Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Stjörnumerkið Nautið

Efnisyfirlit

Nautið er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Nautsmerkið er stórt og áberandi á himninum. Það ratar í 17. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð.

Nautið er norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Tvíburunum í austri, Óríon í suðaustri, Fljótinu í suðri, Hvalnum og Hrútnum í vestri og Perseifi og Ökumanninum í norðri. Nautið er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Nautið og telst það því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Nautsmerkisins frá 13. maí til 21. júní (en ekki frá 21. apríl til 21. maí eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Nautinu. Júpíter kemur til með að sjást í Nautsmerkinu veturinn 2012 til 2013.

Nautið er um margt merkilegt stjörnumerki. Fyrir tæpum þúsund árum síðan eða árið 1054 e.Kr. sást þar sprengistjarna sem síðar myndaði Krabbaþokuna (M1). Þar er einnig að finna hinar stórglæsilegu lausþyrpingar, Sjöstirnið (M45) og Regnstirnið.

Loftsteinadrífan tárítar virðist koma frá Nautsmerkinu (lat. Taurus). Hún á rætur sínar að rekja til halastjörnunnar Encke en talið er að hún sé brot úr stórri halastjörnu sem kvarnast hefur úr á undanförnum 30 þúsund árum. Hún hefur skilið eftir sig efnismesta loftsteinaslóða í sólkerfinu og er jörðin nokkrar vikur að ferðast þvert í gegnum hann. Agnirnar í tárítunum eru stærri og þyngri en í öðrum loftsteinadrífum og stundum falla steinar inn í lofthjúpinn sem skilja eftir sig langa slóð og kallast vígahnettir. Tárítarnir ná hámarki í byrjun nóvember.

Nautið á himninum yfir Íslandi

Nautið er ofan við miðbaug himins og er hægt að sjá það að kvöldlagi mestallan veturinn (frá október fram í mars). Það er í suðri klukkan níu að kvöldi í febrúar.

Stjörnumerkið Nautið á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (1. febrúar) klukkan 21:00. Horft er í suðurátt. Tvíburarnir og Óríon í austri, Ökumaðurinn og Perseifur í norðri, Hrúturinn og Hvalurinn í vestri og Fljótið í suðri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Nautið er áberandi á himninum og þekkist best á Sjöstirninu, Aldebaran og Regnstirninu. Þegar líður fram á vetur og Óríon rís upp á kvöldhimininn er hægðarleikur að finna Nautið ofan hans. Bjartasta stjarna í nautinu, Aldebaran, þekkist á rauðgula litnum en hún og Betelgás í Óríon eru meðal þeirra örfáu stjarna sem eru nægilega bjartar til þess að sýna litbrigði án stækkunar með sjónauka.

Uppruni stjörnumerkisins

Nautsmerkið er eitt elsta stjörnumerki næturhiminsins. Í grískum goðsögum brá Seifur sér í nautslíki og rændi prinsessu frá Fönikíu, Evrópu að nafni. Saman áttu þau soninn Mínos sem er sagður hafa verið konungur á eynni Krít. Varðveist hafa hellamálverk frá Krít sem sýna naut og það var einnig dýrkað sem tákn frjósemi og vorsins í Mið-Austurlöndum.

Stjörnur í Nautinu

Nautið er mjög áberandi á himninum. Um 98 stjörnur í merkinu sjást með berum augum. Alls eru 19 stjörnur yfir 4. birtustigi.

 • Aldebaran (α (alfa) tauri) er bjartasta stjarna Nautsmerkisins og 13. bjartasta stjarna himins. Á stjörnumerkjateikningum er auga nautsins staðsett í Aldebaran en nafnið er úr arabísku og merkir „sporgöngumaðurinn“ (vísar líklega til þess að hún fylgir Sjöstirninu eftir á næturhimninum). Hún er appelsínugul risastjarna um 40 sinnum breiðari en sólin og í 65 ljósára fjarlægð frá okkur. Birtustig hennar er +0,85 og er hún nógu björt til þess að bera appelsínugulan blæ (einungis björtustu rauðleitu stjörnurnar á himninum ná að virkja litfrumur augans svo það sjái appelsínugulan/rauðan lit í náttmyrkrinu). Aldebaran virðist vera ein af stjörnum Regnstirnisins frá okkur séð en með fjarlægðarmælingum kemur í ljós að hún er miklu nær okkur en Regnstirnið. Könnunarfarið Pioneer 10, sem sent var á loft árið 1972 áleiðis til Júpíters, mun fljúga framhjá Aldebaran eftir um tvær milljónir ára.
 • El nath (β (beta) tauri) er á mörkum Nauts og Ökumanns og tilheyrir iðulega báðum stjörnumerkjunum á stjörnukortum þótt hún sé strangt til tekið hluti af Nautinu. Nafnið vísar til staðsetningarinnar í horni Nautsins sem býst til þess að stanga veiðimanninn Óríon. Þegar stjörnufræðingurinn Johann Bayer fór að nota gríska bókstafi sem tákn fyrir stjörnur fékk El nath einnig táknið γ (gamma) Aurigae en það heiti er ekki lengur notað. Staðsetning El nath á himninum er einnig sérstök að því leyti að hún er innan við þrjár gráður frá þeim stað á himnihvelfingunni sem er lengst frá miðju Vetrarbrautarinnar í stjörnumerkinu Bogmanninum en í þessa stefnu er að finna mikil gasský þar sem sólstjörnur eru að myndast (til að mynda í Sverðþokunni í Óríoni). El nath er af birtustiginu +1,65 og er því 25. bjartasta stjarna næturhiminsins, rétt fyrir neðan Kastor og Pollux í Tvíburunum og Bellatrix í Óríoni.
 • Ain (ε (epsilon) tauri) í Regnstirninu er sólstjarna í fjarlægu sólkerfi þar sem reikistjarna með meira en sjöfaldan massa Júpíters sveimar umhverfis stjörnuna. Þetta var fyrsta sólkerfið sem fannst í lausþyrpingu og hefur einnig þá sérstöðu að sólstjarnan er sú massamesta sem vitað er um í fjarlægum sólkerfum. Ain er önnur af tveimur risastjörnum sem hafa reikistjörnur (hin er Pollux í Tvíburunum). Ef við værum stödd í ystu lögum reikistjörnunnar (sem er gasrisi að öllum líkindum) þá sæum við hinar stjörnurnar í Regnstirninu skína skært en sólstjarnan væri meira en sjö sinnum breiðari en sólin okkar á himninum!

Djúpfyrirbæri í Nautinu

Nautið er sannkallað gósenland stjörnuskoðara. Þar er að finna lausþyrpinguna Regnstirnið ásamt tveimur af þekktustu fyrirbærunum úr Messier-skránni, Krabbaþokuna (M1) og Sjöstirnið (M45). Einnig er rétt að benda á stjörnuþyrpingarnar NGC 1647 og NGC 1807/1817.

Regnstirnið í Nautinu (einnig nefnt Melotte 25) er í 150 ljósára fjarlægð. Þyrpingin er meðal nálægustu stjörnuþyrpinga við sólkerfið okkar. Hún er það víð á himninum að best er að skoða hana með berum augum eða í handsjónauka. Þótt stjarnan Aldebaran sé í sömu sjónlínu og Regnstirnið er hún ekki hluti af þyrpingunni heldur miklu nær okkur í um 65 ljósára fjarlægð. Regnstirnið er um 75 ljósár á breidd en kjarni þyrpingarinnar er um 10 ljósár í þvermál. Talið er að stjörnur Regnstirnisins séu um 600 milljón ára gamlar og hafa stjörnufræðingar leitt líkum að því að þyrpingin hafi myndast úr sama skýi og M44 (Býflugnabúið) í Krabbanum.

Þyrpingin hefur þekkst frá aldaöðli og minnist gríska skáldið Hómer á Regnstirnið í kvæði um 750 f.Kr. Líklega var Giovanni Batista Hodierna fyrstur til þess að skrá niður stjörnur Regnstirnisins árið 1654 og árið 1908 sýndi Lewis Boss fram á að stjörnurnar ferðuðust saman í þyrpingu umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar. Regnstirnið var merkt inn á stjörnukort sem Charles Messier studdist við en þyrpingin rataði ekki í skrá hans.

Regnstirnið (lat. Hyades) táknaði fimm dætur Atlasar í grískri goðafræði. Eftir að Hyas bróðir þeirra lést voru systur hans settar upp á himinfestinguna. Nafngiftin Regnstirnið er þannig tengd táraflóði systranna fimm.

Lausþyrpingin Regnstirnið í Nautinu. Athugið að bjartasta stjarnan á myndinni (Aldebaran) er ekki hluti af Regnstirninu heldur miklu nær okkur.

Meðal annarra djúpfyrirbæra í Nautinu eru:

 • M1 (NGC 1952) er gasþoka sem gengur undir nafninu Krabbaþokan. Hún er leifar sprengistjörnu sem sást springa árið 1054 e.Kr. Þokan er dauf (birtustig +8,4) en með þolinmæði er hægt að sjá hana í meðalstórum sjónauka við góð skilyrði.
 • M45 (NGC 1432/1435) er lausþyrping sem gengur undir nafninu Sjöstirnið. Auðþekkt á himninum og stórglæsileg í handsjónauka og stjörnusjónauka við litla stækkun.
 • NGC 1647 er lausþyrping 200 stjarna og sjást um 40 þeirra í sjónauka.
 • NGC 1807/1817 er tvíþyrping (tvöföld lausþyrping). Þótt stjörnurnar séu frekar dreifðar er hún áhugaverð í handsjónauka.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Nautið (einfalt kort)

Nautið

Tvær daufar stjörnur eru merktar inn á kortið til þess að auðvelda leit að lambda og NGC 772.


Nautið og stjörnumerki umhverfis nautið.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Nautsins til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíða um Nautið á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
 3. Vefsíða um Regnstirnið á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
 4. Vefsíða um Aldebaran á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
 5. Vefsíða um loftsteinadrífur á Wikipedia (skoðuð 22. júlí 2008).
 6. Vefsíða um táríta á Wikipedia (skoðuð 22. júlí 2008).
 7. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
 8. Vefsíðan Digital Images of the Sky (skoðuð 22. júlí 2008).
 9. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
 10. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook