Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Fyrsta stjörnuskoðunin

Hvernig er best að bera sig að?

Efnisyfirlit

Stjörnuskoðun getur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi áhugamál. Gildir þá einu hvort þú átt stóran, lítinn eða bara alls engan stjörnusjónauka. Ef þú hefur aldrei farið í stjörnuskoðun, og ert hugsanlega nýbúin(n) að fjárfesta í stjörnusjónauka, er mikilvægt að vita hvernig best er að bera sig að. Ánægjuleg og gefandi stjörnuskoðun er nefnilega himnesk upplifun... bókstaflega.

Margir þeirra sem fá sér sjónauka í fyrsta sinn kunna því miður lítið með hann að fara. Þá skortir reynsluna sem stjörnuáhugamenn hafa verið mörg ár að afla sér. Það vill því oft brenna við að fólk verði fyrir töluverðum vonbrigðum með það sem sést í gegnum kíkinn (nú eða það sem sést alls ekki í sjónaukanum!). Sumir búast við því að sjá litríkar og lifandi myndir líkt og í sjónvarpi eða tölvu. Þótt fyrirbæri næturhiminsins séu á fleygiferð sjáum við það sjaldnast vegna mikilla fjarlægða. Það er því betra að líkja stjörnusjónauka við hljóðfæri heldur en tölvu eða sjónvarp. Það tekur tíma og kostar heilmikla eljusemi að læra réttu handtökin við sjónaukann og kynnast því hvað er að sjá á himninum. Við getum samt fullvissað ykkur um að það er mun auðveldara en að læra á hljóðfæri!

Sjálfir höfum við gert fjölmörg mistök við stjörnuskoðun sem hefur aftur á móti kennt okkur gríðarlega mikið. Hér á eftir fara ráðleggingar okkar um hvernig best sé að bera sig að við stjörnuskoðun. Að nota sjónauka á réttan hátt er ákveðin list sem tekur tíma að læra en með þessar ráðleggingar í vegnesti getur þú verið viss um að fyrsta kvöldið þitt undir stjörnubjörtum himni með sjónaukanum verður mun ánægjulegra en ella hefði orðið.

Best að prófa stjörnusjónauka í dagsbirtu

Best er að læra á nýjan sjónauka að degi til. Settu hann upp og beindu honum að einhverju í kringum þig, svo sem húsum eða fjöllum. Þá gefst þér góður tími til að læra á hreyfingar hans, hvaða stillingar gera hvað, hvernig fókusstillingin virkar og hvaða augngler stækka og minnka myndina. Þú ættir líka að læra á og stilla leitarsjónaukann eða miðarann sem fylgir sjónaukanum. Leitarsjónaukinn er með miklu víðara sjónsvið en sjálfur sjónaukinn sem sýnir einungis örsmáan hluta himinsins. Rétt stilltur leitarsjónauki er ómetanlegt hjálpartæki sem sparar mikinn tíma. Sé leitarsjónaukinn rangt stillur er miklu tímafrekara og erfiðara að beina sjónaukanum að tilteknu fyrirbæri. Það verður jafnvel erfitt að staðsetja tunglið og bjartar stjörnur eða reikistjörnur.

M31 eða Andrómeda-vetrarbrautin eins og hún birtist í gegnum sjónauka og á mynd. Myndina tók Snævarr Guðmundsson

Margir falla í þá gryfju að gera sér of miklar vonir með það sem ætti að sjást í gegnum sjónaukann og verða, því miður, fyrir nokkrum vonbrigðum þegar kíkt er í gegnum sjónaukann í fyrsta skipti. Flestir eiga von á því að sjá fallega liti í litríkum stjörnuþokum eins og þær birtast á ljósmyndum og stórar logandi stjörnur. Sannleikurinn er sá að þú munt aldrei koma til með að sjá himinninn eins og hann birtist okkur á ljósmyndum. Öll fyrirbæri næturhiminsins eru órafjarri og þar af leiðandi óskaplega dauf. Þrátt fyrir að hafa stóran og dýran sjónauka að vopni, þá eru það að lokum augun í okkur sem eru einfaldlega ekki nógu öflug til að greina liti í eins daufum og fjarlægum fyrirbærum og stjörnurnar eru. Gildir þá einu hvernig sjónauki er notaður. Allar stjörnurnar sjást sem örsmáir punktar og langflestar vetrarbrautir eða stjörnuþokur sem daufir, gráleitir þokublettir. Einu fyrirbærin sem einhver smáatriði sjást á eru tunglið og björtustu reikistjörnurnar. Þessar staðreyndir trufla okkur hins vegar ekki við að dást að fallegum stjörnuþokum og stjörnuþyrpingum og láta hugann reika og velta fyrir okkur hvort reikistjörnur eða líf sé að finna við einhverjar af þeim stjörnum sem við sjáum.

Með ofangreint í huga verður þú miklu betur undirbúin(n) fyrir fyrstu stjörnuskoðunina.

Hvað á að forðast?

 • Ekki horfa út í gegnum gluggann! Ef þú beinir sjónauka í gegnum glugga glatast bæði skerpa og birta svo myndin verður óskýr og óspennandi. Opinn gluggi hjálpar ekki neitt vegna þess að þá streymir hlýtt loft út og veldur loftstraumum svo myndin verður ennþá óskýrari en ella. Stjörnusjónauka á að nota úti við og í kuldanum á Íslandi er eina ráðið að klæða sig vel.
 • Ekki horfa strax í gegnum sjónaukann! Þetta kemur eflaust mörgum á óvart en sjónaukinn þarf að kólna í 15 til 45 mínútur og ná sama hitastigi og umhverfið úti. Heitur sjónauki skilar óskýrum og óspennandi myndum.

 • Ekki horfa yfir hluti sem eru að kólna! Það er sáralítið gagn í því að kæla sjónaukann ef honum er beint yfir hitauppsprettu eins og til dæmis húsþök. Heitt loft stígur upp af húsþökum og veldur ókyrrð í loftinu svo myndin verður óskýr.
 • Ekki nota mestu stækkun! Þvert á það sem margir halda er lítil stækkun mun betri en mikil stækkun. Með flestum sjónaukum fylgja að minnsta kosti tvö augngler, venjulega 20mm og 10mm. Þegar sjónaukinn er orðinn kaldur skaltu byrja á því að nota það augngler sem stækkar minnst, í þessu tilviki 20mm augnglerið, vegna þess að það hefur víðara sjónsvið. Stærra sjónsvið auðveldar leitina að fyrirbærunum sem ætlunin er að skoða.
 • Ekki nota Barlow-linsuna! Ef þú keyptir vandaða Barlow-linsu með sjónaukanum skaltu bíða með að nota hana. Barlow-linsa tvö- eða þrefaldar stækkunina svo best er að nota hana á tunglið eða reikistjörnurnar en alls ekki stjörnuþokur eða vetrarbrautir.

Listin að skoða stjörnurnar

Það er óhætt að segja að það sé ákveðin list að skoða stjörnurnar. Þá skiptir líka máli hvernig maður ber sig að og hvar maður er staddur. Reyndu að komast á eins myrkvað svæði og mögulegt er með sjónaukann þinn. Það er ótrúlegur munur á stjörnuhimninum innan ljósmengaðra svæða og utan þeirra. Aragrúi stjarna sést á dimmum himni og er talið að hægt sé að sjá allt að 3000 stjörnur með berum augum á himninum við góð skilyrði.

Þegar þú ferð út með sjónaukann skaltu gefa honum tíma til að kólna og reyna sjálf(ur) að venjast myrkrinu. Augun í okkur aðlagast myrkrinu á um það bil hálftíma og eftir það eru þau best undirbúin til að skoða dauf fyrirbæri. Sjáöldrin víkka eftir því sem við aðlögumst myrkrinu og næmari hlutinn af skynfrumum augans (sem nefnast stafir) tekur til starfa.

Ljósmengun dregur verulega úr fjölda sýnilegra stjarna á himninum. Reyndu að komast út fyrir ljósmengunina.

Á Íslandi er alltaf kaldara úti en inni á heimilum fólks (eða það vonum við að minnsta kosti). Sjónaukinn er oftast við stofuhita þegar farið er út með hann og verður hann því að fá að kólna til þess að ná sama hitastigi og úti fyrir. Þetta getur tekið frá 15 mínútum upp í allt að klukkustund, eftir því hvernig sjónauka er um að ræða. Sem dæmi tekur það Schmidt-Cassegrain sjónauka allt að klukkustund að kólna nægilega við íslenskar aðstæður. En hvers vegna er þetta mikilvægt?

Linsurnar eða speglarnir í sjónaukanum voru geymd við stofuhita og eru í fyrstu heitari en umhverfið. Við þekkjum það að heitir hlutir leitast því við að ná sama hitastigi og umhverfið (núllta lögmál varmafræðinnar) og þegar sjónaukinn kólnar geislar hann frá sér varma sem myndar ókyrrð í loftinu í kring. Sé kíkt í gegnum sjónaukann áður en hann nær að kólna er myndin óskýr en um leið og sjónaukinn hefur kólnað nægilega verður myndin skýr, björt og gullfalleg.

Reyndu umfram allt að koma í veg fyrir að dögg eða íshéla setjist á glerin í sjónaukanum. Raki eða dögg sem sest á glerin er versti óvinur stjörnuathugandans því hún skerðir verulegan tímann sem hægt er að verja í stjörnuskoðun. Ef þú átt linsusjónauka skaltu draga linsuhlífina út eins langt og hún kemst og ef þú átt Schmidt-Cassgrain eða Maksutov-Cassegrain sjónauka skaltu fjárfesta í sérstakri daggarhlíf. Eigendur Newton-spegilssjónauka þurfa ekki að hafa miklar jafn miklar áhyggjur af raka.

Gefðu þér tíma fyrir hvert fyrirbæri

Þegar sjónaukinn hefur kólnað nóg, og þú hefur vanist myrkrinu, skaltu horfa vel og vandlega í gegnum sjónaukann með því augngleri sem stækkar minnst. Minnsta stækkunin skilar nefnilega björtustu, skörpustu og fallegustu myndinni.

Kíktu fyrst á tunglið ef það er á lofti, annars bjarta þyrpingu eins og til dæmis Sjöstirnið. Tunglið er stórt og glæsilegt fyrirbæri sem hefur upp á ótrúlega margt áhugavert að bjóða. Um leið og þú horfir í gegnum sjónaukann skaltu fókusstilla vandlega. Reyndur stjörnuáhugamaður er sífellt að fín-fókusstilla myndina til að reyna að fá hana örlítið skarpari.

Horfðu vel og lengi. Ekki búast við því að sjá allt sem til að mynda Júpíter, Satúrnus eða stjörnuþyrping hefur upp á að bjóða við fyrstu sýn. Eftir því sem horft er lengur á fyrirbærið koma fleiri smáatriði í ljós. Það getur til dæmis verið erfitt að koma auga á daufa vetrarbraut í fyrstu tilraun en ef maður gefur sér smá tíma, horfir vel og lengi, birtist hún í öllu sínu veldi og getur verið stórglæsileg á að líta. Sama á við um tunglið og reikistjörnurnar og þótt tunglið geti verið óþægilega bjart er gott ráð að verða sér úti um viðeigandi síu til þess að deyfa birtuna. Eftir því sem þú horfir lengur á tunglið, þeim mun auðveldara er að greina smáatriði á yfirborði þess. Sama má segja um öll önnur fyrirbæri á himninum.

Tvær meginástæður eru fyrir því að það tekur tíma að sjá smáatriði á stjarnfræðilegum fyrirbærum. Þá fyrri má rekja til lofthjúps jarðar sem er á sífelldri hreyfingu og veldur því að myndir verða óskýrari en þær geta verið. Ókyrrðin í loftinu er mismikil og breytist mjög hratt. Lofthjúpurinn hefur þannig mikil áhrif á það sem sést eða sést ekki. Þegar aðstæður eru góðar, þ.e.a.s. loftið er stöðugt, geta myndirnar í sjónaukanum orðið stórglæsilegar og stundum ógleymanlegar. Þegar aðstæður eru slæmar sést aftur á móti fátt áhugavert.

Teikning af Júpíter eftir Damian Peach sem sýnir þrjár mismunandi myndir af Júpíter í gegnum 25 cm spegilssjónauka og 350x stækkun. Myndin vinstra megin sýnir Júpíter við góðar aðstæður, miðmyndun við meðalaðstæður en myndin hægra megin við lélagar aðstæður.

Hin ástæðan hefur ekkert með lofthjúpinn að gera heldur auga og huga athugandans. Tökum stjörnuþyrpingu sem dæmi. Segjum sem svo að þú horfir á hana með berum augum á himninum. Í fyrstu sérðu aðeins björtustu stjörnurnar en eftir því sem þú horfir lengur birtast sífellt fleiri stjörnur og stjörnuþyrpingin tekur smám saman á sig mikilfenglegri mynd. Það getur einnig hjálpað að horfa ekki beint á fyrirbærið heldur örlítið til hliðar við það.

Eitt allra besta dæmið um þetta er reikistjarnan Mars. Þegar óreyndur athugandi skoðar Mars í gegnum lítinn sjónauka í fyrsta skipti verður hann eða hún undantekningalítið fyrir miklum vonbrigðum. Þrátt fyrir að Mars geti verið meðal björtustu fyrirbæra himinsins virðist lítið annað sjást en stór appelsínugulur bolti. Ef reyndari stjörnuáhugamaður horfir á Mars í gegnum sama sjónauka og sama augngler sér hann alltaf miklu meira, til dæmis pólhettu, dökkleit svæði og jafnvel ský í lofthjúpnum. Ef byrjandinn horfir aftur sér hann lítið annað en það sem hann sá fyrst, nema hugsanlega örlítið bjartari blett á öðru pólsvæðinu en lítið annað.

Þarna er mikilvægt fyrir óreyndan stjörnuathuganda að gefa sér góðan tíma fyrir hvert fyrirbæri, hvort sem það er tunglið, Mars, aðrar reikistjörnur eða dauf djúpfyrirbæri. Þjálfa þarf augað og hugann til að greina smáatriðin en það kemur aðeins með æfingu. Næst þegar byrjandinn skoðar Mars sér hann pólsvæðið mun fyrr og hugsanlega eitt eða tvö dökkleit svæði.

Góð leið til að þjálfa augað er að teikna það sem þú sérð í gegnum sjónaukann. Tilgangurinn er ekki að búa til einhver listaverk, heldur fyrst og fremst til að æfa sig að sjá meira. Þetta skilar ótrúlegum árangri.

Vasaljós og stjörnukort

Notaðu stjörnukort! Stjörnukort auðvelda manni að rata um himinninn, hjálpa manni að finna daufari fyrirbæri og spara manni mikinn tíma. Til þess að sjá á kortið þarftu að nota rautt vasaljós, alls ekki hefðbundið. Sé venjulegt vasaljós notað eyðileggur maður myrkvaaðlögun augnanna og það tekur allt að hálftíma að aðlagast aftur myrkrinu. Þess vegna sérðu aldrei stjörnuáhugamann með venjulegt ljós heldur eingöngu rautt vasaljós. Rauða ljósið hefur minnst áhrif á myrkvaaðlögun augnanna.

Taktu með þér stól! Maður þreytist fljótt á því að standa í langan tíma við sjónaukann og verkjar í bakið af því að beygja sig að augnglerinu. Þetta dregur svo aftur úr tímanum sem maður ver með stjörnunum. Frábær aðferð til að draga úr þreytu er að sitja við sjónaukann á þægilegum stól svo maður þurfi sem minnst að standa eða beygja sig.

Klæddu þig mjög vel! Íslenskir vetur eru alltaf kaldir. Stjörnuskoðun er áhugamál sem krefst kyrrsetu og því er mjög mikilvægt að verða ekki kalt. Góður, hlýr klæðnaður skilar sér í langri og ánægjulegri stjörnuskoðun. Við ráðleggjum þér ennfremur að hafa með þér eitthvað heitt að drekka, til dæmis kakó eða te. Fátt jafnast á við heitt kakó í kuldanum!

Gátlistinn

Að lokum tókum við saman stuttan gátlista yfir þá hluti sem við höfum alltaf með okkur í stjörnuskoðunina. Hlutunum er raðað eftir því sem okkur þykir mikilvægast:

 • Hlý föt og hlýir skór
 • Sjónauki og þrífótur
 • Aukahlutir (augngler, Barlow-linsa, tvísæir og síur)
 • Rafhlöður (ef þú ert með rafdrifinn sjónauka – aflstöð í okkar tilviki)
 • Stóll
 • Heitur drykkur og snarl
 • Rautt vasaljós
 • Stjörnukort (Íslenskur stjörnuatlas og kort af vefnum)
 • Handsjónauki
 • Góð tónlist!

Að lokum hvetjum við þig til þess að fara út og njóta þess að skoða þennan gullfallega stjörnuhiminn!

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook