Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Andrómeda

 

Efnisyfirlit

Andrómeda eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Hún lendir í 19. sæti í stærðarröð stjörnumerkjanna.

Andrómeda er á norðurhluta stjörnuhvelfingarinnnar, nokkurn veginn mitt á milli norðurpóls og miðbaugs himins. Hún markast af Kassíópeiu í norðri, Eðlunni í vestri, Pegasusi (Vængfáknum) í suðvestri, Fiskunum og Þríhyrningnum í suðri og Perseifi í austri.

Andrómeda er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Andrómeda á himninum yfir Íslandi

Andrómeda er ofan við miðbaug himins og er hægt að sjá hana að kvöldlagi allan veturinn (frá september og fram í mars). Hún er í suðri um klukkan tíu að kvöldi í nóvember.

Einfaldast er að finna Andrómedu með því að finna fyrst Kassíópeiu (í laginu eins og „W“ á himninum). Björtustu stjörnurnar í Andrómedu mynda bjarta bogalínu fyrir neðan Kassíópeiu á himninum (stjarnan sem er lengst frá Kassíópeiu myndar einnig fjórða hornið í ferhyrningnum sem er uppistaðan í vængfáknum Pegasusi).

Ofan við neðri bogalínuna má sjá aðra daufari þar sem ljósmengun spillir ekki himninum.

Djúpfyrirbæri í Andrómedu

Stjörnumerkið Andrómeda er meðal frægustu stjörnumerkjanna á himninum því þar er að finna nálægustu stóru vetrarbrautina við vetrarbrautina okkar. Hún gengur vanalega undir nafninu Andrómeduvetrarbrautin eða Messier 31 (M31) því hún er 31. fyrirbærið í skrá stjörnufræðingsins Charles Messier yfir þokubletti á himninum. Tvö önnur Messierfyrirbæri er að finna í Andrómedu en það eru fylgivetrarbrautir Andrómeduvetrarbrautarinnar sem ganga undir heitunum M32 og M110. Tvær lausþyrpingar er að finna í merkinu sem er einfalt að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka. Þær eru þekktar undir skráarheitunum NGC 752 og NGC 7686.

Stjörnumerkið Andrómeda sést á kvöldhimninum frá september og fram í mars. 

Andrómeda á himninum yfir Íslandi

Stjörnumerkið Andrómeda á næturhimninum yfir Íslandi að haustlagi (15. október) kl. 22:00. Horft er í suðausturátt. Stjörnumerkið Kassíópeia er í norðri, Eðlan í vestri, Pegasus (Vængfákurinn) í suðvestri, Fiskarnir og Þríhyrningurinn í suðri og Perseifur í austri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook