Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M19 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M19 (NGC 6273) er kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þyrpinguna uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Charles Messier þann 5. júní árið 1764. Í skrá sinni lýsir Messier þyrpingunni á eftirfarandi hátt:

(5. júní, 1764) Þoka án stjarna, á sama breiddarbaug og Antares milli Sporðdrekans og hægri fótar Naðurvalda: þessi þoka er kúlulaga; hægt er að sjá hana mjög vel með hefðbundnum 3,5 feta sjónauka ; nálægasta nágrannastjarnan við þessa þoku er 28 Ophiuchi, sem er af 6. birtustigi, samkvæmt Flamsteed. Aftur skoðuð 22. mars, 1791. (þverm. 3’)

Árið 1784 greindi enski stjörnufræðingurinn William Herschel fyrstur manna stakar stjörnur í þessari kúluþyrpingu.

Í gegnum lítinn stjörnusjónauka sést að M19 er mjög sporöskjulaga miðað við aðrar kúluþyrpingar. Mælingar stjörnufræðinga benda til þess að langás þyrpingarinnar innihaldi tvöfalt fleiri stjörnur en skammásinn. Talið er að þessi aflögun sé að rekja til nálægðar þyrpingarinnar við miðju Vetrarbrautarinnar. Fjarlægð M19 frá sólkerfinu okkar er 29.000 ljósár en hún er í aðeins um 5200 ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautarmiðjunni. Þyrpingin fjarlægist okkur með um 146 km hraða á sekúndu.

M19 er fremur þétt þyrping. Þvermál hennar er milli 110 og 140 ljósár þar sem mest er og er sýndarstærð hennar á himninum 14 bogamínútur. Reyndarbirtustig þyrpingarinnar er -9 og eru björtustu stjörnurnar af birtustigi +14. Sýndarbirtustig M19 er +6,8 sem þýðir að við mjög góðar aðstæður er hægt að greina hana með berum augum um 3 gráður vestur af 36 Ophiuchi (stjarna af 4. birtustigi) og ½ gráðu suður og örlítið vestur af 28 Ophiuchi (stjarna af 7. birtustigi). Betra er að nota góðan handsjónauka til að greina þyrpinguna á himninum. Þyrpingin sést ekki frá Íslandi vegna þess hve sunnarlega á himninum hún er. 

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. http://www.seds.org/messier/m/m019.html
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook