Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Facebook

Krabbinn

 

Efnisyfirlit
Krabbinn er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Enga bjarta stjörnu er að finna í Krabbamerkinu og er hann daufasta merki dýrahringsins. Það lendir þó í 17. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð.

Krabbinn er norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Tvíburunum í vestri, Litlahundi í suðvestri, Vatnaskrímslinu í suðri, Ljóninu í austri og Gaupunni í norðri. Krabbinn er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Krabbann og telst það því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Krabbamerkisins frá 20. júlí til 10. ágúst (en ekki frá 23. júní til 22. júlí eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Krabbanum.

Þótt Krabbinn láti ekki mikið yfir sér hefur hann þó að geyma glæsilega lausþyrpingu er nefnist Býflugnabúið eða Jatan (M44). Einnig er þar að finna sólstjörnuna 55 Cancri sem hefur um sig a.m.k. fimm reikistjörnur (sem er núverandi met í fjölda „fjarreikistjarna“ utan sólkerfisins okkar).

Krabbinn á himninum yfir Íslandi

Krabbinn sést að kvöldlagi síðari hluta vetrar (frá janúar fram í apríl). Hann er í suðaustri klukkan níu að kvöldi í febrúar.

Stjörnumerkið Krabbinn á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (15. febrúar) klukkan 22:00. Horft er í suðaustur. Í austri er Ljónsmerkið, Gaupan í norðri, Tvíburarnir í vestri, Litlihundur í suðvestri og Vatnaskrímslið í suðri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Þótt Krabbinn sé tiltölulega dauft stjörnumerki eru björt stjörnumerki honum á hægri og vinstri hönd. Tvíburarnir og Litlihundur eru Krabbanum á hægri hönd og eiga það sameiginlegt að tvær bjartar stjörnur eru áberandi í báðum merkjunum (Kastor og Pollux í Tvíburunum og Prókýon og Gómeisa í Litlahundi). Ljónið er vinstra megin Krabbans og myndar „speglað spurningamerki“ eða sigð og er stjarnan Regúlus neðst. Ef skyggni er gott er auðvelt að finna Ljónið á vorin, beint fyrir neðan Karlsvagninn í Stórabirni.

Uppruni stjörnumerkisins

Í grískum goðsögum sendi Hera Krabbann til þess klekkja á hetjunni Herkúlesi þegar hann barðist við Vatnaskrímslið. Krabbinn beit hann í tána en lét svo líf sitt þegar Herkúles steig á hann. Að launum fékk Krabbinn stað á himninum þar sem hann er enn þann dag í dag.

Stjörnur í Krabbanum

Sem fyrr segir er Krabbinn fremur dauf stjörnumerki. Um 23 stjörnur sjást með berum augum en einungis tvær þeirra eru bjartari en +4,0 birtustig.

 • λ (jóta) cancri er tvístirni í Krabbanum. Stjörnurnar eru með birtustigið +4,2 og +6,6 og er önnur stjarnan gul en hin blá. Hornbilið á milli þeirra er 30'' og því auðvelt að aðgreina þær bæði í hand- og stjörnusjónauka. Jóta er í um 10 gráðu fjarlægð beint fyrir ofan stjörnuþyrpinguna Býflugnabúið og er efsta stjarnan á teikningum af Krabbanum (sjá kort neðar á síðunni)!
 • κ (kappa) cancri er dauf stjarna í Krabbanum með birtustigið +5,3 og sést því einungis með berum augum við góð skilyrði. Hún telst hins vegar til svonefndra „kvikasilfurs-mangan stjarna“. Greining litrófs ljóssins frá stjörnunni hefur leitt í ljós að hlutfall mangans í henni er 170 sinnum meira en í sólinni okkar og hlutfall kvikasilfurs 43.000 sinnum hærra! Rúsínan í pylsuendanum er hlutfall gulls sem er 15.000 sinnum hærra en í sólinni. Hér má hafa í huga að sólkerfið okkar myndaðist allt á sama tíma og því eru öll náttúruleg frumefni á jörðinni einnig til staðar í sólinni þótt efnasamsetningin sé gerólík. Hér á jörðinni er hlutfall gulls í gullnámum yfirleitt á bilinu 0,5-5 grömm í hverju tonni af bergi (það er ósýnilegt því hlutfallið þarf að vera 30 g/tonn til þess að hægt sé að koma auga á gullið!).
 • 55 cancri er sólkerfi með a.m.k. fimm reikistjörnum sem sveima umhverfis gula stjörnu sem er ívið minni en sólin okkar. Birtustig kerfisins er +6,0 og það er því á mörkum þess að sjást með berum augum. Það sést hins vegar auðveldlega í hand- og stjörnusjónauka og liggur kerfið 55 cancri rétt fyrir ofan stjörnuna 53 cancri á kortinu hér að neðan. Auk reikistjarnanna fimm er rauður dvergur (lítil sólstjarna) í slagtogi með gulu sólinni og telst 55 cancri því vera tvístirni. Reikistjörnurnar umhverfis gulu sólina bera bókstafina b til f út frá því í hvaða röð þær voru uppgötvaðar (engin a stjarna!). Stærsta reikistjarnan er í svipaðri fjarlægð frá sólstjörnunni og Júpíter út frá sólinni okkar. Hún er hins vegar a.m.k. þrisvar sinnum massameiri en Júpíter. Minnsta reikistjarnan er einungis ellefu sinnum massameiri en jörðin. Fjarlægð hennar frá sólstjörnunni er um 10% af fjarlægð Merkúríusar frá sólinni okkar og umferðartíminn er innan við þrír dagar!

Djúpfyrirbæri í Krabbanum

Í Krabbanum eru tvö fyrirbæri úr Messier-skránni, lausþyrpingarnar M44 og M67.

 • M44 (einnig nefnd Býflugnabúið eða Jatan) er falleg lausþyrping sem sést auðveldlega með berum augum við þokkaleg stjörnuskoðunarskilyrði. Það er því upplagt fyrir byrjendur í stjörnuskoðun (sem og þá sem eru lengra komnir) að spreyta sig á henni. Þyrpinguna er gaman að skoða bæði í hand- og stjörnusjónauka. Best er að nota litla stækkun (langt augngler) til þess að sjá sem stærstan hluta þyrpingarinnar sem spannar nærri því eina gráðu á himninum (tvöfalt breiðari en tunglið!).
 • M67 er önnur lausþyrping í Krabbanum sem er mun þéttari en M44. Hún er með birtustigið +6,9 og sést því ekki með berum augum en er glæsileg í meðalstórum sjónaukum (6''-12'').

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Krabbinn (einfalt kort)

Krabbinn


Krabbinn og stjörnumerki umhverfis hann.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Krabbans til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíða á Wikipediu um Krabbann (skoðuð 22. júlí 2008).
 3. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
 4. Vefsíðan Digital Images of the Sky (skoðuð 22. júlí 2008).
 5. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
 6. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 22. júlí 2008).
Facebook