Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M10 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M10 er glæsileg kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þyrping var uppgötvuð af Charles Messier þann 29. maí árið 1764. Í skrá sinni lýsir Messier þyrpingunni þannig:

(29. maí, 1764) Þoka, án stjarna, í belti Naðurvalda, nærri 30. stjörnu þess stjörnumerkis, af sjötta birtustigi, samkvæmt Flamsteed (30 Oph). Þessi þoka er falleg og kúlulaga; maður getur aðeins séð hana með herkjum í venjulegum sjónauka sem er 3-fet (90cm brennivídd). Hr. Messier hefur tilkynnt hana á öðru korti af ferli halastjörnunnar 1769. Mem. Acad. fyrir árið 1775, plata IX. Endurskoðað 6. mars, 1781. (þverm. 4’)

Um tuttugu árum eftir uppgötvun Messiers varð enski stjörnufræðingurinn William Herschel fyrstur til að greina stakar stjörnur í þyrpingunni með 47,5 cm (18,7 tommur) spegilsjónaukanum sínum. Herschel lýsir þyrpingunni eftirfarandi:

Mjög falleg, og mjög þétt, þyrping stjarna; þéttasti hlutinn er um 3 eða 4 bogamínútur í þvermál.

M10 er mjög falleg á að líta í gegnum stjörnusjónauka. Með 70cm (3 tommu) linsusjónauka sjást greinilega stakar stjörnur í þyrpingunni en séð með stærri sjónaukum er hún meðal fallegustu kúluþyrpinga himins. Í sjónskoðun virðist hún vera átta til níu bogamínútur í þvermál en á ljósmyndum er hún á bilinu 15 til 20 bogamínútur eða 2/3 af þvermáli fulls tungls. Með góðum handsjónauka (eða stjörnusjónauka með litla stækkun) er auðvelt að greina kúluþyrpingarnar tvær í sama sjónsviði

M10 er í 14300 ljósára fjarlægð frá okkur og um 80 ljósár í þvermál. Þyrpingin er að fjarlægast okkur með 69 km hraða á sekúndu.

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. http://www.seds.org/messier/Mdes/dm010.html
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook