Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M12 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M12 (NGC 6218) er lítil en glæsileg kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þyrpinguna uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Charles Messier hinn 30. maí árið 1764. Í skrá sinni lýsir Messier þyrpingunni þannig:

(30. maí, 1764) Þoka uppgötvuð í Höggormshöfðinu, milli handleggs og vinstri hliðar Naðurvalda: þoka þessi inniheldur enga stjörnu, er kúlulaga, og ljós hennar er dauft; nálægt þessari þoku er stjarna af 9. birtustigi. Hr. Messier hefur tilkynnt hana á öðru korti af Halstjörnunni sem sást árið 1769. Mem. Acad. 1775, pl. IX. Endurskoðuð 6. mars, 1781. (þverm. 3’)’

Árið 1783 varð William Herschel fyrstur til að greina stakar stjörnur í þyrpingunni, enda með mun öflugri sjónauka en Messier.

M12 er í um 16.000 ljósára fjarlægð frá sólinni. Sýndarstærð hennar á himninum er 14 bogamínútur og birtustig hennar 6,1. Þyrpingin nálgast okkur með um 16 km hraða á sekúndu.

M12 er örlítið stærri en daufari en nágrannaþyrpingin M10. M12 er fremur þunn kúluþyrping og var eitt sinn talin einhvers konar millistig milli kúluþyrpinga og þéttra lausþyrpinga (líkt og M11). Fjarlægðin milli þessara tveggja þyrpinga er um 3700 ljósár.

Fremur auðvelt er að finna M12 á stjörnuhimninum en gott er að notast við stjörnukort. Þyrpingin er staðsett 3½° norðurvestur af kúluþyrpingunni M10 og 2½° aust-norðaustur af stjörnunni 12 Ophiuchi sem er af 6. birtustigi. Með góðum handsjónauka (eða stjörnusjónauka með litla stækkun) er auðvelt að greina kúluþyrpingarnar tvær í sama sjónsviði.

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. http://www.seds.org/messier/m/m012.html
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook