Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M74 - Þyrilvetrarbraut í Fiskunum

 

Kort af Fiskunum. Smellið á myndina til þess að fá upp stærra kort.

M74 (NGC 628) er þyrilvetrarbraut í Fiskunum. Pierre Méchain uppgötvaði vetrarbrautina undir lok septembermánaðar árið 1780. Hann sagði Charles Messier frá henni sem bætti henni við skrá sína 18. október sama ár. M74 er meðal fyrstu vetrarbrautanna þar sem mönnum tókst að greina þyrilarma. Rosse lávarður flokkaði hana með 13 öðrum vetrarbrautum um miðja 19. öld þar sem hægt var að greina þyrillögun eða bogadregna arma.

Þyrilvetrarbrautin M74 er trúlega í um 30 til 40 milljón ljósára fjarlægð frá sólu og er svipuð að stærð og Vetrarbrautin okkar. Hún er sérlega gott dæmi um þyrilvetrarbraut sem við sjáum ofan á. Af þessu leiðir að hún þekur stærra svæði á himninum heldur en margar aðrar vetrarbrautir og er í hópi þeirra Messier-fyrirbæra sem erfiðast er að greina á himninum.

Vetrarbrautin M74 á stjörnuhimninum

Tvær þægilega leiðir eru til þess að finna M74. Annars vegar er hægt að rekja sig upp frá björtustu stjörnunni í Fiskunum, α (alfa), upp að η (eta) eða fara eftir beinni línu frá tveimur af björtustu stjörnum Hrútsins niður að η (eta) (hér er kort sem sýnir afstöðu Fiskanna og Hrútsins). M74 er með sýndarbirtustigið +9,2 en hún er dauf því ljósið frá henni berst frá stóru svæði. Kjarninn sést í litlum stjörnusjónaukum en aðstæður þurfa að vera mjög góðar til þess að armarnir sjáist í meðalstórum sjónauka.

 

 

Staðsetning þyrilvetrarbrautarinnar M74 í Fiskunum.

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook