Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M9 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M9 (NGC 6333) er kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þyrpinguna uppgötvaði Charles Messier árið 1764 og skrásetti hana hinn 28. maí það ár. Messier lýsir þyrpingunni þannig:

(28. maí, 1764) Þoka, án stjörnu, í hægri fæti Naðurvalda; hún er kúlulaga og ljós hennar er dauft. Endurskoðuð 22. mars, 1781. (þverm. 3’)

Um 20 árum eftir uppgötvun Messiers varð enski stjörnufræðingurinn William Herschel fyrstur manna til að greina stakar stjörnur í þyrpingunni í gegnum 47,5 cm spegilsjónauka (18,7 tommur).

M9 er ein nálægasta kúluþyrpingin við Vetrarbrautina okkar. Fjarlægð hennar frá miðju Vetrarbrautarinnar er aðeins um 5500 ljósár en 25.800 ljósár frá sólkerfinu okkar. Þyrpingin er um 90 ljósár í þvermál og inniheldur hundruð þúsundir stjarna.

Í gegnum sjónauka sést að þyrpingin er nokkuð sporöskjulaga. Ástæðan er sú að í sömu sjónlínu er talsvert af milligeimsryki frá skuggaþokunni Barnard 64 eins og sést vel á myndum. Af þessum sökum dofnar ljósið frá þyrpingunni um 2,5 birtustig. Þetta þýðir að sýndarbirta þyrpingarinnar er 7,7 birtustig og reyndarbirtan -8,04 birtustig. Út frá þessu má áætla að þyrpingin sé 120.000 sinnum bjartari en sólin okkar.

M9 fjarlægist okkur með um 224 km hraða á sekúndu. Í þyrpingunni hafa 13 breytistjörnur fundist og á stjörnufræðingurinn frægi Walter Baade heiðurinn af að hafa uppgötvað tíu þeirra.

Í gegnum sjónauka

Við góðar aðstæður er auðvelt að greina M9 með að minnsta kosti 8x42 handsjónauka. Þyrpingin sést þá sem lítill og daufur þokublettur en lögunin leynir sér ekki. Með litlum linsusjónaukum sést lögunin enn betur og í sjónaukum sem eru stærri en 15 cm í þvermál (6 tommur) sjást björtustu stjörnurnar í þyrpingunni - sem eru af birtustigi 13,5 – nokkuð greinilega. Í gegnum 15 cm sjónauka sést að þyrpingin er 7 eða 8 bogamínútur að stærð og þykknar í kjarnanum. Stærri sjónauka þarf til að greina kjarnann fyllilega.

Nokkuð auðvelt er að staðsetja M9 á himninum þrátt fyrir að hún nái aldrei hærra en sjö gráður yfir sjóndeildarhringinn. Gott er að miða við stjörnuna Sabik (35 Eta Ophiuchi), sem er af birtustigi 2,43 og því vel sýnileg með berum augum, en þyrpingin er um þrjár gráður suðaustur af henni.

Með góðum stjörnusjónauka sést önnur örlítið minni og daufari kúluþryping í 80 bogamínútna fjarlægð frá M9 sem nefnist NGC 6356. Birtustig hennar er 8,25 og er hún tvöfalt fjarlægari en M9 eða í tæplega 50.000 ljósára fjarlægð. Álíka langt suðaustur frá M9 er enn önnur kúluþyrping sem kallast NGC 6342. Birtustig hennar er 9,7 og er hún minni en NGC 6356.

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. http://www.seds.org/messier/m/m009.html
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook