Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Meyjan

 

Efnisyfirlit

Meyjan er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Hún er næststærsta stjörnumerkið á eftir Vatnaskrímslinu. Meyjan sést lágt á lofti á vorhimninum.

Meyjan liggur umhverfs miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Ljóninu og Bikarnum í vestri, Bereníkuhaddi og Hjarðmanninum í norðri, Höggormshöfðinu og Voginni í austri og Vatnaskrímslinu og Hrafninum í suðri. Meyjan er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Meyjunni á haustin. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Meyjunnar frá 16. september til 30. október (en ekki frá 23. ágúst til 23. september eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Meyjunni.

Meyjan á himninum yfir Íslandi

Meyjan tekur að gægjast upp á himininn í febrúar og sést best um og upp úr miðnætti í febrúar, mars og apríl. Þeir sem vilja sjá sem flestar vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni ættu að vaka fram til klukkan þrjú í mars en þá er Meyjan hæst á lofti í suðri.

Stjörnumerkið Meyjan á íslenska næturhimninum síðari hluta vetur (15. mars) klukkan 1:00. Horft er í suðaustur. Í austri eru Jarðmaðurinn og Höggormshöfuðið, í norðri Bereníkuhaddur og Ljónið og Hrafninn og Bikarinn í suðvestri. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Auðveldast er að finna Meyjuna með því að draga bogalínu í framhaldi af handfangi Karlsvagnsins. Hún lendir á Arktúrusi í Hjarðmanninum og liggur síðan niður að Spíku í Meyjunni.

Uppruni stjörnumerkisins

Á myndum sést Meyjan oft halda á körfu af grjónum og er stjarnan Spíka (Axið) í körfunni. Uppruni stjörnumerkisins er óþekktur en gæti tengst frjósemi. Meyjan hefur í aldanna rás táknað margar kvengyðjur og goðmögn, s.s. Ísisi, Ístar, Aþenu, Heru, Persefónu og jafnvel Maríu mey.

Stjörnur í Meyjunni

Um 58 stjörnur í Meyjarmerkinu sjást með berum augum.

 • Spíka eða Axið (α (alfa) Virginis) er bjartasta stjarnan í Meyjunni og 15. bjartasta stjarnan á næturhimninum. Hún er með sýndarbirtustigið +1,0 í um 260 ljósára fjarlægð frá jörðu. Svo virðist sem Spíka sé fimmstirni en tvær stjarnanna eru langbjartastar. Önnur er um 8 sinnum breiðari og 11 sinnum massameiri en sólin. Hin stjarnan er 4 sinnum breiðari og 7 sinnum massameiri. Talið er að Spíka hafi hjálpað stjörnufræðingnum Hipparkosi að uppgötva framsókn vorpunktsins (sem færist smám saman á himninum frá einu stjörnumerki til annars). Meira en þúsund árum síðar notaði Nikulás Kóperníkus Spíku við rannsóknir á sama fyrirbæri.
 • Porrima (γ (gamma) Virginis) er auðvelt að fyrir ofan Spíku (hægra megin). Nafn hennar er dregið af rómverskri spágyðju, ólíkt flestum stjörnuheitum sem komin eru úr arabísku. Porrima er eitt fegursta tvístirni næturhiminsins í 38 ljósara fjarlægð frá sólu. Stjörnurnar tvær eru mjög áþekkar með birtustig +3,5 (samanlagt birtustig þeirra á næturhimninum er +2,75). Þær eru báðar gular og um 50% massameiri en sólin. Brautir stjarnanna um sameiginlega þyngdarmiðju eru mjög ílangar og er umferðartíminn 171 ár. Þar sem þær eru tiltölulega nálægt sólinni og brautirnar með mikla sporöskjulögun er unnt að greina breytingu á hornbilinu á milli þeirra á minna en einni mannsævi. Árið 2007 voru þær eins nálægt hvor annarri og mögulegt er á himninum og skildu einungis 3 bogasekúndur á milli þeirra.
 • Vindemiatrix (ε (epsilon) Virginis) er þriðja bjartasta stjarnan í Meyjunni með birtustigið +2,8. Nafn hennar tengist landbúnaði en þegar hún sást á himninum var kominn tími til þess að safna saman uppskerunni. Stjarnan er um 12 sinnum breiðari en sólin. Hún er óvanalega björt uppspretta röntgengeisla sem bendir til mikillar segulvirkni á yfirborðinu.

Djúpfyrirbæri í Meyjunni

Miðja nálægustu vetrarbrautaþyrpingarinnar er í stjörnumerkinu í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Þyrpingin sjálf er hins vegar það stór um sig á himninum að hún nær inn í nálæg stjörnumerki. Dregur þyrpingin nafn sitt af stjörnumerkinu og nefnist Meyjarþyrpingin. Í henni eru á bilinu 1300 til 2000 vetrarbrautir í kúlulaga sveimi sem er 10-15 milljón ljósár í þvermál. Það kemur því ekki á óvart að ellefu vetrarbrautir úr Messier-skránni er að finna í Meyjunni: M49, M58, M59, M60, M61, M84, M86, M87, M89, M90 og M104.

 • M49 er stór sporvöluvetrarbraut og meðal björtustu vetrarbrautanna sem tilheyra Meyjarþyrpingunni. Hún er með birtustigið +8,4 í um 60 milljón ljósára fjarlægð.
 • M58 er ein af fjórum þyrilvetrarbrautum í Messierskránni sem eru með bjálka í miðjunni. Hún er í Meyjarþyrpingunni og svipar til sporvöluvetrarbrautianna í nágrenninu í litlum stjörnusjónaukum. Í stórum sjónaukum er hægt að greina bjálkann sem útskot frá kjarnanum ef stjörnuskoðunarskilyrði eru góð.
 • M59 er í hópi stærri sporvöluvetrarbrauta í Meyjarþyrpingunni. Hún er tiltölulega ílöng að sjá héðan frá jörðu með birtustigið +9,6. Umhverfis hana sveima um 1900 kúluþyrpingar sem er um tíu sinnum fleiri þyrpingar en er að finna í Vetrarbrautinni okkar.
 • M60 er ein af risasporvöluvetrarbrautunum í Meyjarþyrpingunni. Hún er með birtustigið +8,8 sem samsvarar því að hún lýsi á við 60 milljarða stjarna á borð við sólina okkar.
 • M61 er þyrilvetrarbraut í Meyjarþyrpingunni sem gengur undir nafninu Belgingsþyrillinn. Hún er í hópi stóru vetrabrautanna í þyrpingunni með birtustigið +9,7.
 • M84 er risastór sporvöluvetrarbraut nálægt miðju Meyjarþyrpingarinnar. Hún er með birtustigið +9,1. Á myndum af þyrpingunni sést hún yfirleitt í slagtogi við M86.
 • M86 er risastór sporvöluvetrabraut nálægt miðju Meyjarþyrpingarinnar. Hún er með birtustigið +8,9. Á myndum af þyrpingunni sést hún yfirleitt í slagtogi við M84.
 • M87 er risavaxin sporvöluvetrarbraut nærri miðju Meyjarþyrpingarinnar með birtustigið +8,6. Umhverfis hana sveima allt að 12 þúsund kúluþyrpingar en til samanburðar eru um 200 kúluþyrpingar á sveimi í kringum vetrabrautina okkar. Talið er að hún hafi fangað margar af kúluþyrpingunum þegar vetrarbrautir féllu inn í Meyjarþyrpinguna og misstu við það gas, stjörnur og kúluþyrpingar.
 • M89 er sporvöluvetrarbraut í Meyjarþyrpingunni. Hún er nánast hringlaga séð frá jörðu og fellur því í flokk E0 samkvæmt flokkun Edwin Hubbles á vetrarbrautum (Hubblekvíslin). M89 er með birtustigið +9,8.
 • M90 er meðal björtustu þyrilvetrarbrautanna í Meyjarþyrpingunni. Hún er ein af átta vetrarbrautum í þyrpingunni sem Charles Messier sá og skráði hjá sér þann 18. mars 1781. Til viðbótar fann hann kúluþyrpinguna M92 í stjörnumerkinu Herkúlesi. M90 er með birtustigið +9,5.
 • M104 er þyrilvetrabraut sem gengur undir nafinu Sombrerovetrabrautin (Mexíkanahatturinn). Ólíkt hinum vetrarbrautunum sem hér eru taldar upp þá er hún ekki hluti af Meyjarþyrpingunni heldur aðeins nær okku. Birtustigið M104 er +8 og sést því í litlum sjónauka. Hún er stórglæsileg að sjá í stórum sjónauka því dökk rykslæða liggur yfir vetrarbrautina frá okkur séð.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Meyjan (einfalt kort)

Meyjan og stjörnumerki umhverfis hana.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Meyjunnar til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

 1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
 2. Vefsíða um Meyjuna á Wikipediu (skoðuð 10. ágúst 2008).
 3. Vefsíða um Spíku á Wikipediu (skoðuð 10. ágúst 2008).
 4. Vefsíða um Meyjarþyrpinguna á Wikipediu (skoðuð 10. ágúst 2008).
 5. Vefsíða um M87 á Wikipediu (skoðuð 10. ágúst 2008).
 6. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 10. ágúst 2008).
 7. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 10. ágúst 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook