Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Naðurvaldi

Þrettánda stjörnumerki dýrahringsins

Efnisyfirlit
Naðurvaldi er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem himinhvelfingunni er skipt upp í og það ellefta stærsta. Merkið er staðsett við miðbaug himins nærri miðju Vetrarbrautarinnar, milli Höggormshalans í vestri og Höggormshöfuðsins í austri, Herkúlesar í norðri og Bogmannsins, Sporðdrekans og Vogarinnar í suðri. Naðurvaldi er ennfremur eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Nafnið „Naðurvaldi“ er svolítið sérkennilegt en fyrr á tíð þóttust menn sjá mynstur stjarna sem minnti á garp sem hélt á slöngu (nöðru). Nafnið „Naðurvaldi“ merkir einmitt „sá sem gætir höggormsins“. Á himinhvelfingunni er Naðurvalda svo lýst sem manni sem heldur á höggormi. Höggorminum er síðan skipt í tvennt, Höggormshalann og Höggormshöfuðið.

Samkvæmt grísku goðsögnunum táknar Naðurvaldi Asklepíus, guð lækninga og son Apollós. Askelepíus var framúrskarandi góður læknir en hafði hann lært hjá mannfáknum Kíroni sem þótti greindastur og indælastur mannfákanna. Asklepíus var sagður geta lífgað dauða menn á meðan jarðvist þeirra stóð og gerði það óspart. Hades, sjálfur konungur undirheimanna, var vitaskuld ekki ánægður með það enda ógnaði þessi gjörningur Asklepíusar ríki hans. Hades sannfærði bróður sinn Seif um að bana Asklepíusi með því að ljóstra hann eldingu og koma honum fyrir á himninum sem hann á endanum gerði. Á himninum heldur Naðurvaldi svo á höggormi, tákni lækninga og visku.

Ekki er víst að margir kannist við þetta stjörnumerki enda er það venjulega frekar lágt á himni séð frá Íslandi vegna nálægðar við miðbaug himins. Naðurvaldi sést því best frá Íslandi snemma kvölds á haustin eða síðla nætur á vorin.

Stjörnumerkið Naðurvaldi séð á íslenska næturhimninum á vorin (8. apríl) klukkan 03:00. Horft er í suðausturátt. Kortið var útbúið með Starry Night hugbúnaðinum.

Merkasti atburðurinn sem orðið hefur innan Naðurvalda var sprengistjarnan 1604. Sprengistjörnunnar varð fyrst vart þann 9. október árið 1604 en Jóhannes Kepler sá hana fyrst viku síðar og rannsakaði svo ítarlega að stjarnan var nefnd eftir honum. Kepler birti niðurstöður sínar í bókinni De stella nova in pede Serpentarii (Um nýju stjörnuna í fæti Naðurvalda). Galíleó færði sér birtingu sprengistjörnunnar í nyt og skoraði á hólm heimsmynd Aristótelesar um fullkomleika himinsins.

Þrettánda stjörnumerki dýrahringsins

Dýrahringurinn eins og hann birtist okkur í stjörnuspám er ekki allur þar sem hann er séður. Líklegt er að þeir lesendur sem eiga afmæli milli 29. nóvember og 17. desember séu hreinlega alls ekki í því stjörnumerki sem almennt er haldið fram.

Þann 30. nóvember gengur sólin inn í stjörnumerkið Naðurvalda sem er 13. stjörnumerki dýrahringsins. Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna í almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag. Ptólmæos áttaði sig á þessu strax á 2. öld e. Kr. í riti sínu Almagest. Þar skráir hann 29 stjörnur í Naðurvalda sem flestar eru norðan sólbaugsins (sú leið sem sólin gengur um himinninn) en fjórar þeirra sunnan hans. Naðurvaldi er eina stjörnumerki dýrahringsins sem hefur ekkert tákn og er aldrei tekið með í stjörnuspám.

Sólin er í Naðurvalda frá 30. nóvember til 18. desember. Naðurvaldi er þrettánda stjörnumerki dýrahringsins. Kort útbúið í Starry Night Enthusiast hugbúnaðinum.

Sjá nánar: Stjörnuspeki

Stjörnurnar í Naðurvalda

Innan Naðurvalda eru 55 stjörnur sjáanlegar með berum augum og eru fimm þeirrra bjartari en birtustig +3,0. Athygli vekur að stjörnum merkisins er ekki gefinn grískur bókstafur út frá birtu heldur röð þeirra frá vestri til austurs. Þannig er Sabik, næst bjartasta stjarna merkisins, η (eta) Ophiuchi og ζ (zeta) Ophiuchi eða Han þriðja bjartasta stjarnan innan Naðurvalda. Nálægasta stjarna merkisins er hin merka Barnardsstjarna sem er í aðeins 6 ljósára fjarlægð frá sólu.

 • Rasalhague (α (alfa) Ophiuchi) er bjartasta stjarnan í Naðurvalda. Hana er að finna í höfði Naðurvalda um fimm gráður vestur af stjörnunni Rasalgethi í Herkúlesi. Nafn stjörnunnar er úr arabísku og þýðir einfaldlega „höfuð höggormssafnarans“. Sýndarbirtustig Rasalhague er +2,1 en reyndarbirtan +1,28. Fjarlægð hennar er 47 ljósár og er hún 28 sinnum bjartari en sólin okkar. Á braut um Rasalhague er dauf fylgistjarna aðeins hálfa bogasekúndu frá henni. Þessi fjarlægð jafngildir sjö stjarnfræðieiningum sem þýðir að hún væri milli Júpíters og Satúrnusar væri hún í sólkerfinu okkar. Umferðartími fylgistjörnunnar er aðeins 8,7 ár og útfrá honum kemur í ljós að Rasalhague er um þrisvar sinnum massameiri en sólin okkar. Rasalhague fellur í litrófsflokk A (A5III) og er hún flokkuð sem risastjarna en ekki stjarna af meginröð eins og sólin okkar. Yfirborðshitastig hennar er í kringum 8000°C og er hún komin á síðari hluta æviskeiðs síns. Stjarnan virðist hafa klárað vetnisforða sinn nýlega og brennir nú helíni í kjarna sínum í stað vetnis.
 • Sabik (η Ophiuchi) er næst bjartasta stjarnan í Naðurvalda. Hana er að finna í suðurhorni átthyrningsins sem myndar merkið, í vinstra hnéi Naðurvalda um níu gráður vest-suðvestur af stjörnunni zeta Ophiuchi. Nafn stjörnunnar er úr arabísku og merkir „það sem kemur á undan“. Stjarnan er í 84 ljósára fjarlægð og sýndarbirtustig hennar er +2,4 en raunbirtan +0,34. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að Sabik er mjög þétt tvístirni og hefur fylgistjarnan 88 ára umferðartíma. Bjartari stjarnan er 35 sinnum bjartari en sólin okkar og tæplega 8500°C heit. Daufari stjarnan er 21 sinnum bjartari en sólin okkar og um 8000°C heit. Báðar stjörnurnar eru mun stærri en sólin okkar.
 • ζ Ophiuchi (Han) er þriðja bjartasta stjarna Naðurvalda. Hana er að finna milli stjarnanna Sabik og Yed Prior, í miðju þessara þriggja stjarna sem mynda línu við hné Naðurvalda. Stjarnan er bláhvít og flokkuð sem dvergur úr litrófsflokki O. Þrátt fyrir það er stjarnan átta sinnum stærri en sólin að þvermáli. Hún er ein af bjartari stjörnum himinsins sem dofnað hafa umtalsvert vegna milligeimsryks sem dregur úr birtu hennar. Sýndarbirtustig stjörnunna er +2,53 og raunbirtan -3,21 en ef áhrifa ryksins gætti ekki væri sýndarbirtustigið nærri 0. Hitastig stjörnunnar er yfir 30.000°C og birtan 68.000 sinnum meiri en birta sólar og massinn tuttugufaldur. Svo massamikil stjarna brennir vetnisforða sínum mjög hratt og hefur líklega þegar klárað helming vetnisforða síns, sem annars endist í átta milljón ár. ζ Ophiuchi bíða nöturleg örlög því hún á eftir að enda ævi sína sem sprengistjarna.
 • Yed Prior (δ (delta) Ophiuchi) er fjórða bjartasta stjarna Naðurvalda. Hana er að finna í vinstri hendi Naðurvalda sem heldur á höggorminum, um átta gráður aust-norðaustur af stjörnunni ζ Ophiuchi. Nafn stjörnunnar má rekja bæði til arabísku og latínu. Yed er arabíska orðið yfir „hönd“ en Prior er úr latínu og þýðir „fyrir framan“. Nafnið merkir sem sagt „höndin fyrir framan“ og á myndum af merkinu sést hvers vegna. Stjarnan er í um 170 ljósára fjarlægð frá sólinni og fellur í litrófsflokk M0.5. Sýndarbirta hennar er +2,74 en reyndarbirtan er -0,88. Stjarnan er um 630 sinnum bjartari en sólin okkar og yfirborðshitastigið er í kringum 3500°C. Væri Yed Prior staðsett í sólkerfinu okkar myndi hún teygja sig tvo þriðju hluta af vegalengdinni til Merkúríusar (um 60 milljón km út í geiminn).
 • Cebelrai (β (beta) Ophiuchi) er fimmta bjartasta stjarna Naðurvalda. Hana er að finna í norðausturhorni átthyrningsins sem myndar merkið, í hægri öxl Naðurvalda um átta gráður suðvestur af björtustu stjörnunni Rasalhague. Nafn stjörnunnar tengist höggormum ekki neitt en á þess í stað rætur að rekja til forns arabísks mynsturs sem á að endurspegla arabíska bithaga og liggur frá Herkúlesi suður með Naðurvalda. Í þessu mynstri er Rasalhague fjárhirðir og Cebelrai fjárhundurinn hans. Nafnið er úr orðatiltæki sem merkir einmitt þetta. Stjarnan sjálf er K2 risastjarna, um 4000°C heit, ein af mörgum fremur köldum K-stjörnum sem sjást á víð og dreif um himinninn og er Arktúrus í Hjarðmanninum líklega þeirra þekktust. Hún er í um 82 ljósára fjarlægð frá sólu, um 64 sinnum bjartari og mun stærri að þvermáli. Massinn er sennilega tvöfalt meiri en sólarinnar okkar. Cebelrai er á síðari hluta æviskeiðs síns og brennir líklegast helíni í kolefni í iðrum sínum eftir að hafa klárað vetnisforða sinn fyrir löngu.
 • Yed Posterior (ε (epsilon) Ophiuchi) er sjöunda bjartasta stjarna Naðurvalda. Hana er að finna í vinstri hendi Naðurvalda sem heldur á höggorminum, í suðvesturhorninu um sjö gráður aust-norðaustur af stjörnunni ζ Ophiuchi og aðeins eina og hálfa gráðu frá Yed Prior. Nafn stjörnunnar er blanda úr arabísku og latínu líkt og nafn nágrannastjörnunnar Yed Prior. Yed er arabíska orðið fyrir „hönd“ en Posterior er latína og þýðir „fyrir aftan“. Fjarlægð stjörnunnar frá sólinni okkar er um 108 ljósár og fellur hún flokk G9.5 risastjarna. Sýndarbirtustig hennar er +3,24 en reyndarbirtan +0,62 og er hún 61 sinnum bjartari en sólin okkar. Yfirborðshitastig hennar er um 4500°C en massinn er þrefalt meiri en massi sólarinnar. Í gegnum sjónauka sést dauf stjarna af +12 birtustig um tvær bogamínútur frá Yed Posterior sem gæti verið fylgistjarna. Lítið er vitað um hana og ólíklegt að þarna sé um fylgistjörnu að ræða en sé hún raunveruleg, er hún lítill rauður dvergur í að minnsta kosti 3600 stjarnfræðieininga fjarlægð frá stóru systur, með að minnsta kosti 125.000 ára umferðartíma.
 • θ (þeta) Ophiuchi er áttunda bjartasta stjarna Naðurvalda og meðal syðstu björtu stjarnanna merkinu. Stjarnan teygir merkið suður fyrir sólbauginn og hjálpar til við að gera merkið að þrettánda stjörnumerki dýrahringsins. Hana er ekki að finna í sígilda mynstrinu sem myndar Naðurvalda en er auðvelt að staðsetja milli Antares í Sporðdrekanum og Kaus Borealis í Bogmanninum. θ Ophiuchi er heit blá risastjarna af litrófsgerð B2 í 560 ljósára fjarlægð frá jörðinni og 11.500 sinnum bjartari en sólin okkar. Sýndarbirtustig hennar er +3,25 en milligeimsryk í Vetrarbrautinni deyfir ljósið um 14% og er raunbirta hennar -2,95. Stjarnan er mjög heit eða yfir 20.000°C og ríflega 10 sinnum massameiri en sólin. Að lokum mun hún mun enda ævi sína sem sprengistjarna.
 • ρ (ró) Ophiuchi er dauf stjarna í Naðurvalda, örstutt frá Antaresi og Al Nyat (σ Scorpii) í höfði Sporðdrekans. Sýndarbirtustig hennar er +4,63 en raunbirtan -0,86 og því fölnar hún í samanburði við nágranna sína. Þrátt fyrir að stjarnan láti ekki mikið yfir sér er hún yfir 20.000°C heitt tvístirni í 395 ljósára fjarlægð, en hornbilið milli stjarnanna er einungis þrjár bogasekúndur. Raunveruleg fjarlægð milli þeirra er að minnsta kosti 400 stjarnfræðieiningar og umferðartíminn 2000 ár. Bjartari stjarnan hefur sýndarbirtustigið +5,0 og er 4900 sinnum bjartari en sólin okkar á meðan daufari stjarnan er 2100 sinnum bjartari en sólin okkar. Stjörnurnar eru fallegar á að líta í gegnum sjónauka en eru þó öllu þekktari fyrir að vera umvafðar rykskýi í Vetrarbrautinni. Umhverfis ρ er björt endurskinsþoka og allt þar í kring rykský sem teygir sig 100 ljósár í austurátt til Bogamannsins þar sem stjörnumyndun er mjög virk.
 • Barnardsstjarnan er næst nálægasta sólstjarnan við sólina okkar í aðeins 6 ljósára fjarlægð. Stjörnuna er að finna í norðausturhorni Naðurvalda og þrátt fyrir nálægð sína er stjarnan af tíunda birtustigi (+9,54); langt frá því að vera sýnileg með berum augum. Stjarnan er nefnd eftir bandaríska stjörnufræðingnum Edward Emerson Barnard (1857-1923) sem uppgötvaði hana árið 1916. Frægð stjörnunnar kemur frá þeirri staðreynd að hún hefur mestu eiginhreyfingu sem þekkist meðal stjarna og hreyfist 10,4 bogasekúndur á ári. Það virðist ef til vill lítið en er næstum fjórðungur úr gráðu á meðalmannsævi. Stjarnan er fremur köld eða aðeins tæpar 3000°C og er birtan einungis 1/2500 hluti af birtu sólar. Þvermálið er aðeins 20% af þvermáli sólar og massinn einungis 17%.
Stjörnur Naðurvalda. Kortið var útbúið í Starry Nigth Pro Plus hugbúnaðinum.

Djúpfyrirbæri í Naðurvalda

Í Naðurvalda er fjöldi áhugaverðra djúpfyrirbæra úr Messier-skránni, allt kúluþyrpingar. Af öðrum fyrirbærum má nefna hringþokuna NGC 6572 og lausþyrpingarnar IC 4665 og NGC 6633.

 • M9 er að finna í hægri fæti Naðurvalda, um þrjár gráður suðaustur af stjörnunni Sabik. Þyrpinguna uppgötvaði Charles Messier árið 1764 en hana er nokkuð auðvelt að greina með 8x42 handsjónauka. M9 er ein nálægasta kúluþyrpingin við Vetrarbrautina okkar en fjarlægð hennar frá miðju Vetrarbrautarinnar er aðeins um 5500 ljósár en 27.000 ljósár frá sólinni okkar. Sýndarbirtustig þyrpingarinna er +7,7 en ljósið dofnar talsvert vegna milligeimsryks frá skuggaþokunni Barnard 64 sem er nokkurn veginn í sömu sjónlínu.
 • M10 er mjög falleg kúluþyrping. Þyrpinguna uppgötvaði Charles Messier þann 29. maí árið 1764. M10 er mjög glæsileg á að líta í gegnum stjörnusjónauka. Með 70cm (3 tommu) linsusjónauka sjást greinilega stakar stjörnur í þyrpingunni en er að sjálfsögðu tignarlegri með stærri stjörnusjónaukum. M10 er í 14300 ljósára fjarlægð frá okkur og um 80 ljósár í þvermál. Hún fjarlægist okkur með 69 km hraða á sekúndu.
 • M12 er lítil en glæsileg kúluþyrping sem Charles Messier uppgötvaði hinn 30. maí árið 1764. Þyrpingin er í um 16.000 ljósára fjarlægð frá sólinni og sýndarbirtustig hennar 6,1. M12 er örlítið daufari en nágrannaþyrpingin M10. Hún er fremur þunn kúluþyrping og stundum kölluð Tyggjókúluþyrpingin.
 • M14 er falleg kúluþyrping sem Charles Messier uppgötvaði hinn 1. júní árið 1764. Þyrpingin er um 100 ljósár í þvermál og í um 29.000 ljósára fjarlægð. Sýndarbirtustig hennar er +7,6 og sést hún því ágætlega með góðum handsjónauka. Fjarlægðinnar vegna er M14 fremur dauf og fátt markvert sem sést í gegnum litla stjörnusjónauka en með stærri sjónaukum og meðalstækkun er þyrpingin tignarlegri.
 • M19 er falleg en sérkennileg kúluþyrping í Naðurvalda sem Charles Messier uppgötvaði þann 5. júní árið 1764. Þyrpingin er yfir 100 ljósár í þvermál og í 29.000 ljósára fjarlægð frá sólu. Sýndarbirtustig hennar er +6,8 sem þýðir að við góðar aðstæður sést hún með handsjónauka. Í gegnum stjörnusjónauka sést aftur á móti að M19 er mjög sporöskjulaga miðað við aðrar kúluþyrpgingar. Myndir sýna að langás þyrpingarinnar inniheldur tvöfalt fleiri stjörnur en skammásinn. Talið er að þessa aflögun megi rekja til nálægðar þyrpingarinnar við miðju Vetrarbrautarinnar. Þyrpingin sést ekki frá Íslandi vegna þess hve sunnarlega á himninum hún er, enda skammt frá Antaresi í Sporðdrekanum.
 • M62 er ein bjartasta kúluþyrpingin í Naðurvalda og uppgötvaði Charles Messier hana þann 7. júní árið 1771. Sýndarbirtustig hennar er +6,7 sem þýðir að við bestu aðstæður er hún greinileg í handsjónauka og möguleiki á að greina hana með berum augum. Þyrpingin er í 23.000 ljósára fjarlægð frá fjarlægð. M62 er mjög aflöguð líkt og M19 en það má sömuleiðis rekja til nálægð þyrpingarinnar við miðju Vetrarbrautarinnar. Þyrpingin er á mörkum Naðurvalda og Sporðdrekans og sést ekki frá Íslandi.
 • M107 er fremur dauf en falleg kúluþyrping í Naðurvalda. Þokuna uppgötvaði Frakkinn Pierre Méchain í apríl árið 1782 en henni var ekki bætt inn í skrá Messiers fyrr en árið 1947. Sýndarbirtustig hennar á himninum er +7,8 og fjarlægð hennar frá sólu er um 20.000 ljósár. Frá Íslandi séð er M107 mjög lágt yfir sjóndeildarhringnum þegar best lætur svo ef þú ætlar að sjá hana skiptir tímasetningin öllu máli. Mestur möguleiki er á að sjá hana snemma kvölds á haustin og síðla kvölds á vorin.
 • NGC 6633 er gisin en falleg lausþyrping um 30 stjarna á svæði á himninum sem er álíka stórt og fullt tungl. Heildarsýndarbirtustig þyrpingarinnar er 4,6 og hún því sjáanleg með berum augum við góðar aðstæður sem daufur þokublettur, en björtustu stjörnurnar innan þyrpingarinnar eru af birtustigi 7,6 svo handsjónauka þarf að minnsta kosti til að greina stakar stjörnur í henni. Þokuna uppgötvaði svissneski stjörnufræðingurinn Philippe Loys de Chesaux milli 1745-46 og þykir það eitt fallegsta NGC-fyrirbærið á himninum. Aldur þyrpingarinnar er áætlaður um 660 milljón ár. NGC 6633 norðarlega í Naðurvalda, á mörkum hans og Höggormshalans og sést því ágætlega frá Íslandi.
 • NGC 6572 er lítil en björt hringþoka sem sýnir óvenjulegan blá-grænan lit í gegnum stjörnusjónauka við meðalstækkun. Þokan er í 3500 ljósára fjarlægð og hefur sýndarbirtustigið 9,0.
 • IC 4665 er ein af bjartari lausþyrpingum himinsins sem rataði hvorki í skrá Messiers né NGC-skrána vegna þess hve dreifð hún er og erfitt að greina í stjörnusjónauka. Þyrpingin er engu að síður kjörin til skoðunar með góðum handsjónauka eða stjörnusjónauka með vítt sjónsvið og litla stækkun. Þyrpinguna uppgötvað Philippe Loys de Chéseaux árið 1745 og er hún í um 1400 ljósára fjarlægð. Innan þyrpingarinnar eru um 30 stjörnur og bjartasta stjarnan af birtustigi 6,86.

Kort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Heimildir

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
 3. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur.
 4. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri.
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook