Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M107 - Kúluþyrping í Naðurvalda

M107 (NGC 6171) er kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvaldi. Þokuna uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain í apríl árið 1782 og er hún að öllum líkindum seinasta fyrirbærið sem uppgötvaðist og rataði í skrá Messiers. Méchain segir frá uppgötvun sinni í bréfi til svissneska stærð- og stjörnufræðingsins Johann III Bernoulli hinn 6. maí árið 1783. Þar segir Méchain:

Í apríl 1782 uppgötvaði ég litla þoku í vinstri helmingi Naðurvalda milli stjarnanna Zeta og Fí, staðsetningu sem ég hef ekki enn skoðað nánar.

Upphaflega innihélt Messier-skráin ekki þetta fyrirbæri en því var bætt við skrána af bandaríska stjörnufræðingnum Helen Sawyer Hogg árið 1947 ásamt M105 og M106. William Herschel hafði ekki heyrt af uppgötvun Méchain þegar hann fann sjálfur þessa þyrpingu þann 12. maí árið 1793. Herschel var ennfremur sá fyrsti sem greindi stakar stjörnur í þyrpingunni.

M107 er gott dæmi um kúluþyrpingu sem virðist dofna vegna áhrifa frá rykskýjum í Vetrarbrautinni. Frá okkar sjónarhorni virðist sem þyrpingin sitji ofan á rykskýjunum í Vetrarbrautinni yfir Sporðdrekamerkinu.

Fremur auðvelt er að staðsetja M107 á næturhimninum, að því gefnu að stjörnumerkið sé yfir sjóndeildarhringnum. Frá Íslandi séð er M107 fremur lágt yfir sjóndeildarhringnum svo tímasetning skiptir miklu máli. Best er að greina þokuna snemma kvölds á haustin og síðla kvölds á vorin. Þyrpingin er staðsett 3° suð-suðvestur af stjörnunni Zeta Ophiuchi (stjarna af birtustigi +2,6).

Á himnum er sýndarstærð M107 um 3 bogamínútur en á ljósmyndum sést að þyrpingin er meira en fjórfalt stærri eða 13 bogamínútur í þvermál (80 ljósár). Sýndarbirtustig þyrpingarinnar er +7,8 sem þýðir að hún er sýnileg með góðum handsjónauka. Fjarlægð hennar frá jörðu er um 20.000 ljósár. 

Heimildir:

  1. Stephen James O’Meara. 1998. Deep Sky Companions: The Messier Objects. Sky Publishing Corporation, Cambridge, Massachusetts.
  2. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri.
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook