Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M14 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M14 (NGC 6402) er falleg kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þyrpinguna uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Charles Messier hinn 1. júní árið 1764. Í skrá sinni lýsir Messier þokunni á eftirfarandi hátt:

(1. júní, 1764) Þoka án stjörnu, uppgötvuð í drapery sem hangir úr armi Naðurvalda og liggur samhliða zeta Serpentis. Þessi þoka er ekki stór og er ljósafl hennar lítið; hins vegar, má sjá hana með einföldum þriggja og hálfs feta linsusjónauka. Nærri henni er dauf stjarna af níunda birtustigi. Staðsetning hennar hefur verið ákvörðuð miðað við gamma Ophiuchi og hefur Hr. Messier merkt staðsetningu hennar á kort fyrir halastjörnuna 1769. Mémoires de l’Académie 1775, plata IC. Skoðuð aftur 22. mars, 1781.

Enski stjörnufræðingurinn William Herschel greindi fyrstur manna stakar stjörnur í þessari daufu kúluþyrpingu árið 1783.

M14 er örlítið sporöskjulaga kúluþyrping. Hún er um 100 ljósár í þvermál og í um 30.600 ljósára fjarlægð. Sýndarþvermál hennar á himninum er 11,7 bogamínútur og sýndarbirtustig hennar +7,6. Raunbirta þyrpingarinnar er -9,12 sem þýðir að hún er nálega 400.000 sinnum bjartari en sólin okkar. Mikil fjarlægð veldur því að hún sýnist daufari en bæði M10 og M12, nágrannar hennar í Naðurvalda, þrátt fyrir að hún sé í raun og veru talsvert bjartari.

Á næturhimninum er M14 á svæði sem sést aldrei vel frá Íslandi. Þyrpingin sjálf er aftur nokkuð langt frá björtum stjörnum sem annars gætu vísað á hana. Einfaldasta leiðin er líklegast að staðsetja fyrst Beta Ophiuchi, sem er stjarna af 3. birtustigi, og nota til þess stjörnukort. Tíu gráður suðvestur er stjarnan 47 Ophiuchi (birtustig 4,5), bjartasta stjarnan á þessu svæði. M14 er rétt um 3° norðaustur frá henni og er sýnileg með góðum handsjónauka.

Fjarlægðinnar vegna er M14 fremur dauf og fátt markvert sem sést í gegnum litla stjörnusjónauka. Með stærri stjörnusjónaukum og meðalstækkun byrja þónokkur smáatriði að sjást í þokunni sem gaman er að virða fyrir sér.

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. http://www.seds.org/messier/m/m014.html
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook