Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Facebook
 

Mars Reconnaissance Orbiter

Mars Reconnaissance Orbiter á að framkvæma ítarlegri rannsóknir á yfirborði Mars en nokkurt annað brautarfar hefur gert hingað til. „Mars Reconnaissance Orbiter er næsta skref okkar í könnun Mars“,” sagði Douglas McCuiston yfirmaður Marsverkefna hjá NASA. „„Við væntum þess að augu þessa geimfars muni koma til með að nýtast okkur á komandi árum í að greina og meta bestu mögulegu lendingarstaðina fyrir leiðangra framtíðarinnar.“

Um borð í geimfarinu eru sex mælitæki, þar á meðal þrjár myndavélar, sem eiga að rannsaka lofthjúpinn, yfirborðið og það sem leynist í efstu lögunum undir því. Ein myndavélanna er sú öflugasta sem send hefur verið til annarrar reikistjörnu og gæti greint fótbolta á yfirborðinu. Önnur myndavél á að búa til kort af reikistjörnunni í tíu sinnum meiri upplausn en áður og þriðja myndavélin mun fylgjast með veðurfarinu. Í farinu er auk þess litrófsmælir sem á að nema steinefni á yfirborðinu, sem hafa myndast í tengslum við vatn, á svæðum á stærð við handboltavöll. Ratsjá verður notuð til að skyggnast undir yfirborðið og kanna berg-, ís- og vatnslög (ef vatnslög eru til staðar).

Á braut verða breytingar á vatnsgufu í mismunandi hæð mældar og jafnvel staðsett svæði þar sem vatnsgufa streymir upp í lofthjúpinn, ef það á sér stað á Mars. Auk þess verður fylgst með breytingum á vatni og ryki í lofthjúpnum og veðurmælingar gerðar á hverjum degi.

Fylgst verður með hreyfingu geimfarsins á braut um reikistjörnuna, en þannig er hægt að kortleggja uppbyggingu efri hluta lofthjúpsins og þyngdarsvið Mars.

Í framtíðinni mun Mars Reconnaissance Oribiter gegna hlutverki fjarskiptatungls með því að taka á móti og endurvarpa gögnum frá öðrum leiðöngrum til jarðar.

Markmið

Helstu markmið geimfarsins eru:

 • Rannsaka veðurfar á Mars og hvernig það breytist með tímanum
 • Gera nákvæmar rannsóknir á landslagsþáttum Mars, sérstaklega þeim sem taldir eru tengjast fljótandi vatni
 • Leita að stöðum sem sýna vísbendingar um virkni fljótandi vatns, t.d. lækjardrög
 • Hjálpa til við val á lendingarstöðum í ferðum framtíðarinnar
 • Endurvarpa gögnum frá lendingarförum á Mars

Vísindatæki

Sex mælitæki eru um borð í Mars Reconnaissance Orbiter sem hjálpa stjörnufræðingum að mæta markmiðum sínum:

 • HiRISE (High Resolution Imaging Science Experiment) - Þessi myndavél getur greint afar smágerða hluti á yfirborðinu og rannsakað jarðmyndanir, svo sem gljúfur, gil, setlög og rásir. HiRISE á að taka hundruð mynda af yfirborðinu í mestu upplausn sem þekkist hingað til og gæti greint fótbolta á yfirborðinu. Myndirnar munu gagnast stjörnufræðingum til að meta hugsanlega lendingarstaði fyrir Mars-leiðangra í framtíðinni.

  Myndavélin er stærri og hefur talsvert meiri upplausn en Mars Orbital-myndavélin (MOC) um borð í Mars Global Surveyor (MOC). Með henni munu menn reyna að staðsetja og mynda flak Mars Polar Lander geimfarsins sem brotlenti á Mars árið 1999. Á myndinni hér til hliðar er sýnt dæmi um upplausn MOC í samanburði við upplausn HiRISE eins og hún birtist á mynd af Mars Polar Lander geimfarinu.
 • CRISM (Compact Reconnaissance Imaging Spectrometers for Mars) - Þetta tæki greinir litróf ljóssins sem endurvarpast af yfirborðinu svo unnt sé að greina mismunandi steinefni. Öll efni hafa sín einkenni, nokkurs konar fingrafar, sem getur sagt okkur hvernig það myndaðist. Stjörnufræðingar einblína á að finna efni sem hafa myndast í tengslum við fljótandi vatn.
 • CTX (Context Imager) - Þessi myndavél á að gefa breiðari mynd af svæðum sem HiRISE og CRISM rannsaka. Þannig er hægt að draga upp stærri og ítarlegri mynd af svæðum með áhugaverðum jarðmyndunum og steinefnum á yfirborðinu. CTX myndar þannig eitt sérstaklega öflugt tæki með HiRISE og CRISM. Mörg jarðlög sem sáust með MOC-myndavélinni í Mars Global Surveyor gætu hafa myndast með vatni en einnig verið hraun- eða öskulög. Með því að samræma upplýsingarnar um smærri hluti sem HiRISE sér, jarðmyndanir sem CTX greinir og steinefnin sem CRISM nemur, ættum við að geta skorið úr um þetta.
 • SHARAD (Shallow Subsurface Radar) - SHARAD á að skyggnast undir yfirborðið meða ratsjárbylgjum í leit að fljótandi eða frosnu vatni á allt að eins km dýpi. SHARAD-loftnetið er næmt fyrir breytingum á endurvarpi bergs, sands eða vatns á og undir yfirborðinu. Vatn er góður leiðari og auðvelt að greina með ratsjá. Tækið kemur frá ítölsku geimstofnunni (ASI).
 • MCS (Mars Climate Sounder) - Með Mars Climate Sounder munu stjörnufræðingar fylgjast með hitastigi, rakastigi, rykmagni og loftþrýstingsbreytum í lofthjúpi Mars. Með þessum mælingum er unnt að búa daglega til þrívítt hnattrænt veðurkort á bæði dag- og næturhlið Mars. Athuganir verða gerðar allt árið á Mars til að mæla stórar árstíðabreytingar á rykmagni í lofthjúpnum, rakastig og hitauppbyggingu. Þetta veitir stjörnufræðingum samskonar upplýsingar og veðurfræðingar nota til að skilja og spá fyrir um veðrið og loftslagið á jörðinni.

  Hljóðgjafi (e. sounder) er tæki sem mælir breytingar á hitastigi eða samsetningu lofthjúpsins með hæð. Mars Climate Sounder “sér” á níu rásum þvert yfir sýnilega og innrauða svið rafsegulrófsins. Sýnilega sviðið jafngildir því sem augu okkar sjá en innrautt samsvarar hita. Ef við gætum þannig séð innrautt ljós, við það svipað og að geta séð hve heitt eitthvað er. Ein rásin er á sýnilega og nær-innrauða sviðinu (0,3-3,0 míkrómetrar) er notuð til að skilja hvernig sólarorkan verkar við lofthjúpinn og yfirborðið, sem hjálpar okkur að skilja loftslagið á Mars. Átta aðrar rásir á innrauða sviðinu (12-50 míkrómetrar) eru notaðar til að mæla hitastig, loftþrýsting, rakastig og rykmagn.
 • MARCI (Mars Color Imager) - MARCI á að fylgjast með rykstormum, breytingum á pólhettunum, ryki, ósoni og koltvíoxíði í lofthjúpnum. Tækið á að senda daglega veðurfréttir frá Mars og búa til hnattrænt kort til að fylgjast með daglegum, árstíðabundum og árlegum breytingum á loftslagi Mars.

Mesta gagnasöfnun geimfars til þessa

Geimfarið kemur til Mars í marsmánuði árið 2006. Við komuna verður hægt á hraða þess með núningi við lofthjúp Mars, svokölluð „lofthemlun”. Áætlað er að vísindarannsóknir standi yfir í um 25 mánuði og hefjast þær formlega í nóvember 2006. Farið hefur hins vegar nægt eldsneyti til að endast fram til ársins 2014, svo viðbúið er að leiðangurinn verði framlengdur. Farið verður í aðeins um 310 km hæð yfir yfirborðinu en það er mun minni hæð en önnur geimför hafa hingað til verið í. Lægri braut gerir okkur kleyft að sjá Mars sem aldrei fyrr.

Svo unnt sé að afla meiri gagna um Mars en nokkru sinni áður (34 terabæt) er geimfarið útbúið þriggja metra breiðu loftneti, hinu stærsta sem sent hefur verið til Mars. „Geimfarið getur sent tíu sinnum meiri gögn á mínútu en nokkurt annað geimfar,” að sögn James Graf verkefnastjóra hjá JPL. „Með þessu er okkur kleyft að gera ítarlegri rannsóknir á yfirborðinu og setja saman kort af því í meiri upplausn en þekkist. Sami fjarskiptabúnaður verður notaður til að senda mikilvæg vísindagögn til jarðar frá lendingarförum.”

Geimfarið vegur ríflega tvö tonn með eldsneyti og er þriggja metra breitt. Til að lyfta svo stóru geimfari notar NASA Atlas V eldflaug í fyrsta skipti fyrir leiðangur til annarrar reikistjörnu. Geimfarið má alls ekki vega mikið meira því annars gæti eldflaugin ekki loftað því.

Mars yfirlitskanninn mun leggja línurnar fyrir Fönix geimfarið sem fer til Mars árið 2007 og nýjan könnunarjeppa, Mars Science Laboratory, sem fer til Mars árið 2009 eða 2011. Myndavélar kannans munu veita mikla hjálp við að meta hugsanleg lendingarsvæði fyrir þessar ferðir. Auk þess mun öflug samskiptahæfni kannans nýtast mönnum mikið í rannsóknarverkefnum á yfirborðinu.

Hreyfimynd af Mars Reconniassance Orbiter

Hreyfimynd af Mars Reconnaissance Orbiter

Til þess að auka skilning okkar á Mars og hlutverki vatns í fortíð reikistjörnunnar ákvað NASA að senda Mars Reconnaissance Orbiter til rauðu reikistjörnunnar. Geimfarið kemst á braut um Mars að loknu sjö mánaða ferðalagi og sex mánaða lofthemlun. Mars Reconnaissance Orbiter á að taka einstakar myndir af yfirborði Mars, greina steinefni, leita að vatni undir yfirborðinu, greina hversu mikið ryk og vatn er í lofthjúpnum og fylgjast daglega með veðrinu. Myndir geimfarsins munu síðar hjálpa mönnum við að ákvarða hentuga og spennandi lendingarsvæði fyrir Mars-leiðangra framtíðarinnar.

QucikTime (9,8 MB)

MPEG (7,8 MB)

MPEG-4 (4,3 Mb)

Heimildir:

 • Vefsíða MRO hjá NASA
 • Space.com
Facebook