Vont veður á tunglinu

30. janúar 2005

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga

Sólblettahópurinn 720 olli miklum róteindastormi.
Mynd: NASA/ESA/SOHO

Á næstu áratugum munu menn snúa aftur til tunglsins. Sem betur fer voru þó engir geimfarar á tunglinu í síðustu viku. Þann 20. janúar síðastliðinn sendi sólin frá sér gríðarlega stórt kórónugos við sólblettinn „NOAA 720“. Þetta gos var eitt hið öflugasta sem mælst hefur og við það þeyttust milljarðar tonna af rafgasi út í geiminn. Róteindirnar streymdu frá sólinni á næstum ljóshraða og náðu til jarðar og tunglsins á fáeinum mínútum. Þetta var upphafið að löngum „róteindastormi“.

Hér á jörðinni ver þykkur lofthjúpurinn og segulsviðið lífið fyrir róteindum og annars konar hættulegri geislun frá sólinni. Í raun var stormurinn fallegur. Þegar gasskýið náði til jarðar 36 klukkustundum síðar og rakst á segulsvið og agnir í lofthjúpi jarðar, urðu margir vitni að stórkostlegum norðurljósum. Sömu sögu er ekki að segja um tunglið.

Tunglið hefur engan lofthjúp né segulsvið og er því algjörlega berskjaldað fyrir sólgosum. Róteindirnar frá sólinni rekast einfaldlega á yfirborðið eða hvað sem á vegi þeirra verður.

Kórónugos hinn 17. janúar 2005 séð frá SOHO geimfarinu.
Mynd: NASA/ESA/SOHO

Róteindastormurinn 20. janúar var einn sá stærsti síðan 1989 og innihélt meira en 100 milljón rafeindavolt af orku (100 MeV). Svo orkuríkar róteindirnar geta hæglega komist í gegnum 11 sentímetra þykkan vatnsvegg og því veitir þunnur geimbúningur geimförum lítið skjól í slíkum stormi .

„Geimfari á gangi á tunglinu þegar stormurinn reið yfir hefði veikst,“ sagði Francis Cucinotta geislunafræðingur hjá NASA. „Í fyrstu liði honum ágætlega en fáeinum dögum síðar kæmu geislunareinkennin fram: uppköst, þreyta og lágur blóðrauðastyrkur. Þessi einkenni gætu varað í nokkra daga.“

Geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni voru hins vegar óhultir. Geimstöðin er vel varin auk þess að vera á braut um jörðu innan segulsviðsins. „Áhöfnin hefur líklega ekki orðið fyrir meiri skammti en eitt rem,“ segir Cucinotta.

Eitt rem (Roentgen Equivalent Man) er sá geislunarskammtur sem veldur vefjum í mönnum sömu eymslum og eitt röntgen af röntgengeislum. Í röntgengmyndatöku hjá tannlækni færðu í þig um 0,1 rem, þannig að geislunin sem geimfarar í geimstöðinni urðu fyrir 20. janúar er álíka mikil og tíu ferðir til tannlæknis.

Á tunglinu má áætla að geimfari utandyra hefði orðið fyrir um 50 rem af geislun, sem er nóg til að valda veikindum en er ekki banvænn skammtur. Skyndileg 300 rem geislun getur verið banvæn.

Fullorðnir þola skammt upp á 300 rem á nokkrum dögum eða vikum án þess að það hafi mikil áhrif. Sé geisluninni dreift yfir langan tíma, gefst líkamanum tími til að gera við ónýtar frumur. Komi allur skammturinn í einu, myndi e.t.v. helmingur manna deyja á innan við tveimur mánuðum ef læknisaðstoðar nyti ekki við.

Svo stórir skammtar frá sólgosum eru mögulegir. Þann 2. ágúst 1972 birtist stór sólblettur á sólinni sem sendi nánast stöðugt frá sér róteindastormum. Þetta ár stóðu Apollo-leiðangrarnir sem hæst. Í apríl það ár sneri áhöfn Apollo 16 til jarðar og áhöfn Apollo 17 bjó sig undir tungllendingu í desember. Sem betur fer voru allir öryggir heima á jörðinni þegar þetta gerðist.

Róteindastormurinn 1972 var miklu verri en sá í janúar 2005. Cucinotta áætlar að geimfari á tunglinu í ágúst 1972 hefði orðið fyrir 400 rem geislun. Það hefði þó ekki endilega þurft að kosta hann lífið, því ef strax hefði verið snúið heim og geimfarinn ímyndaði komist undir læknishendur, hefði lífi hans getað verið bjargað.

Menn á tunglinu í náinni framtíð.

Geimför nútímans eru öruggari. Þéttleiki skrokksins á geimförum er mældur í grömmum á fersentímetra og því hærri sem tölurnar eru, þeim mun betra. Þannig var þéttleiki skrokksins á Apollo geimförunum 7-8 g/cm2 sem hefði dregið úr geislun stormsins 1972 úr 400 rem niður í 35 rem. Geimferjan hefur 10-11 g/cm2 og tunglbúðir framtíðarinnar munu hafa 20 g/cm2. Venjulegur geimbúningur hefur aðeins 0,25 g/cm2 sem veitir mjög litla vörn.

Enginn geimfari mun ganga á tunglinu í framtíðinni þegar róteindastormur er yfirvofandi. Þá verða geimfararnir inni í geimförunum eða híbýlum sínum sem ver þá fyrir stærstum hluta geislunarinnar. Geimveðurstofan lætur þá geimfara framtíðarinnar vita hvort sólstormur sé yfirvofandi, svo þeir komist í öruggt skjól í tíma.

Heimild:
http://science.nasa.gov

Til baka á forsíðu

Opna Stjörnufræðivefinn í nýjum glugga
Til baka á forsíðu

Meira um sólvindinn

Sólin

Virkni á yfirborði sólar

Slóðir á aðra vefi

Spaceweather.com