Fréttir
Fréttir

Íslensk stjörnukort af öllum stjörnumerkjunum

24.01.2011

 • stjörnukort, stjörnumerki, Óríon

Stjörnufræðivefurinn býður nú upp á íslensk kort og myndir af öllum 88 stjörnumerkjum himinhvolfsins. Kortin eru frá Alþjóðasambandi stjarnfræðinga (International Astronomical Union, IAU) og tímaritinu Sky & Telescope en Stjörnufræðivefurinn fékk leyfi til að íslenska þau. Myndirnar eru hins vegar úr Stellarium hugbúnaðinum. Á kortunum eru sýnd áhugaverð fyrirbæri sem áhugafólk getur skoðað í stjörnusjónauka. Hægt er að sækja öll kortin á pdf-formi í prentvænni upplausn. Þau ættu því að koma að góðu gagni í stjörnuskoðun ásamt Stjörnukorti mánaðarins og Stellarium stjörnufræðiforritinu.

Allri himinhvelfingunni er skipt í 88 hluta sem við nefnum stjörnumerki. Frá Íslandi sjást 53 merki að hluta eða í heild. Hvert stjörnumerki er myndað af litlum hópi stjarna sem, frá jörðu séð, sýnast tiltölulega nálægt hver annarri. Stjörnurnar í merkjunum tengjast yfirleitt ekkert innbyrðis enda er fjarlægðin til stjarnanna mjög mismunandi.

Flest þau stjörnumerki sem við þekkjum í dag eru byggð á hópi grískra persóna sem Kládíus Ptólmæos skrásetti um 150 e.Kr. Síðar, á 16., 17. og 18. öld, bættu menn við fleiri merkjum, einkum á suðurhveli og bera þau keim af tækni þess tíma. Það var svo árið 1930 sem Alþjóðasamband stjarnfræðinga samþykkti formlega mörk merkjanna 88 og eru það þau merki sem notuð eru í dag.

Stjörnukortin voru útbúin af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga og Sky & Telescope tímaritinu en Stjörnufræðivefurinn fékk leyfi til að íslenska þau og birta á vefnum.

„Hingað til hafa kort í þessum gæðaflokki aðeins verið aðgengileg í bókum og tímaritum. Nú eru þau loks aðgengileg á netinu, öllum að kostnaðarlausu.“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og einn af þremur þýðendum kortanna. „Á kortunum eru tilteknar staðsetningar fjölmargra fyrirbæra – stjörnuþyrpinga, stjörnuþoka og vetrarbrauta – sem gaman er að skoða með litlum áhugamannasjónaukum. Við vonum því að áhugafólk nýti sér þessi góðu kort.“

Í hverjum mánuði birtir Stjörnufræðivefurinn stjörnukort mánaðarins. Stjörnukort mánaðarins sýnir himininn í heild á hringlaga korti (stjörnuskífu). Það kort er ætlað til þess að hjálpa fólki að læra á stjörnuhimininn og átta sig á því sem þar sést með berum augum. Nýju kortin eru hins vegar aðeins annars eðlis.

„Nú þegar Galíleósjónaukum hefur verið dreift í næstum alla skóla landsins viljum við fylgja verkefninu eftir til að tryggja að sjónaukarnir verði notaðir“ segir Sverrir Guðmundsson, ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og einn þýðandi kortanna. „Einn liður í því er að útbúa einfalt stuðningsefni sem kennarar og nemendur geta nýtt sér. Við bjóðum nú þegar upp á Stjörnukort mánaðarins sem sýnir himinhvolfið í heild en hér er eitt stjörnumerki á einu korti. Það auðveldar áhugafólki að finna áhugaverð fyrirbæri á himninum.“

Hægt er að sækja prentvænar útgáfur af öllum kortunum á pdf-formi. Á kortunum eru tiltekin áhugaverð djúpfyrirbæri sem stjörnuáhugafólk getur skoðað með sínum eigin stjörnusjónaukum.

Tenglar

Tengdar myndir

 • stjörnukort, stjörnumerki, ÓríonKort af stjörnumerkinu Óríon sem sýnir staðsetningu Messier 42. Mynd: IAU/S&T og Stjörnufræðivefurinn.
 • stjörnukort, stjörnumerki, StóribjörnKort af stjörnumerkinu Stórabirni. Mynd: IAU/S&T og Stjörnufræðivefurinn.
 • stjörnumerki, ÓríonMynd af stjörnumerkinu Óríon úr Stellarium hugbúnaðinum.

Tengiliðir

Sverrir Guðmundsson
Sími: 896-1984

Email: sverrirstjarna[hjá]gmail.com

Sævar Helgi Bragason
Sími: 898-1984

Email: saevar[hjá]www.stjornuskodun.is

Tryggvi Kristmar Tryggvason
Sími: 847-5479

Email: kibbi10[hjá]gmail.com

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1103

Ummæli


Leita á vefnum


 

Vinir okkar

 • Hugsmiðjan
 • Sjónaukar.is
 • Portal To The Universe
 • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
 • Vísindavefurinn
 • Hubble spacetelescope
 • European Southern Observatory - ESOPóstlisti


Fleygar setningar

- Carl Sagan

„Stundum er sagt að vísindamenn séu órómantískir, að ástríða þeirra til að finna út hluti ræni heiminn fegurð og dulúð. Það dregur alls ekki úr rómantík sólsetursins að vita lítið eitt um það.“
 Þetta vefsvæði byggir á Eplica