Nánast ósýnileg fylgivetrarbraut

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

21. september 2008

Stjarneðlisfræðingar hafa uppgötvað dvergvetrarbraut á braut umhverfis Vetrarbrautina okkar sem gengur undir nafninu Segue 1. Hún hefur aðeins að geyma nokkur hundruð stjörnur en massi hennar er þó um þúsund sinnum meiri en ljósaflið gefur til kynna. Það þýðir að hann er nánast allur á formi ósýnilegs hulduefnis.

Yfir tuttugu litlar fylgivetrarbrautir snúast umhverfis Vetrarbrautina okkar. Flestar þeirra eru það daufar að erfitt er að koma auga á þær nema með stórum sjónaukum en tvær þeirra, Stóra- og Litla-Magellanskýið, blasa við á himninum yfir suðurhveli jarðar.

Marla Geha er í forsvari fyrir hóp stjarneðlisfræðinga sem skoðaði um helming dvergvetrarbrautanna umhverfis Vetrarbrautina í gegnum Keck-sjónaukann á Hawaii. Keck er meðal stærstu stjörnusjónauka á jörðinni og með þessum athugunum sýndi hópurinn endanlega fram á að vetrarbrautirnar eru ekki fjarlægar kúluþyrpingar heldur dvergvetrarbrautir.

Sloan Digital Sky Survey sjónaukinn.

Það sem kemur stjarneðlisfræðingunum á óvart er hve hátt hlutfall af massa dvergvetrarbrautanna er á formi hulduefnis sem sést ekki en hefur þyngdarkraft líkt og venjulegt efni. Þótt ljósafl Segue 1 sé aðeins einn milljarðasti af ljósafli Vetrarbrautarinnar er massi hennar um þúsund sinnum meiri en mætti út frá sýnilegu efni í henni. Hlutfallið á milli sýnilegs efnis og hulduefnis er því 1/1000 sem er hæsta gildi sem sést hefur í vetrarbraut hingað til. Til þess að reikna út massann nota stjarneðlisfræðingar upplýsingar um hraða dvergvetrarbrautarinnar umhverfis Vetrarbrautina okkar en hann ræðst af massanum.

Segue 1 fannst þegar stjarneðlisfræðingar fóru í gegnum gögn frá Sloan Digital Sky Survey (SDSS) sjónaukanum í Nýju-Mexíkó. Hann tekur myndir af nýju svæði á himninum á hverri nóttu og er ætlunin að skanna 25% himinsins áður en verkefninu lýkur. Í því felst m.a. skráning á nokkur hundruð milljón fyrirbærum (stjörnur og vetrarbrautir) á himinhvelfingunni.

Hluti af verkefninu nefnist SEGUE (Sloan Extension for Galactic Understanding and Exploration). Hann felur m.a. í sér að búa til þrívíddarlíkan af Vetrarbrautinni og nágrenni hennar. Eins og nafnið gefur til kynna voru það stjarneðlisfrfræðingar sem unnu við þennan hluta sem komu auga á dvergvetrarbrautina Segue 1. Mikil gróska er í rannsóknum á dvergvetrarbrautum og hefur u.þ.b. helmingur fylgivetrarbrauta Vetrabrautarinnar okkar fundist á síðustu tveimur árum. Má því ætla að enn fleiri eigi eftir að finnast eftir því sem stjarneðlisfræðingar halda áfram að fara í gegnum niðurstöður SDSS.

Heimildir:

  1. Astronomers Discover Most Dark Matter-Dominated Galaxy in Universe. Vefur Yale-háskóla. (Skoðað 19.9.2008).
  2. Myndir: Sloan Digital Sky Survey.

- Sverrir Guðmundsson