MAVEN er nýjasti Mars kanninn

Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

15. september 2008

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Hafði Mars eitt sinn þykkan og hlýjan lofthjúp? Er hugsanlegt að loftslag rauðu reikistjörnunnar hafi eitt sinn náð að viðhalda fljótandi vatni og hugsanlega frumstæðu lífi í fyrndinni? Þetta er meðal þess sem bandaríska geimferðastofnunin NASA vonast til þess að varpa ljósi á með MAVEN, nýjasta Mars könnunarfari sínu sem tilkynnt var um í dag (15. september).

MAVEN er skammstöfun fyrir Mars Atmosphere and Volatile Evolution sem NASA hyggst skjóta á loft síðla árs 2013. Upphaflega stóð valið milli tveggja leiðangra en svo fór að verkfræðingar og stjörnufræðingar hjá NASA töldu bestu vísindaniðurstöðurnar fást og að minnsta áhættan væri tekin með MAVEN leiðangrinum.

Talið er að hvarf segulsviðs Mars eigi sinn þátt í því að lofthjúpur reikistjörnunnar þynntist. Sólvindurinn blæs lofthjúpnum út í geiminn.

Á yfirborði Mars sjást mýmörg dæmi um tilvist fljótandi vatn í fyrndinni. Ljóst er því að lofthjúpur Mars var eitt sinn miklu þykkari en hann er í dag og hefur gengið í gegnum ofsafengnar loftslagsbreytingar þar sem stærstur hluti lofthjúpsins hefur horfið út í geiminn. Tilgangurinn með MAVEN er að kanna efri hluta lofthjúpsins, jónahvolfið og venslin við sólina og sólvindinn, með því að ákvarða hvernig efnasambönd á borð við koldíoxíð (CO2), nituroxíð (NO2) og vatns (H20) hafa streymt úr lofthjúpi Mars og út í geiminn. Með því fáum við innsýn inn í sögu lofthjúpsins, loftslagsins, fljótandi vatns á yfirborðinu og hugsanlegan lífvænleika. Þessum svörum verður aflað með átta vísindatækjum á borð við agna- og geislunarnema, massagreini og fjarkönnunarbúnaði. (Þetta er í meginatriðum það sem japanski Marskanninn Nozomi átti að rannsaka fyrir fáeinum árum.)

Þegar MAVEN kemur til Mars haustið 2014 verður geimfarið á sporöskjulaga braut um reikistjörnuna. Verður geimfarið þá næst Mars í um 140 km hæð yfir yfirborðinu en mest í yfir 6000 km hæð. Áætlað er að gagnaöflun standi yfir í hálft Marsár eða sem samsvarar einu jarðári. Að meginleiðangrinum loknum verður geimfarið sennilega nýtt sem samskiptatungl fyrir lendingarför á yfirborðinu.

Leiðangursstjórn er í höndun Bruce Jakosky prófessors við háloftaeðlisfræðistofu Coloradoháskóla í Boulder. Geimfarið verður smíðað af Lockheed Martin í Colorado en hönnun þess er byggð á Mars Reconnaissance Orbiter og 2001 Mars Odyssey geimförunum. Goddard geimferðamiðstöð NASA í Greenbelt í Maryland hefur yfirumsjón með verkefninu.

MAVEN er hluti af svokölluðu Mars Scout verkefni NASA sem gengur út á litla, ódýra og tiltölulega stutta leiðangra til Mars. Fyrsta Scout verkefnið var Fönix leiðangurinn sem lenti á norðurheimskautssvæði Mars þann 25. maí í ár (2008) og áætlað er að það starfi að minnsta kosti fram til 30. september næstkomandi. 

Árið 2009 verður Mars Science Laboratory jeppinn næsta geimfar sem heimsækir Mars. Meira um það innan tíðar hér á Stjörnufræðivefnum.

Sjá nánar: Könnun Mars
  • Hér má sjá stutta kvikmynd (QuickTime) með kynningu á geimfarinu.

Heimildir

  1. NASA Selects 'MAVEN' Mission to Study Mars Atmosphere.
  2. Vefsíða MAVEN leiðangursins
- Sævar Helgi Bragason
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook