Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Stjörnuskoðun með handsjónauka

Efnisyfirlit

Fyrir alla sem eru að stíga sín fyrstu skref í stjörnuskoðun eru handsjónaukar miklu betra byrjunartæki en ætla mætti. Handsjónaukar eru mjög einfaldir í notkun og hafa venjulega breitt sjónsvið sem auðveldar það að beina sjónaukanum að tilteknu fyrirbæri á himninum. Engin fyrirhöfn er að setja þá upp - maður fer bara út og beinir sjónaukanum til himins. Þar að auki finnst flestum auðveldast og best að skoða með tvö augu opin heldur en eitt sem krefst meiri æfingar.

Handsjónaukar eru tilvaldir sem fyrsta fjárfesting fyrir áhugamenn enda mun handhægari og ódýrari en stærðarinnar stjörnusjónaukar. Með handsjónauka er gott að verða sér úti um stjörnukort og læra á himininn. Ef þú vilt fá sem mest út úr stjörnuskoðun er mikilvægt að læra á stjörnukort til að rata um himinninn. Þessi kunnátta er nauðsynleg ef festa á kaup á alvöru stjörnusjónauka.

Handsjónauki færir mann hálfa leið að stjörnusjónauka fyrir innan við helminginn af verði stjörnusjónaukans (í mörgum tilvikum). Handsjónaukar eru mjög notadrjúgir en þrátt fyrir það meta margir byrjendur þá ekki að verðleikum, enda einblína flestir á stjörnusjónauka. Það er því vel þess virði að skoða þá hluti sem sjást vel með handsjónaukum, en fyrst skulum við skoða sjónaukana nánar.

Mikilvægt er að hafa nokkur grunnatriði á hreinu svo handsjónaukinn nýtist sem allra best. Í þessum efnum gildir hið fornkveðna að „besti stjörnusjónaukinn er sá sem hentar vel og er mikið notaður“.

Mikilvægasti þáttur handsjónaukans er ljósopið (að minnsta kosti þeirra handsjónauka sem ætlaðir eru til stjörnuskoðunar). Ljósopið er þvermál linsanna framan á sjónaukanum. Það er mælt í millímetrum og er seinni talan af tölunum tveimur sem notaðar eru til að lýsa tilteknum handsjónauka. Þannig er 7x35 handsjónauki með 35mm ljósop á meðan 10x50 hefur 50mm ljósop. Því stærra sem ljósopið er þeim mun bjartari verður myndin í sjónaukanum. Stærra ljósop skilar sér einnig í fleiri smáatriðum og meiri skerpu sem er mjög hentugt þegar horft er á dauf fyrirbæri.

Þegar stærð ljósopsins er tvöfaldað fjórfaldast geta sjónaukans til að safna ljósi. Þannig getur 7x50 handsjónauki safnað næstum tvisvar sinnum meira ljósi en 7x35 handsjónauki og fjórum sinnum meira en 7x25 handsjónauki. Hentug stærð á handsjónauka fyrir stjörnuskoðun er frá 40mm og upp úr. Margir nota hins vegar 35 millímetra sjónauka þar sem þeir hafa víðara sjónsvið. Þótt ljósopið skipti miklu máli þarf einnig að huga að öðrum þáttum, til dæmis stækkun og ljóshálsi sjónaukans. Þegar öllu er á botninn hvolft byggist þetta mest á persónulegu mati.

Fremri talan á handsjónaukum tilgreinir hversu mikið hann stækkar. Fyrir stjörnuskoðun er gott að hafa að minnsta kosti sjöfalda stækkun en mesta stækkun fyrir sjónauka sem haldið er á er um tíföld. Sé stækkunin meiri er sjónaukinn það stór að erfitt er að halda honum stöðugum til að fá skarpa mynd. Þrífótur er nauðsynlegur fyrir stóra handsjónauka sem stækka meira en fimmtánfalt og hafa stærra en 50mm ljósop.

Á móti kemur að stækkunin hefur áhrif á birtu myndarinnar þannig að sjónauki sem stækkar lítið gefur bjartari mynd en sjónauki sem stækkar mikið. Almennt séð dregur mikil stækkun úr breidd sjónsviðsins og augnfrórinnar (e. eye relief).

Sjónsviðið er stærð þess svæðis (í gráðum) sem þú sérð þegar þú horfir í gegnum sjónauka. Flestir handsjónaukar hafa sex til sjö gráðu breitt sjónsvið en sumir sjónaukar sem stækka meira hafa þriggja til fimm gráðu breitt sjónsvið. Þeim mun meira sem sjónauki stækkar, því minna er sjónsviðið. Því stærra sem sjónsvið sjónaukans er, þeim mun víðara svæði sérðu.

Stærð sjónsviðsins er venjulega tilgreint á sjónaukanum sem ákveðin tala í fetum við þúsund jarda fjarlægð (til dæmis 325 fet við 1000 jarda). Fetin standa með öðrum orðum fyrir breidd svæðisins í sjónsviðinu í 1000 jarda fjarlægð. Til að finna stærð sjónsviðsins í gráðum er fetunum deilt í 52,5 (t.d. 325/52,5 = 6,2 gráður).

Augnfró er fjarlægð augnglers frá auga, í millímetrum, þegar allt sjónsvið augnglersins er sýnilegt. Þeir sem nota gleraugu hagnast mest á langri augnfró.

Annar mikilvægur þáttur handsjónaukans er ljóshálsinn (e. exit pupil) en það er þvermál ljósgeislans í millímetrum þegar hann kemur úr augnglerjunum. Því stærri sem ljóshálsinn er þeim mun bjartari verður myndin. Breiður ljósháls er því hentugri þegar dimmt er. Í stjörnuskoðun ætti ljóshálsinn að samsvara útvíkkun sjáaldra augna þinna, þegar augun hafa aðlagast myrkrinu. Við myrkuraðlögun víkka sjáöldrin út og hleypa meira ljósi inn, venjulega milli fimm og níu millímetra. Níu millímetra útvíkkun er það mesta sem augað víkkar en hafa ber í huga að eftir því sem við eldumst dregur úr getu okkar til aðlagast breytilegu ljósmagni. Flestir undir þrítugu sem skoða stjörnurnar á dimmum himni hafa sjáöldur sem víkka upp í um sjö millímetra. Það getur þar af leiðandi nýtt handsjónauka með sjö millímetra ljósháls til fullnustu.

Fólk sem komið er yfir þrítugsaldurinn verður að sætta sig við að sjáöldrin víkka mest upp í um sex millímetra, en fertugt fólk er verr sett því sjáöldrin víkka ekki meira en sem nemur fimm millímetrum. Ef handsjónaukinn þinn hefur ljósháls sem er breiðari en sjáöldrin þín fara dýrmæta ljóseindir forgörðum og stjörnurnar ekki eins skærar og þær ættu að vera.

Hægt er að finna út breidd ljóshálsins með því að deila stærð ljósopsins með stækkunni. Þannig eru allir 10x50 handsjónaukar með 5mm ljósháls og 7x50 hafa um 7mm ljósháls.

Mikilvægt er að fókusstilla handsjónauka rétt. Á flestum er fókushnappur sem hreyfir bæði augngler í einu en oft er líka eitt augngler sem hægt er að fókusa stakt. Til að stilla handsjónauka er gott að nota fyrst fókushnappinn til að stilla augnglerið sem ekki er hægt að fókusa sjálft og síðan stilla hitt augnglerið. Gott er að loka öðru auganu á meðan sjónaukinn er stilltur.

Prisma

Prisma eða þrístrendingar í handsjónaukum brjóta og beygja ljósið sem kemur inn í sjónaukann; snúa mynd við sem annars yrði öfug. Til eru tvær megingerðir af prismum sem notaðar eru í hefðbundnum handsjónaukum: porro og roof. Flest prisma eru annað hvort úr BK-7 (bórsílíkat) gleri eða BAK-4 (baríum króna) gleri. BAK-4 hefur meiri gæði, gefur bjartari myndir og meiri skerpu. Þau eru einnig dýrari. Mikilvægt er að glerin í handsjónaukanum hafi verið afspeglunarhúðuð. Því meir sem linsurnar og prismun hafa verið afspeglunarhúðuð, þeim mun meiri birta og skerpa fæst.

Porro-prisma eru stærri en roof-prisma og venjulega betri í stjörnuskoðun. Þau eru einfaldari í framleiðslu og kosta þar af leiðandi minna. Porro-prisma gefa ennfremur þrívíðari myndir.

Roof-prisma eru minni sem oftast skilar sér í smærri og léttari handsjónaukum. Hins vegar er erfiðara að framleiða þau og þar af leiðandi eru handsjónaukar með þessi prisma oft dýrari. Í roof-prisma glatast örlítið meira ljós vegna endurvarps en í porro-prisma. Það er vissulega slæmt fyrir stjörnuskoðun en ekkert til að hafa áhyggjur af að degi til.

Út frá þessu má ráða að handsjónaukar með porro-prisma séu hentugari í stjörnuskoðun en sjónaukar með roof-prisma. Handsjónaukar með roof-prisma hafa gjarnan smærra ljósop og því síður vænlegir í stjörnuskoðun, þótt vissulega séu þeir fullkomlega nothæfir.

Hvað er hægt að sjá með handsjónaukum?

Þótt handsjónaukar séu oftast nær smáir leiða þeir engu að síður margt áhugavert í ljós sem margir telja að stjörnusjónauka þurfi til; til dæmis að sjá gíga, fjöll og sléttur á tunglinu; reikistjörnur og tungl umhverfis þær, smástirni, halastjörnur, tvístirni, stjörnuþokur, stjörnuþyrpingar og vetrarbrautir. Við skulum skoða þetta nánar. Einfaldast er að byrja á að skoða björtu fyrirbærin.

Á tunglinu má sjá svipuð smáatriði og Galíleó sá með sínum frumstæða sjónauka. Fjöll, gígar og sléttur sem hann uppgötvaði árið 1610 sýndu að tunglið er raunverulegur staður, líkt og jörðin. Sneri hann þar með á aldagamlar kennisetningar kirkjunnar.

Þegar litið er á tunglið í gegnum handsjónauka, koma stór dökk svæði í ljós. Þetta eru hin svokölluðu „höf“ en það eru sléttar hraunbreiður sem eru um 3,5 milljarða ára gamlar. Á tunglinu sjást einnig bjartari, eldri og hálendari svæði þakin árekstrargígum. Eftir að þú hefur eytt nokkrum kvöldum og nóttum utandyra í að kanna tunglið, verður það fljótlega jafn kunnuglegt og umhverfið í kringum þig.

Þegar tunglið er vaxandi á vesturhimninum, nokkrum dögum eftir að það er nýtt, sést aðeins Kreppuhafið. Skuggaskilin, línan sem skilur að tungldag og tunglnótt, færist þvert yfir tunglið og leiðir fleiri kennileiti í ljós samfara því að tunglið vex uns það verður fullt. Nótt eftir nótt koma fleiri höf í ljós: Friðarhafið, Kyrrðarhafið, Regnhafið og loks Stormahafið. Nærri skuggaskilunum varpar sólarljósið löngum skuggum og þar verða fjöll og dalir greinilegust. Landslagið sést enn betur ef sjónaukinn er látinn hvíla á einhverju stöðugu.

Reikistjörnurnar

Reikistjörnur sólkerfisins eru meðal áhugaverðustu fyrirbæra á himninum. Stundum er hægt að koma auga á Merkúríus í ljósaskiptunum með berum augum, en auðveldara er að sjá hann með handsjónauka. Þegar hann er loks fundinn virðist þessi litla reikistjarna ekkert óvenjulegri en venjuleg stjarna. Hér liggur afrekið hins vegar í því að finna reikistjörnuna, líkt og raunin er með mörg fyrirbæri himingeimsins.

Venus er á hinn bóginn áhugaverðari pláneta. Í góðum handsjónauka sjást greinileg kvartilaskipti líkt og Galíleó sá sumarið og haustið 1610. Galíleó fylgdist með Venusi í nokkurn tíma og kom fram með áríðandi vísbendingar sem renndu stoðum undir sólmiðjukenningu Kóperníkusar.

Mars lítur aðeins út sem björt appelsínugul stjarna í handsjónauka.

Júpíter er eitt helsta djásn himinsins í hvaða sjónauka sem er. Galíleótunglin fjögur raða sér upp við aðra hvora hlið Júpíters og mynda mynstur sem tekur sífelldum breytingum. Auðveldast er að sjá ytri tunglin tvö, Ganýmedes og Kallistó með handsjónauka. Stundum eru Evrópa og íó falin í bjarma Júpíters, en sjást greinilega þegar þau liggja fjærst plánetunni. Gott er að notast við kort af tunglum Júpíters sem finna má í tímaritinu Sky & Telescope í hverjum mánuði, svo hægt sé að átta sig á hvaða tungl er horft. Þegar skyggni er mjög gott og ljósmengun ekki til trafala geta tunglin fjögur sést með berum augum.

Mun vandasamara verk er að finna Títan, hið eina af tunglum Satúrnusar sem sést með handsjónauka. Títan er tiltölulega nálægt Satúrnusi svo nauðsynlegt er að sjónaukinn sé góður og hvíli á stöðugri undirstöðu. Hringar Satúrnusar sjást því miður ekki nema stækkunin sé meiri en 20x eða 30x.

Úranus, Neptúnus og nokkur smástirni sem ná áttunda birtustigi líta út eins og daufar stjörnur í handsjónauka. Til þess að finna þessar ystu reikistjörnur sólkerfisins verður að notast við stjörnukort.

Djúpfyrirbæri

Annars konar ánægju má öðlast með því að leita uppi daufan bjarma stjörnuþyrpinga, stjörnuþoka eða vetrarbrauta í þúsund eða milljón ljósára fjarlægð. Það eitt að finna þessi draugalegu fyrirbæri innan um stjörnurnar veitir manni mestu ánægjuna. En til þess að finna þau er nauðsynlegt að vera handlagin(n) með kort og leikin(n) í að leita í stjörnumergðinni. Þetta er mun auðveldara með handsjónaukum heldur en stjörnusjónauka og því er handsjónauki frábært þjálfunartæki.

Ef þú hefur þegar lært að þekkja flest stjörnumerkin, muntu fljótlega komast að því að í handsjónauka sjást óteljandi nýjar stjörnur þar sem ekkert sést með berum augum. Ef þú hoppar frá einni bjartri stjörnu til annarrar í kunnuglegu stjörnumerki þjálfarðu þig í að leita að fyrirbærunum.

Á himninum er fjöldi áhugaverðra djúphiminsfyrirbæra. Sé himinninn sæmilega dimmur og laus við ljósmengun sjást allar stjörnur frá níunda birtustigi og bjartari í 8x50 eða 10x50 handsjónaukum, sem og flest djúphiminsfyrirbæri sem eru bjartari en áttunda birtustig. Þannig er til að mynda tiltölulega auðvelt að sjá flest fyrirbæri Messier-skrárinnar. Þótt leitin verði ekki auðveld, er nauðsynlegt að nota kort og gefast alls ekki upp. á þann hátt næst besti árangurinn og maður verður kunnugri himninum á eftir.

Að halda sjónaukanum stöðugum

Flestir kannast við að erfitt getur reynst að halda handsjónaukum stöðugum. Hristingur kemur í veg fyrir að maður sjái daufustu fyrirbærin og smæstu smáatriðin. Einfalt ráð er að styðja sjónaukanum við girðingu, stól, bílþak eða eitthvað af því tagi. Liggi maður á bakinu og hvíli sjónaukann við augun minnkar hristingurinn, en nær að lokum sama takti og hjartslátturinn.

Marga sjónauka er hægt að festa á þrífót með millistykki. Þetta heldur sjónaukanum fullkomlega kyrrum, en á mörgum þrífótum er einungis hægt að skoða fyrirbæri sem eru nærri sjóndeildarhringinn. Þó eru ýmsar gerðir þar sem hægt er að hreyfa millistykkið í allar áttir og hækka þrífótinn. Slíkir þrífætur eru oft mun dýrari en reynast mjög vel við stjörnuskoðun.

önnur ágætist aðferð er að sitja í garðstól með örmum. Séu olnbogarnir látnir hvíla á örmum stólsins og sjónaukanum haldið við augun, minnkar hristingurinn töluvert.

Skrifaðu athuganirnar hjá þér

Byrjaðu strax að skrá niður fyrirbærin sem þú skoðar, jafnvel þótt þú skrifir aðeins dagsetningu, tíma, upplýsingar um tæki sem notað var og athugasemdir á borð við: „Irdium-flói í Regnhafinu áberandi við skuggaskil tunglsins“, „M42 í Óríon stór, ljósleitur, daufur og bjarmi“ eða „NGC 457 fannst ekki“. Gott er að teikna fyrirbærin sem skoðuð eru. Þannig þjálfar maður sjálfan sig í teikningu og verður gleggri athugandi í leiðinni. Þetta breytir venjulegu stjörnuskoðunarkvöldi í varanlegt safn athuganna sem vex með tímanum. Venjuleg stílabók hentar fullkomlega. Nákvæmari athuganir er betra að framkvæma síðar þegar leiknin í stjörnuskoðun er orðin meiri.

Góðir handsjónaukar sem við mælum með

  • William Optics Ferrari Visio 8x25 -
  • William Optics 8x42 Semi-APO -
  • William Optics 10x42 Semi-APO -
  • William Optics 8x42 APO -
  • William Optics 7x50 ED Astro -
  • William Optics 22x70 APO

Heimildir

  1. Binoculars: Halfway to a Telescope eftir Alan MacRobert á vefsíðu Sky and Telescope
  2. Choosing Binoculars for Stargazing eftir Alan MacRobert á vefsíðu Sky and Telescope
  3. Using binoculars eftir Richard Talcott á vefsíðu Astronomy
  4. Bincoular Baisc á vefsíðu Celestron
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook