Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook
 

Fóbos

Fylgitungl Mars

Fóbos er stærra tunglið af tveimur, sem eru á sporbaug umhverfis Mars. Það er jafnframt miklu nær rauðu reikistjörnunni en hitt tunglið, Deimos.

Í grískri goðafræði er Fóbos sonur Aresar (Mars) og Afródítu (Venusar). Phobos er grískt orð sem merkir „ótti“ og er einnig rót orðsins „phobia“ sem þýðir „fælni“ eða „hræðsla“.

Bandaríski stjörnufræðingurinn Asaph Hall fann Fóbos þann 12. ágúst 1877. Hundrað árum síðar tók Mariner 9 geimfarið fyrstu nærmyndirnar af tunglinu. Viking 1 fylgdi í kjölfarið sama ár og sovéska geimfarið Phobos árið 1988.

Örlög Fóbosar ráðin

Fóbos er nær móðurhnetti sínum en nokkurt annað tungl sólkerfisins, í aðeins 6000 km fjarlægð. Þetta þýðir að Fóbos sést ekki frá öllum stöðum á Mars. Flóðkraftar Mars lækka braut þess um 1,8 metra á öld og eftir um 50 milljón ár rekst það annaðhvort á Mars eða tvístrast og myndar hring umhverfis plánetuna. Þessi áhrif eru algerlega andstæð við þau sem verka á tunglið okkar því það fjarlægist okkur.

Vegna flóðkrafta Mars snúa Fóbos og Deimos alltaf sömu hliðinni að plánetunni, eins og tunglið okkar. Er því sagt að möndulsnúningur þeirra sé bundinn.

Talið er að Fóbos sé, líkt og Deimos, smástirni sem Mars fangaði snemma í sögu sólkerfisins. Aðdráttarkraftur Júpíters hefur þá sveigt þau af brautum sínum og í átt að Mars.

Fóbos er líklega smástirni af C-gerð, úr kolefnisríku bergi. Eðlismassinn er þó svo lágur að bæði tunglin eru líklega blanda íss og bergs. Tunglin eru bæði mjög gígótt.

Gígurinn Stickney

Augljósasta kennileiti Fóbosar er gígurinn Stickney, en það var ættarnafn konu Asaphs Hall. Áreksturinn sem myndaði þennan stóra gíg hefur næstum tvístrað Fóbosi. Rásirnar á yfirborðinu er líklega afleiðing þessa áreksturs. Svipuð ummerki sjást á Merkúríusi, tunglinu og á Mímasi.

Þyngdartog Fóbosar er aðeins 1/1000 af þyngdartogi jarðar. Á Fóbosi myndi 70 kg maður vega aðeins 70 grömm. Þessi staðreynd gæti haft skemmtilegar afleiðingar í för með sér fyrir ferðalang á Fóbosi. Hann gæti t.d. lyft leikandi heilu fjöllunum og auk þess stokkið hærra en nokkur annar í sögunni. Einnig gæti hann leikandi komist á braut um tunglin tvö, ef hann gæfi nógan kraft í stökkið.
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook