Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Bogmaðurinn

 

Efnisyfirlit

Bogmaðurinn er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Bogmannsmerkið er frekar stórt um sig og lendir í 15. sæti þegar stjörnumerkjunum er raðað eftir stærð. Hann sést ekki nema að örlitlu leyti frá Íslandi. Björtustu stjörnurnar í Bogmanninum raðast upp í mynstur sem minnir á teketil.

Bogmaðurinn liggur fyrir sunnan miðbaug himins og er syðst á sólbaugnum ásamt Sporðdrekanum. Austan megin við Bogmanninn eru Steingeitin og Smásjáin og sunnan hans Sjónaukinn og Suðurkórónan. Naðurvaldi og Sporðdrekann liggja vestan Bogmannsins og norðan við hann eru Höggormshalinn, Skjöldurinn og Örninn. Bogmaðurinn er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um stjörnumerkin í dýrahringnum og er í Bogmanninum um miðbik vetrar á haustin. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Bogmannsins frá 17. desember til 20. janúar (en ekki 23. nóvember til 21. desember). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Bogmanninum.

Bogmaðurinn á himninum

Bogmaðurinn er það sunnarlega á himinhvelfingunni að einungis er hægt að sjá örlítinn hluta merkisins frá Íslandi. Þeir sem eiga leið um Bandaríkin eða Mið- og Suður-Evrópu að sumarlagi ættu að líta til himins og sjá hvort Bogmaðurinn sjáist ekki á himninum í suðurátt. Hann er neðan við Örninn á himninum við vesturhlið Sporðdrekans.

Stjörnumerkið Bogmaðurinn á næturhimninum eins og hann birtist í löndum sunnar á hnettinum. Á myndinni sjást Steingeitin og Smásjáin vestan megin við Bogmanninn, Örninn, Skjöldurinn, Höggormshalinn og Naðurvaldi norðan hans. Austan Bogmannsins sést í hala Sporðdrekans og suðaustans hans sést Suðurkórónan. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Uppruni stjörnumerkisins

Samkvæmt grískum goðsögnum er Bogmaðurinn mannfákur (kentár) og því til helminga hestur og maður. Hann var sonur Satúrnusar og Plýlýru og á að hafa brugðið sér í líki hests til þess að flýja afbrýðisama eiginkonu sína sem nefndist Rea. Babýloníumenn sáu þarna guðinn Pabilsag sem var með vængi og ljónshöfuð.

Þótt mynstur björtustu stjarnanna minni á teketil má þó sjá bogmann með hestbúk beina ör að Sporðdrekanum. Bogmannsmerkið er annað af tveimur merkjum sem tákna mannfáka á himninum. Hinn eiginlegi Mannfákur er nokkru sunnar á himinhvelfingunni. Athugendur staddir nálægt nyrði hvarfbaug (23° N.br) eða sunnar á jörðinni geta séð báða mannfákana en einungis tvö stjörnumerki skilja þá að, Sporðdrekinn og Úlfurinn.

Stjörnur í Bogmanninum

Engin stjarna í Bogmanninum er í hópi björtustu stjarna á himninum en bjartast stjarna merkisins er Kaus Australis (ε (epsilon) Sagittari) með birtustigið +1,79. Sem fyrr segir raðast nokkrar af björtustu stjörnunum upp í mynstur sem minnir á teketil.

Djúpfyrirbæri í Bogmanninum

Miðju Vetrarbrautarinnar er í Bogmannsmerkinu. Við sjáum ekki inn að miðjunni því ryk og gas byrgja okkur sýn en með útvarpssjónaukum má greina sterkt merki frá miðjunni og telja menn að hún geymi risasvarthol sem er með yfir milljón sinnum meiri massa en sólin. Alls eru fimmtán Messierfyrirbæri að finna í Bogmanninum (M8, M17, M18, M20, M21, M22, M23, M24, M25, M28, M54, M55, M69, M70, M75) og því er hryggilegt að mestur hluti merkisins sjáist ekki frá Íslandi.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Bogmaðurinn (einfalt kort)

 

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíða um Bogmanninn á Wikipediu (skoðuð 5. september 2008).
  3. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 5. september 2008).
  4. Vefsíðan seds.org um djúpfyrirbæri (skoðuð 5. september 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook