Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M2 - Kúluþyrping í VatnsberanumKort af Vatnsberanum. Smellið á myndina til þess að fá upp stærra kort.

M2 (NGC 7089) er kúluþyrping í Vatnsberanum. Jean-Dominique Maraldi uppgötvaði þyrpinguna þann 11. september 1746. Messier vissi ekki af uppgötvun Mariald og fann þyrpinguna upp á eigin spýtur nákvæmlega 14 árum síðar (11. september 1760). Hann lýsti þyrpingunni í skrá sinni sem „þoku án stjarna“ en það var stjörnufræðingurinn William Herschel sem fyrstur greindi í sundur stjörnur í þyrpingunni.

Kúluþyrpingin M2 er í um 37.500 ljósára fjarlægð frá sólu sem er hér um 50% lengri vegalengd en að miðju Vetrarbrautarinnar. Í þyrpingunni eru um 150 þúsund stjörnur. M2 er um 175 ljósár í þvermál með sýndarbirtustig +6,5 (á mörkum þess að sjást með berum augum við mjög góðar aðstæður). Björtustu rauðu risarnir í kúluþyrpingunni eru með birtustig í kringum +13.

Kúluþyrpingin M2 á stjörnuhimninum

M2 sést sem daufur þokublettur um 5° norðan við stjörnuna Sadalsund (β - beta) í Vatnsberanum. Hún er það björt að hún sést auðveldlega bæði í handkíki og stjörnusjónauka. Hægt er að sjá einstakar stjörnur í meðalstórum sjónauka en fjarlægð hennar gerir það að verkun að það þarf stóran sjónauka til þess að ná að greina stjörnurnar vel í sundur.

 

Staðsetning kúluþyrpingarinnar M2 í Vatnsberanum.

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook