Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M44 - Lausþyrping í Krabbanum

Falleg stjörnuþyrping,
jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna


Kort af Krabbanum. Smellið á myndina til þess að fá upp stærra kort.

M44 (NGC 2632) er lausþyrping í Krabbanum. sem gengur einnig undir nöfnunum Býflugnabúið eða Jatan. M44 er meðal þeirra stjörnuþyrpinga sem eru næstar okkur í Vetrarbrautarinni og sést greinilega með berum augum. Þyrpingin gengur ýmist undir nafninu Jatan eða Býflugnabúið. Forn-Grikkir og Rómverjar sáu fyrir sér tvo asna sem átu úr jötu. M44 er ein af sjö þokum sem Ptólmæos minnist á í riti sínu Almagest. Galíleó Galilei var fyrstur til þess að greina á milli stjarnanna í þyrpingunni. Charles Messier bætti henni við skrá sína 4. mars 1769.

Athuganir með stórum stjörnusjónaukum gefa til kynna að um 200 af 350 stjörnum á svæðinu ferðist saman í þyrpingu umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar. Mælingar Hipparkosar-gervitunglsins benda til þess að M44 sé í um 580 ljósára fjarlægð frá sólu. Talið er að þyrpingin sé um 730 milljón ára gömul og því álíka gömul og Regnstirnið í Nautinu. Þótt nú beri talsvert á milli þeirra á himinhvelfingunni stefna þær í sömu átt á ferðalagi sínu umhverfis Vetrarbrautina. Því hafa stjörnufræðingar leitt getum að því að þær eigi uppruna sinn í sama gasskýinu en erfitt gæti reynst að staðfesta þá tilgátu.

Lausþyrpingin M44 á stjörnuhimninum

M44 er með sýndarbirtustigið +3,7 og því er auðvelt að koma auga á þyrpinguna í miðju Krabbamerkinu við þokkaleg stjörnuskoðunarskilyrði. Hægt er að finna Krabbann út frá Tvíburunum og Litlahundi sem eru honum á hægri hönd. Ljónið er vinstra megin Krabbans og myndar „speglað spurningamerki“ eða sigð og er stjarnan Regúlus neðst.

M44 er tilvalið jafnt fyrir byrjendur í stjörnuskoðun og þá sem eru lengra komnir. Þyrpinguna er gaman að skoða bæði í handkíki og stjörnusjónauka. Þyrpingin spannar nærri því eina og hálfa gráðu á himninum (þrisvar sinnum breiðari en tunglið!) og því er best að nota sem minnsta stækkun (langt augngler). Hún nýtur sín vel í litlum stjörnu- og handsjónaukum.

 

 

 

Staðsetning lausþyrpinganna M44 og M67 í Krabbanum.

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíðan seds.org (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook