Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M62 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M62 (NGC 6266) er kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þyrpinguna uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Charles Messier þann 7. júní, 1771. Messier skrásetti þyrpinguna ekki fyrr en 4. júní árið 1779 og hún þess vegna númer 62 en ekki 49 eða 50 eins og hún hefði annars átt að vera. Í skrá sinni lýsir Messier þyrpingunni með eftirfarandi hætti:

(4. júní, 1779) Mjög falleg þoka, uppgötvuð í Sporðdreka, líkist lítilli halastjörnu. Miðja hennar er björt og umlukin daufri birtu. Staðsetning hennar var ákvörðuð útfrá stjörnunni Tau Scorpii. M. Messier hafði þegar séð þessa þoku þann 7. júní árið 1771, án þess að hafa ákvarðað staðsetningu hennar. Skoðuð aftur 22. mars, 1781.

Líkt og oft áður sundurgreindi enski stjörnufræðingurinn William Herschel fyrstur manna stjörnur í þessari fallegu kúluþyrpingu. Herschel hafði orð á því að hún væri lítil útgafa af M3, kúluþyrpingunni fögru í Veiðihundunum.

Í gegnum stjörnusjónauka við meðalstækkun sést að M62 hefur eina óreglulegustu lögun kúluþyrpingar sem þekktist, en Herschel minnist fyrstur á þessa einkennilegu lögun. Á ljósmyndum og í gegnum góðan stjörnusjónauka sést vel að vesturhelmingur þyrpingarinnar er mun bjartari en austurhelmingurinn. Þessa afmyndun má að rekja til nálægðar þyrpingarinnar við miðju Vetrarbrautarinnar en fjarlægð hennar er ekki nema 6100 ljósár. Þyngdartogið frá Vetrarbrautinni aflagar með öðrum orðum þyrpinguna.

M62 er ein bjartasta kúluþyrpingin í Naðurvalda. Sýndarbirtustig hennar er +6,7 sem þýðir að við bestu aðstæður má greina hana með berum augum. Sýndarstærð þyrpingarinnar er ellefu bogamínútur en raunverulegt þvermál hennar er í kringum 63 ljósár. M62 er í næstum 23.000 ljósára fjarlægð frá sólinni.

M62 sést því miður ekki frá Íslandi vegna þess hve sunnarlega hún er staðsett á himinhvelfingunni. Sú staðreynd ætti þó ekki að aftra víðförulum íslenskum stjörnuáhugamönnum að skyggnast eftir henni á ferðalögum sínum um suðrænni slóðir. Til þess að finna þessa fallegu þyrpingu er best að horfa um 5° norðaustur af Epsilon Scorpii sem er appelsínugulleit stjarna af 2. birtustigi í hala sporðdrekans. Sérðu hana með berum augum?

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. http://www.seds.org/messier/m/m62.html
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook