Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Facebook
 

Stjörnumerkið Örninn

Örninn (lat. Aquila) er fremur stórt og áberandi stjörnumerki skammt frá miðbaug himins. Bjartasta stjarna merkisins er Altair sem myndar suðurhorn sumarþríhyrningsins. Örninn er eitt þeirra 48 merkja sem Ptólmæos skrásetti.

Örninn er sagður örn Seifs (Júpíters) sem sagður er hafa hjálpað til í baráttunni við Títana þegar komið var á stjórn í alheiminum. Örninn hreif með sér Ganýmedes Trójuprins og flaug með hann á Ólympusfjall þar sem hann átti að þjóna Seifi.

Örninn er áberandi merki á haustmánuðum (lok ágúst og í september) á suðurhimninum.

Stjörnur Arnarins

  • Altair (α (alfa) Aquilae) er bjartasta stjarna Arnarins og tólfta bjartasta stjarna himinsins á eftir Kapellu í Ökumanninum og undan Aldebaran í Nautinu. Sýndarbirtustig hennar er +0,77. Altair sést vel frá Íslandi mestan hluta ársins en stingur sér niður fyrir sjóndeildarhringinn yfir háveturinn. Stjarnan myndar suðurhorn sumarþríhyrningsins ásamt Vegu í Hörpunni og Deneb í Svaninum en er nálægust þessara þriggja stjarna eða í 16,7 ljósára fjarlægð. Nafn stjörnunnar er úr arabísku og merkir örninn fljúgandi. Altair er hvít stjarna af litrófsgerðinni A7 og er töluvert heitari en sólin okkar eða um 7500°C. Massi hennar er 1,7 til 1,8 sólmassar en birtan er tífalt meiri en birta sólar. Altair er breytistjarna sem breytir birtu sinni um nokkra þúsundasta hluta úr birtustigi í níu mismunandi lotum sem standa yfir í allt frá 50 mínútum upp í níu klukkustundir.
  • Alshain (β (beta) Aquilae) þriðja bjartasta stjarna Arnarins en fékk þrátt fyrir það beta heitið. Alshain er í um 44,7 ljósára fjarlægð frá sólu og hefur fylgistjörnu af tólfta birtustigi en sýndarbirtustig Alshain er +3,7. Stjarnan er 1,3 sólmassar að stærð og sex sinnum bjartari en sólin okkar. Nafn hennar merkir the peregrine falcon
  • Tarazed (γ (gamma) Aquilae) er risastjarna af litrófsgerð K3. Hún er næst bjartasta stjarna Arnarins (sýndarbirtustigið ) en fékk engu að síður gríska bókstafinn gamma þegar Bayer skrásetti stjörnurnar og gaf Alshain beta heitið. Tarazed er töluvert stærri og bjartari en sólin okkar. Fjarlægðin til hennar er 460 ljósár sem þýðir að hún er 2960 sinnum bjartari en sólin og næði hálfa leið að braut jarðar væri hún staðsett í miðju sólkerfisins. Þrátt fyrir þetta er Tarazed kaldari en sólin okkar eða tæplega 4100°C heit.

Djúpfyrirbæri

Þótt Örninn liggi við jaðar Vetrarbrautarslæðuna á himninum eru þar engu að síður tiltölulega fá áhugaverð djúpfyrirbæri. Þrátt fyrir það getur verið mjög skemmtilegt að skanna yfir Örninn með víðum handsjónauka eða víðum linsusjónauka. Í merkinu eru þrjár áhugaverðar hringþokur en að öðru leyti eru þar lausþyrpingar og ein kúluþyrping, allt úr NGC-skránni.

  • NGC 6709 er fremur gisin en mjög falleg lausþyrping um 40 til 60 stjarna, um fimm gráður suðvestan zeta Aquilae. Þyrpingin er í um 4000 ljósára fjarlægð og talin vera um 315 milljón ára gömul. Í gegnum stjörnusjónauka sést hvernig þrjár björtustu stjörnurnar mynda þríhyrning. Sýndarbirtustig þyrpingarinnar er +6,7 og hornstærðin 13 bogamínútur svo best er að nota tiltölulega litla stækkun til að skoða hana (50x t.d.).
  • NGC 6751 er hringþoka í um 6500 ljósára fjarlægð, svipuð og hringþokan M57 í Hörpunni. Á ljósmyndum líkist þokan auga og er hún því oft kölluð augað glóandi. Þokan er um 0,8 ljósár í þvermál og hefur sýndarbirtustigið +12,5. Til þess að sjá þokuna þarf því sjónauka sem er 150mm (6 tommur) eða stærri við dimman himinn og góðar aðstæður og meðalstækkun (um 100x). Þokan kemst aldrei mjög hátt upp á himinninn frá Íslandi.

Stjörnukort

 

Facebook