Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Facebook

Fiskarnir

 

Efnisyfirlit

Fiskarnir eru eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Þeir eru 14. stærsta stjörnumerkið á himninum.

Fiskarnir eru að mestu leyti norðan við miðbaug himins og markast þeir af stjörnumerkjunum Hvalnum í suðaustri, Hrútnum í austri, Þríhyrningnum í norðaustri, Andrómedu og Pegasusi í norðri og Vatnsberanum í suðvestri. Fiskarnir eru eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Fiskana og teljast þeir því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Fiskanna frá 11. mars til 18. apríl (en ekki frá 19. febrúar til 20. mars eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Fiskunum. Júpíter kemur til með að sjást við Fiskamerkið að haustlagi 2010 og 2011 (sjá kort af Fiskunum og nágrenni neðar á síðunni). Reikistjarnan Úranus færist yfir í Fiskamerkið 2010 (hér er kort af staðsetningu Úranusar á himninum 2008-2012). Úranus er með birtustigið +5,7 og getur því sést með berum augum þar sem ljósmengunar gætir ekki. Hann sést auðveldlega í handsjónauka og sést sem lítil grænblá skífa í stjörnusjónauka.

Fiskarnir á himninum yfir Íslandi

Þar sem Fiskarnir eru að langmestu leyti ofan miðbaug himins sjást þeir auðveldlega að kvöldlagi stærstan hluta vetrar (frá september fram í febrúar). Þeir eru í suðri klukkan níu að kvöldi í desember.

Stjörnumerkið Fiskarnir á íslenska næturhimninum um miðjan vetur (15. desember) klukkan 20:30. Horft er í suðurátt. Hvalurinn og Hrúturinn eru til vinstri og Pegasus og Vatnsberinn til hægri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Fiskarnir liggja rétt fyrir neðan ferhyrninginn í stjörnumerkinu Pegasusi og eru auðfundnir út frá honum. Einnig má nota Nautið og stjörnuþyrpinguna Sjöstirnið í Nautinu og finna ferhyrninginn í Pegasusi og síðan Fiskana.

Uppruni stjörnumerkisins

Fiskarnir eru í hópi „vatnsmerkjanna“ svonefndu ásamt Steingeitinnni (sægeitinni), Vatnsberanum, Hvalnum, Höfrungnum og Suðurfisknum. Í grískri goðsögn segir af flótta gyðjunnar Afródítu og sonar hennar Eros undan skrýmslinu Týfón. Þau umbreyttust í fiska til þess að sleppa sem nú má sjá á stjörnuhimninum.

Stjörnur í Fiskunum

Fiskarnir eru tiltölulega dauft stjörnumerki. Um 50 stjörnur sjást með berum augum en einungis þrjár þeirra eru bjartari en 4. birtustig.

  • Alrescha (α (alfa) piscium) er þriðja bjartasta stjarna Fiskamerkisins með birtustigið +3,8 en það munar mjög litlu á henni og stjörnunum sem skærar skína, Kullat Nunu (η (eta) ) og γ (gamma). Það kemur ef til vill ekki á óvart að Alrescha hafi verið úthlutað fyrsta bókstafnum ef haft er í huga að hún er tengipunkturinn í merkinu (sjá kort hér að neðan). Alrescha er þétt, fallegt tvístirni og er önnur stjarnan með birtustigið +4,2 og hin af birtustiginu +5,1. Hornbilið á milli þeirra er einungis tæpar tvær bogasekúndur (2'') og er því ekki hægt að aðskilja þær nema í stjörnusjónauka.
  • Van Maanen stjarnan er sú stjarna í Fiskunum sem er næst sólkerfinu í um 14 ljósára fjarlægð. Hún er hvítur dvergur (kjarni útbrunninnar sólstjörnu) og er því ofurþétt; á stærð við jörðina en með massa á við sólina. Van Maanen stjarnan er þriðji nálægasti hvíti dvergurinn við sólina okkar (á eftir Síríus B og Prókýon B). Stjarnan sker sig samt úr í þessum hópi því hún er ekki hluti af tvístirni. Hún er með birtustigið +12,4 og sést því í sæmilega stórum áhugamannasjónaukaum.

Djúpfyrirbæri í Fiskunum

Einungis eitt fyrirbæri úr Messier-skránni er að finna í Fiskunum, þyrilvetrarbrautin M74.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Fiskarnir (einfalt kort)
Fiskarnir

Fiskarnir og stjörnumerkin umhverfis Fiskamerkið.

Staða Júpíters að hausti 2010 og 2011.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Fiskanna til stjörnumerkja í nágrenninu.


Úranus í Vatnsbera og Fiskunum 2008-2012


 

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíða á Wikipediu um Fiskana (skoðuð 22. júlí 2008).
  3. Vefsíða á Wikipediu um Van Maanen stjörnuna (skoðuð 22. júlí 2008).
  4. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
  5. Vefsíðan Digital Images of the Sky (skoðuð 22. júlí 2008).
  6. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
  7. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Facebook