Fréttir
Fréttir

Loftsteinn lagður að nýbyggingu Háskólans í Reykjavík

Campo del Cielo loftsteinn Háskólans í Reykjavík

11.11.2010

  • Campo del Cielo loftsteinn Háskólans í Reykjavík

Í kvöld var hornsteinn lagður í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík af Katrínu Jakobsdóttur mennta- menningarmálaráðherra og Magnúsi Júlíussyni formanni Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík að viðstöddu fjölmenni. Loftsteinninn er að mestu úr járni og féll yfir Argentínu fyrir um 4.000 árum og er gjöf frá velunnurum skólans. Steinninn hefur örlitla tengingu við Stjörnufræðivefinn því undirritaður var HR innan handar um að velja og panta loftsteininn.

Fyrir um 4.000 árum splundraðist stór loftsteinn í tugi brota í lofthjúpi jarðar yfir norðurhluta Argentínu. Brotin úr steininum féllu til jarðar yfir stórt svæði og mynduðu að minnsta kosti 26 gíga. Miðað við fjölda brota var upphaflegi loftsteinninn sennilega rúmir 4 metrar í þvermál.

Árið 1576 höfðu Spánverjar veður af stað í Argentínu þar sem finna mátti mikið magn járns. Frumbyggjar Argentínu höfðu lengi vitað af staðnum og notað járnið í vopn. Þeir töldu að steinarnir hefðu fallið af himnum ofan og nefndu fundarstaðinn Piguem Nonralta sem var þýtt Campo del Cielo á spænsku og gæti útlagst Staður himinsins á íslensku. Steinarnir grófust með tímanum í jörðina og varðveittust því vel.

Hingað til hafa yfir 100 tonn fundist af loftsteininum. Loftsteinninn sem Háskólinn í Reykjavík á vegur tæp 5,2 kg en sá stærsti sem vitað er um vegur heil 37 tonn. Steinninn er að mestu úr járni (92,9%) en inniheldur líka nikkel (6,7%), kóbalt (0,4%) auk fósfors, gallíums, germaníums og iridíums í snefilmagni.

Járninnihaldið gefur okkur vísbendingu um uppruna loftsteinsins. Járn hefur háan eðlismassa og sekkur því inn að miðju hnatta. Þannig er t.a.m. járnið á jörðinni að mestu í kjarna jarðar. Járnsteinninn hér hefur því líklega verið í kjarna smástirnis.

Fyrir milljörðum ára varð árekstur tveggja smástirna í sólkerfinu sem varð til þess að þau tvístruðust. Járnið dreifðist um geiminn og storknaði. Eftir milljarða ára í geimnum féll steinninn svo loks til jarðar og rataði síðan til Íslands 4.000 árum síðar. 

Við óskum að sjálfsögðu Háskólanum í Reykjavík til hamingju með loftsteininn, sem er sá stærsti sem til er á Íslandi. 

Tenglar

Sævar Helgi Bragason

Ummæli


Leita á vefnum


 

Vinir okkar

  • Hubble spacetelescope
  • Portal To The Universe
  • European Southern Observatory - ESO
  • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
  • Vísindavefurinn
  • Sjónaukar.isPóstlisti


Fleygar setningar

- Höfundur ókunnur

„Upphaf þekkingar er að uppgötva eitthvað sem við skiljum ekki."

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica