Mars Global Surveyor finnur ný giljadrög og gíg á Mars

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Fram í nóvember á þessu ári gefst okkur frábært tækifæri til að skoða rauðu reikistjörnuna á kvöld- og næturhimninum. Þessa dagana er auðvelt að finna Mars meðal stjarna himinsins en hann er áberandi bjartur og fagur á austurhimninum rétt fyrir miðnætti. Allir sem tök hafa á ættu tvímælalaust að virða hann fyrir sér í gegnum góðan stjörnusjónauka.

Þótt Mars sé ákaflega glæsilegur á himninum hjá okkur erum við því miður ekki alveg jafn vel sett og geimförin fimm sem þar stunda rannsóknir nú um stundir. Það skiptir hins vegar engu hversu nálægur Mars er, hann heldur alltaf áfram að heilla okkur.

Eitt geimfarana sem sveimir nú um reikistjörnuna er Mars Global Surveyor sem kom til Mars í september árið 1997 og hefur síðan þá sent yfir 250.000 stórglæsilegar myndir af yfirborðinu. Geimfarið fagnar nú átta ára afmæli sínu á braut um Mars með því að senda okkur myndir af lifandi reikistjörnu. Á myndunum sjást nýleg giljadrög og tiltölulega nýmyndaður gígur á yfirborðinu. Mars er fjarri því að vera dauður staður.

Að sögn Michael Malin stjórnanda MOC-myndavélarinnar (Mars Orbiter Camera) um borð í Mars Global Surveyor hafa þessi giljadrög að öllum líkindum ekki myndast fyrir tilstuðlan fljótandi vatns. „Það sem við teljum að hér hafi átt sér stað er að koldíoxíðsnjór hafi sest í sandinn. Þegar snjórinn síðan bráðnaði og gufaði upp varð sandurinn vökvakenndur og rennur fyrir vikið niður hlíðarnar.“

Þessi giljadrög eru einstök að því leyti að þau skárust í sandinn en ekki í berglög gígveggsins eins og sjá má á þessari skemmtilegu hreyfimynd hér til hliðar. Myndirnar voru teknar í júlí 2002 og apríl 2005.

Nýr gígur

Umræddur gígur virðist hafa myndast á níunda áratugnum, einhvern tímann milli 1980 og 1985 en stjörnufræðingar geta áætlað tímann út frá því hve mikið ryk hefur sest yfir efnið sem kastaðist upp úr gígnum. Gíginn er að finna á suðurhlíð Ulysses Pater eldfjallsins og er hann um 20 metrar í þvermál, en hefur að líkindum myndast við árekstur steins sem var um einn metri í þvermál. Hann er hvergi sjáanlegur á myndum sem Viking brautarförin tóku árið 1976, en greinilegur á mynd sem Mars Global Surveyor tók árið 1999. Á mynd sem tekin var fyrr á þessu ári sést að nokkuð hefur dofnað á slettunum úr gígnum, en hann er þó greinilega enn til staðar.

Malin segir að fimm eða sex samskonar gígar hafi fundist en flestir á svæðum sem Viking rannsakaði ekki. „Fjöldi ungra gíga sem við höfum komið auga á eru miklu færri en við bjuggumst við.”

Vegna nálægðar Mars við smástirnabeltið áttu stjörnufræðingar von á að finna miklu fleiri vísbendingar um nýlega árekstra. Mars Global Surveyor hefur hins vegar aðeins ljómyndað um fjögur prósent af yfirborði Mars og gætu því miklu fleiri gígar átt eftir að finnast.

Bergfall og minnkandi íshettur

Einnig voru birtar myndir Mars Global Surveyor sem sýna hvar berg hefur brotnað og runnið niður gígvegg. Sá atburður átti sér stað milli nóvember 2003 og desember 2004. Ekki er vitað hvort bergfallið hafi orsakast af vindhviðum, nálægum árekstri eða skjálftavirkni. Hafi bergið fallið vegna skjálftavirkni (Marsskjálfta) gæti það rennt stoðum undir hugmyndir manna um að eldvirkni sé enn til staðar á plánetunni.

Geimfarið hefur líka fylgst með uppgufun koldíoxíðíss á annarri suðurpólhettu Mars. Breytingarnar þykja benda til hægfara breytinga á loftslagi Mars og finnst mörgum vísindamönnum ótrúlegt að fylgjast með ísnum hörfa. En eins og með bergfallið hafa stjörnufræðingar ekki fundið neina skýringu á hægfara loftslagsbreytingum. Við höfum ekki hugmynd um hvers vegna Mars virðist hlýrri í dag en í fortíðinni.

Lífseigt geimfar

Upphaflega átti Mars Global Surveyor að kanna Mars til ársins 2001 en verkefnið hefur nú verið framlengt í þrígang. Þessi aukaár hafa reynst ótrúlega dýrmæt og mikillar þekkingar verið aflað um Mars. Að sögn Malin hafa flestar uppgötvanirnar verið gerðar eftir að verkefnið var framlengt og sent gífurlegt magn gagna til jarðar. Þar að auki hefur því tekist að koma auga á hin geimförin tvö sem sveima um Mars, Mars Odyssey og Mars Express, ásamt því að greina jeppana tvo á yfirborðinu og hugsanlega leifar Mars Polar Lander.

Að sögn NASA er geimfarið enn við hestaheilsu og getur haldið áfram að rannsaka Mars vel fram á næsta áratug. Það mun án efa gera fleiri uppgötvanir og gegna mikilvægu hlutverki sem samskiptafar fyrir önnur geimför.

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook