Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Argyre-dældin (Argyre Planitia)

Argyre dældin eða Argyre sléttan (Argyre Planitia) er stór árekstragígur á suðurhveli Mars. Dældin er um 1800 km í þvermál og næst stærsta árekstradældin á Mars eftir Hellas dældinni sem er 2300 km í þvermál. Nafnið á dældinni birtist fyrst á korti sem Giovanni Schiaparelli gerði árið 1877 en Argyre var silfureyja í grískri goðafræði.

Argyre dældin nær um 5,2 km undir meðalhæð yfirborðsins. Hún er því öllu grynnri en Hellas dældin. Dældin myndaðist, líkt og Hellas dældin, fyrir meira en 4 milljörðum ára eða á Nóaskeiðinu í jarðsögu Mars, þegar stórt smástirni rakst á reikistjörnuna. Allt í kringum dældina eru stórir fjallshryggir sem streyma út frá henni en einnig stórir árekstragígar sem mynduðust eftir á. Á gagnstæðri hlið reikistjörnunnar er Útópía-sléttan þar sem Viking 2 lenti árið 1976.

Hæðarkort MOLA í Mars Global Surveyor af Argyredældinni.

Frá dældinni liggja þrír stórir árfarvegir sem virðast hafa flætt frá suðri og austri inn í gegnum gígbrúnina og ofan í dældina. Fjórði stóri árfarvegurinn virðist hafa flætt út úr norðurbrúnni í átt að Chryse sléttunni. Á botni dældarinnar er lagskipt efni; set sem sennilega myndaðist þegar vatnið hvarf smám saman og skildi uppleyst efni eftir sig.

Gígurinn Galle

Á austurhlið Argyre er gígurinn Galle – nefndur eftir þýska stjörnufræðingnum Johann Gottfried Galle - sem minnir einna helst á broskall. Gígurinn er 230 km í þvermál og var fyrst ljósmyndaður af Viking 1 brautarfarinu. Gígurinn er eitt margra forvitnilegra mynstra á yfirborði Mars.

Mynd Mars Express geimfarsins af brosmilda gígnum Galle. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Heimildir:

 

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook