Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Geimverutrúarbrögð

„Eftir að ég held fyrirlestra - um næstum hvaða efni sem er - er ég oft spurður, „Trúir þú á FFH?“. Það kemur alltaf flatt upp á mig hvernig spurningin er orðuð, hún gefur í skyn að þetta sé spurning um trú en ekki sönnunargögn. Ég er næstum aldrei spurður, „Hversu góð eru sönnunargögnin um að FFH séu geimskip?“.“
- Carl Sagan: The Demon-Haunted World

Efnisyfirlit
Meira um geimverur

Á meðan vísindamenn reyna hvað þeir geta að finna vísbendingar um geimverur annars staðar í geimnum er til fjöldi fólks sem er ekki í vafa um að þær séu til. Er hugsanlegt að geimverur hafi heimsótt jörðina eða komi hér reglulega við? Eru vísindamenn of þröngsýnir til þess að sjá þær? Er mögulegt að geimverur banki reglulega upp á hjá fólki víðsvegar um heim í þeim tilgangi að gera á því misgeðslegar tilraunir?

Fullt af fólki trúir þessu. Skoðanakannanir í Bandaríkjunum sýna að meira en helmingur Bandaríkjamanna trúir því að bandarísk stjórnvöld séu að fela sannanir um heimsóknir geimvera. Svipaða sögu er að segja um Evrópubúa þótt talan sé örlítið lægri. Ljóst er að margir telja að geimverurnar séu sífellt að skjótast um loftin blá á geimdiskunum sínum og abbast stöku sinnum upp á íbúa jarðarinnar. Geimverutrúarbrögð eru skrítin trúarbrögð.

Ef þetta er rétt vita margir hvernig Jói Geimvera lítur út. En er eitthvað til í þessu? Það eru til svo margar sögur að einhver þeirra hlýtur að vera sönn!

Fyrir meira en tvö þúsund árum sögðu Grikkir sögur af guðum sem komu til jarðar og skiptu sér af mannkyninu. Himinninn er dimmur, dularfullur staður þar sem ýmsar kynjaverur geta falið sig og því er hugmyndin um heimsóknir af himnum ofan ævagömul.

Nútímaútgáfan af grísku sögunum varð til árið 1947 þegar kaupsýslumaðurinn Kenneth Arnold sagði blaðamönnum frá því þegar hann sá einkennileg fyrirbæri á himninum yfir Idaho-ríki í Bandaríkjunum, úr flugvélinni sinni. Hann sagðist hafa séð fyrirbærin skjótast meðfram fjallgarði í norðvesturhluta Bandaríkjanna á 2000 km/klst. Fyrirbærin skutust hingað og þangað og hreyfðust „líkt og diskar skoppandi á vatni.“ Þetta var nokkuð sem blaðamenn gleyptu við og sögðu Arnold hafa séð „fljúgandi diska“.

Skyndilega sáust fljúgandi diskar alls staðar um Bandaríkin. Fljótlega setti höfuðsmaður í bandaríska hernum fram hugtakið „Fljúgandi furðuhlutur“ eða FFH, heiti sem enn er notað í dag yfir björt ljós eða fyrirbæri sem sjást á himninum og eru ekki auðþekkjanleg strax.

Margir drógu strax þá ályktun (yfirleitt áður en þeir skoðuðu fleiri möguleika) að FFH væru geimskip frá öðrum hnöttum - ef ekki geimskip, þá bölvaðir kommarnir frá Sovétríkjunum - með geimverur (eða kommúnista) við stjórnvölinn.

Af hverju ættu geimverur að heimsækja okkur?

Stjórna geimverur heiminum í dag? Er Bush geimvera?

Sú spurning vaknar óneitanlega hvers vegna geimverur ættu að heimsækja okkur? Kvikmyndagerðarmenn hafa svar á reiðum höndum: Geimverur eru hingað komnar til að leggja jörðina í rúst, eða í það minnsta hneppa okkur í þrældóm og taka við stjórnartaumunum (eins og kommarnir hefðu verið vísir til). Jörðinni hefur greinilega ekki verið tortímt og við lútum ekki stjórn geimvera, eins og glöggur lesandi hlýtur að hafa gert sér grein fyrir nú þegar, þrátt fyrir að FFH hafi sést í meira en hálfa öld. Þess vegna hljóta þær að vera að heimsækja okkur á öðrum forsendum.

Kannski girnast geimverurnar náttúruauðlindir okkar. Ef þær vilja málma er auðvelt að verða sér úti um þá í smástirnabeltinu, þær þurfa ekki að ferðast alla leið til jarðar. Kannski búa þær við þurrk á reikistjörnunni sinni og ágirnast vatnið okkar; kannski gull, silfur eða platínu. Allar þessar skýringar hafa verið settar fram en þær eru ansi langsóttar. Það væri nefnilega miklu ódýrara fyrir geimverurnar að ná í þessi jarðefni í þeirra eigin sólkerfi og spara sér þannig gífurlegan ferðakostnað.

Auðvitað má ekki gleyma þeim möguleika að þær séu hér til að æxlast með okkur. Til eru óteljandi sögur um fólk sem segir geimverur hafa komið geimverufóstrum fyrir í sér, verið nauðgað af geimveru eða hvað það nú er. Þetta er ekki einungis ógeðfelld útskýring, heldur líka mjög langsótt og illskiljanleg. Til að þetta sé hægt þyrftu geimverurnar að hafa DNA sem þyrfti að vera nánast nákvæmlega eins og okkar. Menn geta ekki átt afkvæmi með simpönsum (og reyna það venjulega ekki) þrátt fyrir að þeirra DNA og okkar sé 98% eins. Þess utan er erfitt að ímynda sér að tegund verði til í öðru sólkerfi sem getur aðeins fundið sér maka á jörðinni. Það er býsna snúið að koma á slíku stefnumóti og líklegt að sú tegund deyi hratt út.

Ef þær vilja ekki jörðina eða okkur, hvað vilja þær þá? Mjög ólíklegt er að þær vildu tæknina. Hvers vegna skyldu annars verur sem hafa næga tækni og þekkingu til að ferðast hundruð eða þúsundir ljósára að koma til jarðar í því augnamiði að stela „stórbrotinni“ tækni okkar? Myndir nokkur heilvita maður ferðast aftur í tímann til að öðlast tækniþekkingu af hellisbúum?

Sumir telja hið gagnstæða hafa gerst: stjórnvöld okkar hafa stolið tæknikunnáttu frá geimverum og nýtt í okkar „þágu“ (t.d. í herþotur). Þetta myndi vitaskuld útskýra þá ótrúlega lífseigu (rang)hugmynd að bandarísk stjórnvöld feli sönnunargögn um heimsóknir geimvera. Enn og aftur er lítið vit í þessum útskýringum. Í fyrsta lagi byggist maður við því að herflugvélar Bandaríkjamann væru langtum betri en herflugvélar annarra þjóða, nokkuð sem ekki er rétt (alla vega miðað við árangurinn í seinustu styrjöldum). Í öðru lagi er líklegt að svo þróuð tækni væri töfrum líkust eins og Arthur C. Clarke hefur bent á. Það er ólíklegt að Neanderdalsmaður sem fengi farsíma í hendurnar gæti áttað sig á tækninni og fullkomnað símann sinn. Hann myndi áreiðanlega nota hann sem barefli!

Margar þessara útskýringa um heimsóknir geimvera eru heillandi, en langt í frá sannfærandi og þaðan af síður er mikið vit í þeim. Ef sönnunargögn væru til um heimsóknir þeirra hefðum við ekki neina ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvers vegna þær hefðu heimsótt okkur. Ef þær eru komnar hingað er það nógu merkilegt og áhugavert sama hver ástæða heimsóknarinnar er. (Ætli flestum yrði ekki sama hvers vegna Jesús Kristur kæmi í heimsókn ef hann kæmi við í síðdegiskaffi?)

En nú er það stóra spurningin: Hversu góð eru sönnunargögnin?

Sjá nánar: Þversögn Fermis
Sjá nánar: Drake-jafnan

Þúsundir vitnisburða - engar sannanir

Samtök áhugamanna um FFH víðsvegar um heiminn skrá þúsundir vitnisburða frá fólki sem telur sig hafa séð fljúgandi furðuhlut. Flestar sögurnar eru tvímælalaust flugvélar, fallhlífar, fuglar, flugdrekar, loftsteinar, eldingar, bjartar stjörnur eða reikistjörnur, geimskot eða geimflaugar að falla til jarðar, veðurloftbelgir, blöðrur og svona mætti lengi áfram telja. Enginn hefur sérstaklega mikinn áhuga á því ef einhver sá flugvélina sem flaug frá Reykjavík til New York um fimmleytið, mánudaginn 18. apríl. Varla. Það sem kemur blóðinu af stað - og fjölmiðlar æsa sig yfir - er sú hugsun að einhver þessara FFH sé geimskip frá fjarlægum hnetti.

Því miður er engin ástæða til að halda að FFH séu geimskip. Þrátt fyrir aragrúa rannsókna á FFH, sérstaklega í Bandaríkjunum, eru ekki til næg sönnunargögn til að sannfæra flesta vísindamenn um að ljósin á himninum hafi verið eitthvað óvenjulegt eins og geimdiskar. Skömmu eftir 1947 hóf bandaríski flugherinn rannsóknir á FFH, enda höfðu þeir meiri áhyggjur af njósnaflugvélum Sovétmanna á þeim tíma heldur en heimsóknum geimvera. Herinn kannaði næstum 13 þúsund sögur um FFH milli 1947 og 1969 og af þeim fundust náttúrulegar skýringar í 94% tilvika. Þegar rannsóknunum var hætt lýsti herinn því yfir að engar vísbendingar um heimsóknir geimvera hafi fundist og að okkur stafaði engin hætta af þeim.

En hvað um þessi 6% sem eftir eru? Kannski voru það geimverur? Sumir halda það, ef ekki finnst skýring á öllum FFH hljóti það að vera geimverur. Það er heillandi en enn skortir trúverðug sönnunargögn. Ef lögreglan á Íslandi stendur sig vel leysir hún kannski 94% morðmála sem koma upp og í ljós kemur að morðinginn er mennskur í öllum tilfellum. En hvað um hin sex prósentin? Gætu morðingjarnir þar verið draugar, geimverur, álfar eða huldufólk? Sá möguleiki er vissulega fyrir hendi, en hver myndi trúa því? Áreiðanlega einhver en staðreyndin er sú að ef lögreglan hefði yfir meiri mannskap, tíma og betri vísbendingum að ráða, myndi hún hugsanlega leysa öll morðmálin.

Rannsóknir á FFH er svipuð: það er sjaldan nægur tími eða mannafli í að kanna öll hugsanleg fyrirbæri sem gætu hafa orsakað það sem fólk sá. Fólk hefur séð þúsundir mismunandi FFH og sér enn í dag. FFH sjást venjulega af mörgum úr mikilli fjarlægð eða fáum úr minni fjarlægð. Þetta þýðir að lýsingarnar á fyrirbærinu - og stöku myndir eða myndbönd - eru oft frekar slæmar og erfitt að staðfesta &Thorn;ær. (Hvers vegna virðist fólk sem þekkir lítið til náttúrunnar á himninum frekar sjá FFH? Hvers vegna virðast lélegir myndatökumenn oftar sjá FFH en góðir ljósmyndarar?) Vitnisburðir gefa margir hverjir ekki nóg af upplýsingum til að hægt sé að útskýra það sem sást. Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart að FFH séu til; þeir hafa bara ekki verið greindir og þurfa alls ekki að tákna geimverur.

Á braut um jörðu er fullt af gervitunglum sem fylgist sífellt með reikistjörnunni okkar utan úr geimnum. Sum gervitungl þjóna hernaðarlegum tilgangi á meðan önnur fylgjast með veðrinu, kortleggja gróðurfar, hafstrauma eða jafnvel eldgos og skógarelda. Þessi gervitungl finna aldrei neitt óeðlilegt. Á sama tíma hefur bandaríski herinn rekið gríðarlega öflugt ratsjárkerfi í yfir fjóra áratugi til að finna og kortleggja geimrusl. Það getur fundið rusl á stærð við golfkúlu í hundruð km hæð, en hefur ekki fundið nein merki um geimdiska (en herinn er náttúrlega þátttakandi í samsærinu um að leyna geimverunum!). Af einhverjum ástæðum virðast geimverurnar stöðugt angra venjulegt fólk í úthverfum en birtast þó hvergi á ratsjám eða gervitunglamyndum.

Staðið andspænis geimverum

Geimverurnar Kang og Kodos frá Rígel 4 hafa oft hrellt íbúa Springfield. Hér býr Kodos sig undir að borða Hómer.

Flestir geimdiskar sjást fljúgandi á himninum, en lenda geimverurnar aldrei? Þegar Evrópumenn sigldu til Ameríku, var yfirlýstur tilgangur ferðanna að kanna framandi lönd en ekki að lóna úti fyrir ókunnri strönd og snúa svo aftur heim á leið. Kannski eru geimverurnar feimnar og þora ekki að teygja úr sér eftir langt og strangt ferðalag.

Varla. Það er að minnsta kosti eitt fyrirbæri sem bendir til að geimverurnar lendi: sögurnar af fólkinu sem segist hafa verið numið á brott af heimilum sínum. (Geimverurnar taka fólk venjulega þegar það er sofandi; þær virðast kunna mannasiði og vita að ekki megi trufla fólk við matarborðið eða sjónvarpsgláp.) Þeim brottnumda er síðan komið fyrir í geimskipi og á honum gerðar óþægilegar og stundum dónalegar tilraunir (hafa þær enga siðferðiskennd?). Samkvæmt skoðanakönnun í Bandaríkjunum frá árinu 1992 telur meira en þrjár milljónir manna sig hafa verið numið á brott af geimverum. Ljótt er ef satt reynist. Geimverurnar hafa þá mikið að gera. Ótrúlegt að vökulir nágrannar hafa ekki tekið eftir þeim!

Eins og svo oft áður er til miklu einfaldari skýring á reynslu af þessu tagi; reynslu sem vissulega getur verið afar óþægileg þeim sem fyrir verður og engin ástæða til að gera grín að. Það eru nefnilega til eldri sögur af svipuðum meiði.

Á miðöldum var algengt að fólk væri numið á brott í svefni, sögurnar voru að minnsta kosti algengar. Á þeim dögum voru ekki geimverur að verki heldur djöfullinn eða einhver útsendari hans. Sálfræðingar eiga einfalda skýringu á óþægilegu fyrirbæri sem kallast svefnlömun (e. sleep paralysis) sem getur útskýrt stóran hluta af sögunum um brottnámið. Þegar við sofum, og jafnvel í skamma stund eftir að við vöknum, kemur heilinn líkamanum þannig fyrir að við eigum erfitt með að hreyfa okkur (sem er gott ef þú sefur í koju). Við þessar kringumstæður dreymir okkur stundum þannig að við getum ekki brugðist við eða svarað - og við vitum líklega öll að draumar geta verið ansi raunverulegir. Þá liggjum við frosin í rúminu og finnst sem einhver sé að fylgjast með okkur eða finnum fyrir nálægð og sumir eiga erfiðara með andardrátt.

Þessi skýring er miklu einfaldari og líklegri heldur en geimveruskýringin. Hvers vegna? Hún er studd af sönnunargögnum, hin ekki.

Geimverur brotlenda

Frægasta geimveruatvikið gerðist í Roswell í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum um miðjan júní 1947, ótrúlega skömmu eftir að Kenneth Arnold sá fyrst FFH. Í búgarði einum þar fann bóndi nokkur óvenjulegar leifar af hlut sem hann kannaðist ekki við. Bóndinn kvaddi til herinn sem mætti á staðinn, fjarlægði leifarnar og sagði að þarna hefði verið um að ræða „fljúgandi disk“. Herinn breytti sögunni nánast samdægurs og sagði þarna hafa verið um veðurloftbelg að ræða.

Sumir trúðu því ekki, og það réttilega, enda litu leifarnar ekki út fyrir að vera úr veðurloftbelg. Nokkrum árum síðar breytti herinn sögunni aftur og árið 1994 var þykk skýrsla um atvikið lögð fram. Þar sagði að bandaríski herinn hafi unnið að tilraun sem kallaðist Mogul við Roswell á fimmta áratugnum. Mogul var kerfi loftbelgja sem áttu að fylgjast með kjarnorkutilraunum Sovétmanna með sérstökum hlustunartækjum. Þann 4. júní sendi herinn á loft yfir tuttugu loftbelgi nærri Roswell og sýndu síðari rannsóknir að loftbelgirnir höfðu rekið í átt að búgarðinum þar sem leifarnar fundust. Samkvæmt upplýsingum frá einum þeirra sem starfaði við Mogul-verkefnið passaði bæði útlit og innihald leifanna vel við það sem herinn hafði sent á loft skömmu áður.

Hvor skýringin er líklegri? Veðurbelgur eða geimvera?

Það er alveg ljóst að það sem fannst í Roswell var jarðneskt - hluti af hernaðartilraun Bandaríkjamanna en ekki geimverur. Þeir sem leggja átrúnað á geimverutrúarbrögð sætta sig vitaskuld ekki við þessa útskýringu, eins og allt annað, og segja eitt heljarinnar samsæri vera í gangi. „Þú getur ekki sannfært trúmann um neitt, því trú hans er ekki byggð á sönnunargögnum. Hún er byggð á djúpstæðri þörf fyrir að trúa,“ sagði Carl Sagan. Hér er um nákvæmlega það að ræða.

Maður hlýtur líka að spyrja sig, ef geimverur búa yfir svo stórkostlegri tækni að geta ferðast öll þessi ljósár milli stjarnanna án þess að verða fyrir skakkaföllum, hvers vegna ættu þær þá a að brotlenda á jörðinni? Yrðu það ekki dapurleg örlög háþróaðra vitsmunavera að koma geimskipunum sínum ekki í gegnum lofthjúp jarðar eftir allt þetta ferðalag? Við getum það tiltölulega auðveldlega, með sárafáum sorglegum undantekningum.

Geimverulistaverk - skemmdarverk á hveitiökrum

Ekki er annað hægt en að minnast örlítið á „dularfulla“ og skrautlega akurhringi, sem birtast öðru hverju víðsvegar um heim. Í upphafi birtust þeir þó einhverra hluta vegna aðeins í Englandi. Þrátt fyrir þá staðreynd að hægt er að búa til flókin tákn á ökrum á tiltölulega skömmum tíma, með ekkert annað en fjalir og reipi, er samt til fólk sem sættir sig ekki við þessa skýringu og er sannfært um að táknin á ökrunum séu skilaboð frá geimverum sem vilja tala við okkur á þennan einkennilega hátt. Auðvitað er það hulin ráðgáta hvers vegna geimverurnar kjósa þetta samskiptaform, og það í sveitum Englands, eða hvers vegna þróaðar verur ættu að vilja eyða mikilli orku í að ferðast milli stjarnanna í þeim tilgangi að krota tákn í hveitiakra hér á jörðinni. Þótt akurhringirnir geti verið afskaplega glæsilegir innihalda þeir ansi lítið af upplýsingum. Það er erfitt til þess að hugsa að háþróaðar geimverur kjósi að leggja á sig slík langferðalög til að koma svona litlum upplýsingum til skila.

Þrátt fyrir að menn hafi sýnt fólki hvernig hægt er að gera akurhringi á skömmum tíma með einföldum verkfærum vilja margir ekki sannfærast. Það vill einfaldlega trúa því að eitthvað annað sé á bakvið þetta.

Hvers vegna er svona lítið um sönnunargögn?

Mjög fáir vísindamenn eru sannfærðir um að geimverur heimsæki jörðina reglulega. Helsta ástæðan fyrir efasemdunum er skortur á haldbærum sönnunargögnum. Enginn sem segist hafa verið numinn á brott um borð í geimskip hefur tekið með sér svo lítið sem eitt verkfæri eða grip frá geimverunum, þrátt fyrir þá staðreynd að menn eru miklir minjagripasafnarar, sem gæti leyst ráðgátuna um FFH í eitt skipti fyrir öll. Hingað til hefur enginn gengið inn á rannsóknarstofu með óþekktan vef af geimveru eða skrítna málmblöndu úr FFH, eitthvað sem hægt væri að greina.

En þeir sem trúa á geimverurnar beita venjulega fyrir sér tveimur röksemdum til að hrekja rök efasemdarmanna:

 1. Sönnunargögnin eru meira sannfærandi en vísindamenn gera sér grein fyrir, þeir eru bara of þröngsýnir og ekki nægilega opnir fyrir ýmsum möguleikum.

 2. Stjórnvöld (oftast bandarísk) halda bestu sönnunargögnunum leyndum.

Erfitt er að gleypa fyrri skýringuna. Í heiminum eru hundruð þúsunda vísindamanna sem eiga þann draum heitastan að finna líf á öðrum hnöttum. Ef þeir teldu möguleika á að geimverur væru á ferli í lofthjúpnum, væru þúsundir þeirra að vinna að þessu í frítímanum sínum (eða þegar búnir að sækja um styrk til leitarinnar hjá rannsóknasjóðum). Þegar öllu er á botninn hvolft, er nokkur uppgötvun meira spennandi en að finna líf í geimnum?

Í öðru lagi eru það í raun og veru trúmennirnir sem eru þröngsýnir. Við vitum upp á hár hvað þarf til að sannfæra okkur um heimsóknir geimvera og það eru haldbær sönnunargögn. Þeir sem trúa á geimverur (og yfirnáttúrulega hluti) segja oft að við sem ekki trúum séum lokuð og höldum ekki neinum möguleikum opnum; þeir telja sig hafa uppgötvað eitthvað nýtt sem efasemdarmenn sjá ekki. Þeir vorkenna okkur fyrir að trúa ekki á það sem þeir trúa.

Sem efasemdarmenn getum við verið opnustu menn í heiminum. Við erum tilbúnir til þess að trúa öllu, svo lengi sem við fáum sannanir í hendurnar. Ef okkur yrðu sýndar sannanir fyrir heimsóknum geimvera myndum við tafarlaust skipta um skoðun, taka niður alla umfjöllunina um stjörnulíffræði á Stjörnufræðivefnum og ekki setja hana upp aftur fyrr en við værum búnir að endurskrifa allt í samræmi við nýjustu upplýsingar. Við myndum dansa á götum úti og ánafna öllum eignum okkar til frekari rannsókna á framandi lífi.

Þeir sem trúa eiga afar erfitt með að segja skilið við trúna, jafnvel þótt sönnunargögnin (eða skortur á sönnunargögnum) segi aðra sögu. Þeir óska þess svo að þessir hlutir séu sannir að þeir neyðast til að vera þröngsýnir og segja síðan allan tímann að það séu við sem viljum ekki hlusta. Þeir kasta opinni gagnrýnni og heilbrigðri hugsun fyrir róða.

Sem efasemdarmenn reynum við að temja okkur ákveðna víðsýni. Við segjum að það séu ekki til neinar sannanir um heimsóknir geimvera (eða yfirnáttúrulega hluti, hvaða nafni sem þeir nefnast), og við viljum að lesendur sýni fram á að við höfum rangt fyrir okkur. Það er nefnilega ekki hlutverk efasemdarmannsins að færa fram sönnunargögn heldur þvert á móti. Við eigum þá ósk heitasta að vita hvort við erum ein eða ekki í alheiminum. Við viljum vita og erum opnir fyrir öllu; sýnið okkur bara sannanirnar. Eitt örstutt hár með framandi erfðaefni - það er allt og sumt.

Við erum tilbúnir til að breyta skoðun okkar um leið og sannanir koma fram og þannig hugsa líka vísindamenn. Þessi aðferð vísindanna hefur sannað sig ótal sinnum, t.d. þegar kenningar eins og þróunarkenningin, miklahvellskenningin og landrekskenningin komu fram og skýrðu margt sem áður hafði gengið illa að skýra. Þannig erum við alls ekki eins lokaðir og trúmennirnir sem aldrei er hægt að sannfæra, jafnvel þótt ekki sé fótur fyrir því sem hann trúir á. Hann trúir samt, jafnvel þótt sönnunargögnin segi annað. Hann er sá sem hefur lokaðan huga.

Seinni útskýringin um samsæri ríkisstjórna er einfaldlega allt of heimskuleg. Til þess að hún geti verið rétt, þyrftu allar ríkisstjórnir heimsins að taka þátt í yfirhylmingunni. Tækju Íslendingar, Brasilíumenn eða Japanir endilega þátt í því að hylma yfir geimverurnar bara vegna þess að Bandaríkjamenn eða Englendingar sæju ástæðu til þess? Heimsækja geimverurnar ef til vill einungis þau lönd þar sem stjórnvöld leyna tilvist þeirra?

Að lokum er rétt að spyrja, ef geimverur heimsækja okkur reglulega, hvers vegna virðast þær gera það fyrst núna? Eins og áður hefur komið fram sást fyrsti FFH árið 1947, fyrir aðeins 50 árum í 4.600.000.000 ára sögu jarðarinnar. Erum við virkilega fyrst til að sjá þær?

Viljinn til að trúa

Leiðtogi sértrúarhópsins Heavens Gate sem framdi fjöldasjálfsmorð árið 1997. Þeir trúðu því að með halastjörnunni Hale-Bopp kæmu geimverur sem flyttu alla á betri stað.

Fjöldi vitnisburða, akurhringir og fréttir um brottnám fanga ætíð athygli okkar. En tölurnar eru ekki nóg til að sanna heimsóknir geimvera. Þær gætu samt sagt okkur ýmislegt um þá skrítnu dýrategund sem mannkynið er.

Mannkynið virðist snemma hafa heillast af hugmyndum um valdamiklar verur sem geta gripið inn í líf okkar. Það er ekkert óeðlilegt að sumir finni fyrir einmanaleika í alheimi sem er ótrúlega stór, ískaldur og fjandsamur lífinu - í alheimi þar sem jörðin er ekkert annað en rykkorn á sveimi í hvergilandi. Mörgum finnst það huggandi að hugsa til þess að til séu verur sem stjórna og hafa áhrif á okkur.

En eru allar sögurnar um brottnám lygi? Er fólkið einfaldlega kolklikkað? Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?, er algeng spurning þegar rökrætt er við þá sem trúa þessum sögum. Eins og við höfum þegar sagt frá getum við öll orðið fyrir reynslu sem erfitt er að útskýra og líklegt að við höfum öll orðið fyrir slíkri reynslu einhvern tímann. Það er ekki þar með sagt að útskýringin þurfi að vera yfirnáttúruleg. Enginn er svo djarfur og hrokafullur að fullyrða að allt fólk ljúgi þegar það segir reynslusögur af fljúgandi furðuhlutum, draugum, englum, álfum, spámönnum eða miðlum; einhverju sem hefur haft djúpstæð áhrif á einstaklinginn. Líklegra er að fólk hafi látið glepjast eða orðið fórnarlamb einhvers sem veit ekki betur. Sumir hafa orðið fyrir erfiðari reynslu og leitað sér aðstoðar á röngum stöðum. Þar gæti einhver hafa tekið þátt í því að koma ranghugmyndum fyrir í fólki, fólkið orðið fórnalömb einhvers sem veit ekki betur eða er hreint og beint illgjarn. Miklu líklegra er að fólk geri mistök, muni vitlaust eða sé einfaldlega fórnarlamb gabba, heldur en að lögmál náttúrunnar hætti að virka. Sumir eru líka bara kolklikkaðir.

Á endanum munu sönnunargögnin veita svör við þessum spurningum. Hingað til hafa þau ekki verið harla merkileg. En hvað vitum við, við erum hvort sem er svo þröngsýnir!

„Í vísindasamfélaginu kemur oft fyrir að vísindamenn segja, "Veistu, þetta eru mjög góð rök, skoðun mín er röng", og þeir skipta raunverulega um skoðun og þú heyrir þá ekki halda gömlu kenningunni fram aftur. Þeir gera þetta í alvörunni. Þetta gerist ekki jafn oft og það ætti að gerast vegna þess að vísindamenn eru mannlegir og þetta getur verið sársaukafullt. En þetta gerist á hverjum degi. Ég man ekki eftir því hvenær þetta gerðist síðast á sviði stjórnmála eða trúarbragða.“
- Carl Sagan

Heimildir og bækur sem við mælum með:

 1. Carl Sagan. The Demon-Haunted World: Science as a Candle in the Dark
 2. Seth Shostak og Alex Barnett. Cosmic Company: The Search for Life in the Universe
 3. Robert Todd Carroll. The Skeptic's Dictionary.
 4. Phil Plait. Bad Astronomy.

Meira um geimverutrúarbrögð:

 • Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga eftir Matthías Ásgeirsson á Vantrú.is
 • Hundalókíg 3: Guð = geimfarar eftir Birgi Baldursson á Vantrú.is
 • Fréttablaðið brotlendir í Roswell eftir Óla Gneista Sóleyjarson á Vantrú.is
 • Viðtal NOVA við Carl Sagan um geimverur
 • Viðtal NOVA við Paul Horowitz um geimverur
 • Viðtal NVOA við Philip Klass um geimverur
 • Alien Abductions á Skepdic.com
 • Alien Abductions or Sleep Paralysis? á vefsíðu CSICOP
„Núna man ég hvað ég ætlaði að spyrja ykkur að. Vitið þið hvernig á að stilla klukkuna á vídeótækinu mínu?“
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook