hydrae
Að hluta
M48, M68, M83
Vatnsberinn
Aquarius Aquarii
Að hluta
M2, M72, M73; NGC 7009, NGC 7293
Veiðihundarnir
Canes Venatici Canum Venaticorum

M3, M51, M63, M93, M106
Vogin
Libra
Librae
Að hluta
 
Þríhyrningurinn
Triangulum
Trianguli

M33
Ökumaðurinn
Auriga
Aurigae

M36, M37, M38
Örin
Sagitta
Sagittae

M71
Örninn Aquila
Aquilae

NGC 6751

Heimildir:

  1. Kaler, James. 2002. The Ever-Changing Sky: A Guide to the Celestial Sphere. Cambridge University Press, Massachusetts.
  2. Sagan, Carl. 1980. Cosmos. Random House, New York.
  3. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  4. Vefsíða um samstirni á Wikipediu.
  5. Vefsíða um dýrahringinn á Wikipediu (dagsetningar af þeirri síðu).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook