Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Vatnsberinn

 

Efnisyfirlit

Vatnsberinn er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Hann er tiltölulega stórt merki og lendir Vatnsberinn í 10. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð.

Vatnsberinn er rétt suður af miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Hvalnum í austri, Fiskunum í norðaustri, Pegasusi, Folanum og Höfrungnum í norðvestri, Erninum og Steingeitinni í vestri og stjörnumerkjunum Suðurfisknum og Myndhöggvaranum í suðri. Vatnsberinn er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Vatnsberann og telst hann því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Vatnsberans frá 16. febrúar til 11. mars (en ekki frá 20. janúar til 18. febrúar eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Vatnsberanum. Júpíter kemur til með að sjást með berum augum á mörkum Vatnsberans og Fiskanna haustið 2010 (sjá kort af Vatnsberanum og nágrenni neðar á síðunni). Reikistjarnan Úranus er stödd í Vatnsberanum um þessar mundir en færist yfir í Fiskamerkið 2010 (hér er kort af staðsetningu Úranusar á himninum 2008-2012). Úranus er með birtustigið +5,7 og sést því með berum augum þar sem ekki er ljósmengun. Hann sést auðveldlega í handsjónauka og sem lítil grænblá skífa í stjörnusjónauka. Loks mun Neptúnus svo ferðast í gegnum Vatnsberann á árabilinu 2011-2022. Hann er hins vegar það daufur að hann sést einungis í hand- eða stjörnusjónauka (hér eru kort af staðsetningu Neptúnusar á himninum 2010-2012). Hann sést sem bláleit skífa, svipaður Úranusi, en þarfnast meiri stækkunar.

Tvær loftsteinadrífur sjást árlega í átt frá Vatnsberamerkinu, báðar á sumrin. Önnur þeirra, Eta Akvarídarnir, á uppruna sinn að rekja til halastjörnu Halleys.

Vatnsberinn á himninum yfir Íslandi

Vatnsberinn sést að kvöldlagi á haustin fram í desember en best er að skoða hann í september eða október. Hann er rétt sunnan við miðbaug himins sem þýðir að efsti hluti Vatnsberans nær tæpar 30° upp á himnininn þegar hann er í hágöngu í suðri. 

Stjörnumerkið Vatnsberinn á íslenska næturhimninum að hausti (15. október) klukkan 21:30. Horft er í suðurátt. Fiskarnir eru til vinstri og Örninn og Steingeitin til hægri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Það eru til tvær ágætar leiðir til þess að finna Vatnsberann. Trúlega er auðveldast að finna fyrst stjörnumerkin sem hýsa stjörnur sumarþríhyrningsins; Svaninn, Hörpuna og Örninn. Gott er að nota tvær bjartar stjörnur ofarlega í Erninum (Altair og stjarnan fyrir ofan hana sem sjá má á myndinni) og draga línu niður að sjóndeildarhring. Vatnsberinn lendir vinstra megin við þessa línu. Einnig er hægt að finna ferninginn sem er uppistaðan í stjörnumerkinu Pegasusi (Vængfáknum). Fyrir neðan hann er fremur dauft stjörnumerki, Fiskarnir, en hægra megin við þá er Vatnsberinn sem sker sig betur úr stjörnuskaranum.

Uppruni stjörnumerkisins

Vatnsberinn er fornt stjörnumerki og er eitt „vatnsmerkjanna“. Í þeim hópi eru einnig stjörnumerkin Steingeitin, Fiskarnir, Höfrungurinn, Suðurfiskurinn og Hvalurinn. Ástæða þess að merkin á þessu svæði eru kennd við vatn á ef til vill rætur sínar alla leið aftur til fornríkis Babýloníumanna en sólin reikaði um þetta svæði meðan á regntímanum stóð.

Þekktasta goðsagan um stjörnumerkið tengir það við Ganýmedesi (sem tungl Júpíters er einnig nefnt eftir). Seifur varð ástfanginn af henni og sótti hana á jörðina í arnargervi (sbr. stjörnumerkið Örninn) og flaug með hana upp á Ólympustind svo hún gæti borið í guðina ódáinsveigar eða nektar sem varðveitti æskublómann.

Stjörnur í Vatnsberanum

Um 56 stjörnur í Vatnsberamerkinu sjást með berum augum og eru 9 þeirra bjartari en +4,0 birtustig.

 • Sadalmelik (α (alfa) aquarii) er næstbjartasta stjarna merkisins og er með birtustigið +3,0. Hún er önnur af tveimur stjörnum með gömul sérnöfn sem liggur í minna en einnar gráðu fjarlægð frá miðbaug himinsins (sem er beint út frá miðbaugi jarðar). Hin stjarnan er Míntaka í stjörnumerkinu Óríon. Nafnið er úr arabísku og vísar ásamt stjörnuheitinu hér að neðan (Sadal) til „happastjarna konungsins eða konungdæmisins“. Nafngiftin tengist trúlega einhverri gamalli sögn sem nú er glötuð.
 • Sadalsund (β (beta aquarii)) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu með birtustigið +2,9. Nafn hennar vísar til fjögurra happastjarna á himninum (tvær til viðbótar er að finna í Steingeitinni) en Sadalsund sker sig úr því nafn hennar merkir „mesta happastjarnan í hópnum“.
 • ζ (zeta) Aquarii er fallegt en þétt tvístirni. Með berum augum virðist „stjarnan“ vera með birtustigið +3,7 en þegar þær eru aðgreindar er önnur af birtustigi +4,4 og hin af birtustigi +4,6. Hornbilið á milli þeirra er um 2'' sem þýðir að þær verða einungis aðskildar með stjörnusjónauka. Þessi stjarna er miklu nær miðbaug Sadalmelik og Míntaka í Óríon en fékk ekki úthlutað nafni í fornöld. Hún er reyndar svo nærri að í kringum 21. nóvember færðist hún af suðurhveli himinsins yfir á norðurhvelið vegna pólveltunnar (sama fyrirbæri og veldur því að norður- og suðurpóllinn fara í hring um himininn á 26 þúsund árum og því verður Vega í Hörpunni „pólstjarnan“ yfir norðurpólnum eftir um 12 þúsund ár).

Djúpfyrirbæri í Vatnsberanum

Þrjú fyrirbæri úr Messier-skránni er að finna í Vatnsberanum (M2, M72 og M73). Einnig er þar að finna tvær hringþokur sem nefnast Satúrnusþokan og Gormþokan.

 • M2 er kúluþyrping í um 37 þúsund ljósára fjarlægð sem þýðir að hún er í raun hinum megin við miðju Vetrarbrautarinnar okkar. Hana má sjá sem daufan þokublett um 5° norðan við stjörnuna Sadalsund (β - beta) í Vatnsberanum. Birtustig hennar er +6,5 og því sést hún bæði í handkíki og stjörnusjónauka. Hægt er að sjá einstakar stjörnur í meðalstórum sjónauka en fjarlægð hennar gerir það að verkun að það þarf stóran sjónauka til þess að ná að greina stjörnurnar vel í sundur.
 • M72 er í hópi smæstu og daufustu kúluþyrpinganna í skrá Messier. Hún er í vestasta hluta Vatnsberans, um 4° sunnan við stjörnurnar μ (mí) og ε (epsilon) og rétt hjá M73 og Satúrnusþokunni. Birtustig M72 er +9,3 og fjarlægðin til hennar um 55 þúsund ljósár.).
 • M73 er samstirni fjögurra stjarna og er því ein af fáum færslum í Messier-skránni sem nær yfir stjörnur en ekki yfir þokubletti eins og gasþokur, stjörnuþyrpingar og vetrarbrautir (aðalmarkmiðið var að skrá niður þokubletti sem hægt væri að rugla saman við halastjörnur).
 • NGC 7009 (Satúrnusþokan) er hringþoka í Vatnsberanum. Hægt er að koma auga á hana í handsjónauka en er auðsjáanleg í stjörnusjónauka sem fölbgrár eða fölblár blettur um 1° vestan stjörnunnar ν (ní). Birtustig þokunnar er +8,0 og hún spannar um 36''. Nafnið er dregið af lögun hennar sem minnir á reikistjörnuna Satúrnus þegar hringarnir sjást nánast á rönd (líkt og mjó handföng á miðblettinum) en þessir armar sjást ekki nema með stórum stjörnusjónaukum.
 • NGC 7293 (Gormþokan) er meðal nálægustu hringþoka við okkur í um 450 ljósára fjarlægð. Hún er af birtustiginu +7,3 en birtan dreifist um stórt svæði og því er erfitt að skoða hana í stjörnusjónauka. Hún er hins vegar mjög falleg á myndum og hefur m.a. Hubble-sjónaukinn tekið af henni myndir sem eru sérlega glæsilegar.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Vatnsberinn (einfalt kort)
Vatnsberinn

Vatnsberinn og stjörnumerki umhverfis hann.

Staða Júpíters að hausti 2009 og 2010.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Vatnsberans til stjörnumerkja í nágrenninu. 


Úranus í Vatnsbera og Fiskunum 2008-2012


Neptúnus á milli Steingeitar og Vatnsbera haustið 2010

(brotalínurnar eru til hjálpar við sjónskoðun)


Neptúnus í Vatnsberanum haustið 2011


Neptúnus í Vatnsberanum haustið 2012


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíðan Absolute Astronomy (skoðuð 22. júlí 2008).
 3. Vefsíða um Vatnsberann á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
 4. Vefsíða um loftsteinadrífur á Wikipedia (skoðuð 22. júlí 2008).
 5. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
 6. Vefsíðan Digital Images of the Sky (skoðuð 22. júlí 2008).
 7. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
 8. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook