Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Facebook

Tvíburarnir

 

Efnisyfirlit

Tvíburarnir eru eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Merkið er áberandi því björtustu stjörnurnar, Kastor og Pollux, eru í hópi 50 skærustu stjarna á næturhimninum. Tvíburamerkið er nokkuð stórt um sig þótt stutt sé á milli tveggja björtustu stjarnanna og lenda þeir í 17. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð.

Tvíburarnir er norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Krabbanum í austri, Litlahundi í suðaustri og Einhyrningnum í suðri. Óríon og Nautið eru vestan við Tvíburana en norðan við þá eru Ökumaðurinn og Gaupan. Tvíburarnir eru eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Tvíburana og eru þeir nyrsta stjörnumerkið í dýrahringnum og sjást vel frá Íslandi. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Tvíburamerkisins frá 21. júní til 20. júlí (en ekki frá 22. maí til 23. júní eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Tvíburunum.

Loftsteinadrífan geminítar er kennd við Tvíburana sem nefnast Gemini á latínu. Geminítar eiga rætur að rekja til hnattarins 3200 Phaethon sem er talinn vera  gömul og óvirk halastjarna. Drífan nær hámarki 13.-14. desember og virðist geislapunktur stjörnuhrapanna vera í Tvíburamerkinu en ljósrákirnar geta birst víða á himninum.

Tvíburarnir á himninum yfir Íslandi

Tvíburarnir fara að sjást að kvöldlagi rétt fyrir áramót og sjást fram í apríl. Þeir eru í suðri klukkan tíu að kvöldi í mars.

Stjörnumerkið Tvíburarnir á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (1. mars) klukkan 21:00. Horft er í suður. Í austri er Krabbinn, Ökumaðurinn í norðvestri, Óríon í suðvestri og Litlihundur í suðri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Sem fyrr segir mynda björtustu stjörnurnar í Tvíburunum áberandi tvíeyki á himninum. Það er þó auðvelt að rugla þeim saman við stjörnur Litlahunds sem er sunnan við Tvíburana um miðbik vetrar. Þægilegt er að láta stjörnumerkið Óríon vísa sér veginn til Tvíburanna en þeir eru nokkru ofar á himninum í norðausturátt frá Óríon. Einnig er hægt að finna Tvíburana út frá Stjöstirninu í Nautsmerkinu sem er talsvert vestar á himninum

Uppruni stjörnumerkisins

Goðsagan hermir að Kastor og Pollux hafi verið tvíburasynir en átt hvor sinn föðurinn. Pollux var að guðlegum uppruna og ódauðlegur en Kastor ekki. Þegar Kastor var drepinn setti guðinn Seifur þá upp á stjörnuhimininn.

Stjörnumerkið Tvíburarnir kemur einnig fyrir í Snorra-Eddu undir nafninu „Augu Þjassa“. Sagan hermir að jötuninn Þjassi rænir Loka sem lofar honum Iðunni og æskueplum hennar. Loka er gert að endurheimta Iðunni og eplin en síðan upphefst mikill eltingarleikur í Ásgarð sem endar með því að æsir drepa Þjassa. Dóttir hans, Skaði, kemur í Ásgarð og vill hefna föður síns. Æsir bjóða henni föðurbætur en hluti þeirra fólst í því að Óðinn setti augu föður hennar upp á himininn sem stjörnurnar í Tvíburamerkinu (Kastor og Pollux).

Stjörnur í Tvíburunum

Um 47 stjörnur í Tvíburamerkinu sjást með berum augum. Kastor og Pollux eru áberandi á himninum en auk þeirra er stjarnan Alhena bjartari en +2 birtustig. Alls eru 13 stjörnur bjartari en 4. birtustig.

 • Kastor (α (alfa) geminorum) er fremstur í gríska stafrófinu samkvæmt nafnakerfi Bayers þótt Pollux sé bjartari. Stjörnurnar tvær eru nokkurn veginn í sömu sjónlínu frá okkur en tengjast ekki innbyrðis. Kastor er um 50 ljósár frá jörðu en Pollux í um 33 ljósára fjarlægð. Kastor er með sýndarbirtustigið +1,6 en í stjörnusjónauka sjást þrjár stjörnur, tvær bjartar með sýndarbirtustigið +1,9 (Kastor A) og +2,9 (Kastor B) og ein til viðbótar miklu daufari af 9. birtustigi (Kastor C). Björtu stjörnurnar mynda fallegt tvístirni með hornbilið 4’’. Þær snúast um hvor aðra á 400 árum og eru nú eins nálægt hvor annarri á himninum og þær komast.

  Þegar ljósinu frá stjörnunum þremur er beint í gegnum litrófssjá sést að Kastor er sexstirni, samsett úr þremur tvístirnum. Í tvístirninu Kastor A eru tvær stjörnur sem eru báðar um tvöfalt massameiri en sólin. Þær snúast um sameiginlega þyngdarmiðju á rúmlega 9 dögum og fjarlægðin á milli þeirra er einn tíundi af fjarlægðinni frá Merkúríusi til sólarinnar. Í tvístirninu Kastor B eru stjörnurnar enn nær hvor annarri og snúast um sameiginlega þyngdarmiðju á 3 dögum! Tvístirnið Kastor C er samsett úr tveimur rauðum dvergstjörnum og miklu daufari en tvístirnin Kastor A og Kastor B. Þótt tvöföld tvístirni (fjórstirni) séu ekki svo óalgeng er sjaldgæfara að rekast á sexstirni. Talið er að Kastor hafi myndast þegar efnisský í gasþoku klofnaði í þrjá hluta vegna mikils snúnings. Hver hluti um sig hafi síðan klofnað í tvennt svo úr varð sexstirni.
 • Pollux (β (beta) geminorum) er bjartasta stjarna Tvíburamerkisins með sýndabirtustigið +1,15 og 17. bjartasta stjarnan á himinhvelfingunni. Árið 2006 fannst reikistjarna á braut um Pollux sem er a.m.k. þrisvar sinnum stærri en Júpíter. Hún er í svipaðri fjarlægð og Mars frá sólinni og er reikistjarnan 590 daga að ferðast umhverfis Pollux. Pollux er skærasta sólstjarna næturhiminsins sem vitað er til þess að hafi reikistjörnu á sveimi umhverfis sig og ein af fáum risastjörnum með eigið sólkerfi. Pollux er um 9 sinnum breiðari en sólin og með tvöfalt meiri massa.
 • Aleha (γ (gamma) geminorum) er þriðja bjartasta stjarnan í Tvíburamerkinu. Nafn hennar er komið úr arabísku og merkir „táknið á hálsi úlfaldans“. Hún er í 105 ljósára fjarlægð með sýndarbirtustigið +1,9. Frægð Aleha reis hæst þegar smástirnið 381 Myrrha fór fyrir stjörnuna árið 1991. Þvergangan myrkvaði stjörnuna og gátu stjörnufræðingar mælt þvermál smástirnisisn sem reyndist vera 140 km.

Djúpfyrirbæri í Tvíburunum

Vetrarbrautarslæðan liggur í gegnum hluta Tvíburamerkisins. Þrátt fyrir að djúpfyrirbæri raðist oft umhverfis vetrarbrautarslæðuna er einungis eitt fyrirbæri úr Messier-skránni (M35) að finna í Tvíburunum.

 • M35 er lausþyrping í Tvíburunum. Hún er með birtustigið +5,3 og sést því sem daufur þokublettur á himninum við þokkalegar aðstæður. Hún er falleg við litla stækkun í handkíki eða stjörnusjónauka. Tvær aðrar þyrpingar er að finna í grennd við M35.
 • NGC 2158 er lítil og þétt lausþyrping með birtustigið +8,6 rétt hjá M35.
 • NGC 2392 er hringþoka með birtustigið +10,0 sem gengur einnig undir nafninu Eskimóaþokan. Sést í litlum stjörnusjónaukum en stærri sjónauka þarf til þess að greina einhver smáatriði.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Tvíburarnir (einfalt kort)

Tvíburarnir. Nokkuð dauf stjarna er merkt inn á kortið til þess að auðvelda leit að Eskimóaþokunni.


Tvíburarnir og stjörnumerki umhverfis þá.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Tvíburanna til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíða um Tvíburana á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
 3. Vefsíða um geminíta á Wikipedíu (skoðuð 22. júlí 2008).
 4. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
 5. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
 6. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Facebook