Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Steingeitin

                                            

 

Efnisyfirlit

Steingeitin er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna og er hún um miðbikið í stærðarröðinni (40. stærsta). Miðja stjörnumerkisins er staðsett um 20 gráður sunnan við miðbaug himins og markast Steingeitin af stjörnumerkjunum Vatnsberanum í norðri, Erninum í norðaustri, Bogmanninum í austri, Smásjánni í suðri og Suðurfisknum í suðvestri. Steingeitin er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Steingeitina og telst hún því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Steingeitarinnar frá 20. janúar til 16. febrúar (en ekki frá 22. desember til 19. janúar eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna í almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Steingeitarmerkinu. Júpíter kemur til með að sjást með berum augum lágt á lofti í Steingeitinni haustið 2009 (sjá kort af Steingeitinni og nágrenni neðar á síðunni). Neptúnus er einnig í Steingeitinni um þessar mundir, nálægt mörkum hennar og Vatnsberans. Hann er hins vegar það daufur að hann sést einungis í handkíki eða stjörnusjónauka (hér eru kort af staðsetningu hans á himninum 2008-2010). Með stækkun sést hann sem bláleit skífa. Það er gaman að hugsa til þess að Neptúnus fannst á svipuðum slóðum í Seingeitinni fyrir rúmri einni og hálfri öld (1846). Það stemmir við þá staðreynd að hann ferðast einn hring umhverfis sólina á 164 árum. Við jarðarbúar innst í sólkerfinu höfum því séð Neptúnus mjakast einn umgang fyrir framan merki dýrahringsins frá þeim tíma er hann uppgötvaðist!

Steingeitin á himninum yfir Íslandi

Miðja Steingeitarmerkisins er um 20 gráður sunnan við miðbaug himins og liggur merkið því illa við stjörnuskoðendum. Steingeitin sést lágt á lofti í suðurátt að kvöldlagi í september og október.

Stjörnumerkið Steingeitin á íslenska næturhimninum að hausti (15. október) klukkan 20:30. Horft er í suðurátt. Vatnsberinn er til vinstri og Örninn efst til hægri. Myndin er úr Starry Night forritinu. 

Til þess að finna Steingeitina er einfaldast að finna fyrst stjörnumerkin sem hýsa stjörnur SumarþríhyrningsinsSvaninnHörpuna og Örninn. Hægt er að nota neðstu stjörnuna í sumarþríhyrningnum, Altair í Erninum, sem leiðarstjörnu en Steingeitina er að finna suðaustan við Örninn (niður og til vinstri). Það getur tekið smástund að finna Steingeitina því hún er neðarlega á himninum og engin stjarnanna í hópi bjartari stjarna himsins. Hún fellur í flokk með Krabbanum sem annað af tveimur daufustu merkjum dýrahringsins.

Saga Steingeitarinnar

Steingeitin er í hópi elstu stjörnumerkja. Hún er á þeim hluta himinsins þar sem svonefnd „vatnsmerki“ er að finna en í þeim hópi eru einnig stjörnumerkin Vatnsberinn, Fiskarnir, Höfrungurinn, Suðurfiskurinn og Hvalurinn. Hún er því oft nefnd „sægeitin“ (lat. Capra marii). Ástæða þess að merkin á þessu svæði eru kennd við vatn á ef til vill rætur sínar alla leið aftur til fornríkis Babýloníumanna. Fyrir um 3000 árum var sólin í Steingeitarmerkinu um vetrarsólstöður (sá tími í desember þegar sólin er lægst á lofti). Því hafa komið fram hugmyndir um að vatnsmerkin tengist regntímanum sem þá stóð yfir.

Stjörnur í Steingeitinni

Um 31 stjarna í Steingeitinni sést með berum augum. Rúmlega 30 stjörnur í Steingeiginni sjást með berum augum. Einungis 5 þeirra eru bjartari en +4 birtustig.

 • Algedi (α (alfa) Capricorni) er þriðja bjartasta stjarna merkisins. Henni var samt úthlutað fyrsta bókstafnum í gríska stafrófinu samkvæmt nafnakerfi Bayers en líklega er það komið til af því að hún er vestast í stjörnumerkinu. Nafnið Algedi er úr arabísku og merkir „barnið“. Ekki er vitað um uppruna þess með vissu en ef til vill vísar nafngiftin til stöðu Steingeitarinnar („sægeitarinnar“) sem eitt af þremur vatnamerkjunum á næturhimninum.
Algedi er sýndartvístirni en auðvelt er að sjá að þarna er ekki að sjá eina stjörnu heldur en tvær. Sýndartvístirni merkir að stjörnurnar eru ekki tengdar innbyrðist heldur eru einungis í sömu sjónlínu séð frá jörðinni. Daufari stjarnan sem oft er nefnd Alfa-1 (hún er vestar en hin stjarnan) er í um 690 ljósára fjarlægð. Hún er fjölstirni og eru björtustu stjörnurnar með birtustig +4,2 og +9,2. Hornbilið á milli þeirra er 44’’ (bogasekúndur) og því er auðvelt að greina þær að í sjónauka. Bjartari stjarnan, Alfa-2, er hins vegar í um 109 ljósára fjarlægð. Hún er einnig fjölstirni og skilur hornbil upp á 155’’ á milli björtustu stjarnanna í fjölstirninu. Ef Íslenskur stjörnuatlas er við höndina má sjá mynd af fjölstirninu Algedi á bls. 58. 
 • Dabih (β (beta capricorni)) er önnur bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu með birtustigið 3,08. Hún er tvístirni og er birtustig stjarnanna +3,1 og +6,1. Hornbilið á milli þeirra er 205'' sem þýðir að þær má greina í sundur í handsjónauka við góð skilyrði en það er hægðarleikur í stjörnusjónauka. Þar sem tvístirnið er í 330 ljósára fjarlægð eru það a.m.k. 21.000 stjarnfræðieiningar sem skilja stjörnurnar að (1 stjarnfræðieining er meðalfjarlægðin milli jarðar og sólar). Það tekur stjörnurnar því a.m.k. eina milljón ára að snúast um sameiginlega massamiðju á milli þeirra.
 • Deneb algedi (δ (delta) Capricorni) markar aftasta hluta geitarinnar (dindilinn). Á arabísku merkir orðið „deneb“ aftasta hluta dýrsins samanber Deneb í Svaninum (stélið), Denebóla í Ljóninu (skottið) og Deneb kaitos í Hvalnum (sporðurinn). Síðari hluti nafnsins (algedi) vísar til barns eins og stjarnan Algedi hér að ofan. Deneb algedi er bjartasta stjarna Steingeitarinnar með birtustigið +2,9.

Djúpfyrirbæri í Steingeitinni

Af þeim djúpfyrirbærum sem sjást í Steingeitinni er einungis eitt fyrirbæri úr Messier-skránni (kúluþyrpingun M30). Í Steingeitinni er einnig að finna þyrilvetrarbrautina NGC 6907 en hún er of sunnarlega (neðarlega) á himninum til þess að sjást frá Íslandi.

 • M30 er kúluþyrping í um 26 þúsund ljósára fjarlægð sem er álíka vegalengd og til miðju Vetrarbrautarinnar okkar. M30 má sjá á himninum um 3° austan við stjörnuna ζ (zeta) í Steingeitinni. Birtustig hennar er +7,2 sem þýðir að hún sést einungis í hand- eða stjörnusjónauka. Við það bætist að hún kemst einungis rétt yfir sjóndeildarhringinn hér á landi (mest 2,5° í Reykjavík sem þýðir að hún sést ekki á Norðurlandi vegna deyfingar ljóssins á leið sinni í gegnum lofthjúpinn).

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Steingeitin (einfalt kort)
Steingeitin

Steingeiting og stjörnumerki umhverfis hana.

Staða Júpíters haustin 2009 og 2010.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Steingeitarinnar til stjörnumerkja í nágrenninu.

 


Neptúnus í Steingeitinni haustið 2008

(brotalínurnar eru til hjálpar við sjónskoðun) 


Neptúnus í Steingeitinni haustið 2009

(brotalínurnar eru til hjálpar við sjónskoðun) 


Neptúnus í Steingeitinni haustið 2010

(brotalínurnar eru til hjálpar við sjónskoðun) 


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíða á Wikipediu um Steingeitina (skoðuð 22. júlí 2008).
 3. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
 4. Vefsíðan Digital Images of the Sky (skoðuð 22. júlí 2008).
 5. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
 6. Vefsíða Eastbay stjörnuskoðunarfélagsins (skoðuð 22. júlí 2008).
 7. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook