Yfir 60 krakkar fræddust um himingeiminn

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

8. mars 2009

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Yfir 60 krakkar á aldrinum 5 til 13 ára tóku þátt í fyrsta stjörnufræðinámskeiði stjörnufræðiársins helgina 7. og 8. mars. Námskeiðið fór fram á vegum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Krakkarnir komu í fylgd með foreldrum sínum sem virtust ekki síður áhugasamir og spenntir. Námskeiðið þótti lukkast afar vel og verður endurtekið á næstunni en mun færri komust að en vildu. Námskeiðið er hluti af þátttöku Íslands í UNAWE verkefninu á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar sem gengur út á að efla vitund yngsta stjörnuáhugafólksins um alheiminn. UNAWE námskeiðin eru haldin út um allan heim. [This article in English.]

Á námskeiðinu voru þátttakendur fræddir um undur alheimsins með ýmsum hætti. Þannig lærðu þátttakendur t.d. um myndun árekstragíga á tunglinu með því að láta þunga hluti falla í box fullt af hveiti og kakói. Þegar það gerist myndast gígur og efnisskvettan frá honum allt í kring.

Þegar þungur hlutur er látinn falla ofan í box fullt af hveiti og kakói ofan á myndast gígar líkt og á tunglinu.
Í kringum gígana eru efnisskvettur frá efni undir yfirborðslaginu. Þess vegna sjáum við oft ljósara efni í kringum gíga á tunglinu.

Útksýrt var með leikrænum hætti hvers vegna tunglið vex og dvínar á himninum, sem og hvers vegna það snýr ávallt sömu hliðinni í átt að jörðinni. Allir tóku vitaskuld þátt í því. Sett var upp líkan af jörðinni og tunglinu til þess að gefa okkur betri hugmynd um stærðir og fjarlægðir í sólkerfinu.

Kvartilaskipti tunglsins útskýrð á verklegan hátt. Höfundur þessarar fréttar gegni hlutverki sólar.

Að lokum var fjallað um Vetrarbrautina okkar, árekstur hennar við Andrómeduvetrarbrautina og svartholið sem leynist í miðju hennar. Spurningunni ,,Hvað gerist ef maður dettur ofan í svarthol?” var svarað með góðri hjálp frá Hómer Simpson.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að sjálfsögðu stjörnuskoðunarkvöldið þar sem krakkarnir og foreldrar þeirra koma með eigin sjónauka (ef þau eiga, annars fá þau að horfa hjá öðrum).

Í eina kvöldstund breytast þá 60 íslenskir krakkar í litla Galíleó Galileí sem uppgötva undur alheimsins með eigin stjörnusjónauka. Foreldrar þeirra líka.

Fréttastofa Sjónvarps ræðir við þátttakendur námskeiðsins. Mynd: Óskar Torfi Viggósson.
  • Fleiri myndir af námskeiðinu er að finna á Flickr síðu Stjörnufræðivefsins. 
  • Fleiri myndir frá Óskari Torfa Viggóssyni er að finna í myndasafni Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. 
- Sævar Helgi Bragason
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook