Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Hematít (steind)

Hematít (hematite) er járnsteind járnoxíðs (Fe2O3), venjulega svört, stál- eða silfurgrá, brún, rauðbrún eða rauð á litinn, en liturinn fer eftir kornastærð þess. Nafnið hematít er dregið af gríska orðinu haima sem þýðir blóð vegna þess að hematít getur verið rautt að lit. Sé það rautt er það mjög fínkornótt og kallast ryð. Á íslensku hefur hematít stundum verið kallað járnglans.

Myndun

Ryðrautt hematít af leirkornastærð.

Svokallað grátt hematít hefur sömu efnaformúlu og ryðrautt hematít, en ólíka kristallabyggingu. Ryðrautt hematít er mjög fínkornótt en grátt hematít er mun stærra, álíka stórt og sandkorn. Ef grátt hematít væri brotið niður í fínna efni yrði það rautt á litinn vegna þess að smærri kornin dreifa rauðu ljósi meira en grátt.

Grátt hematít myndast í hafi eða vatni sem inniheldur talsvert járn. Járnið binst við súrefni og fellur út á hafs- eða vatnsbotninn sem hematítlag.

Hematít getur einnig myndast á jarðhitasvæði þar sem heitt vatn flæðir upp í gegnum berg og leysir upp járnsteindir sem síðan falla út sem hematít. Þannig hefur t.d. hematítið rauðleita á íslenskum jarðhitasvæðum orðið til.

Að lokum getur hematít myndast án vatns og þá venjulega samfara járnríkri kviku eða gjósku. Finnist steindirnar ólivín og pýroxen einnig á svæðinu gæti hematítið hafia orðið til á þennan hátt. Önnur oxíðsteind, magnetít, sem finnst í kviku, getur líka verkað við súrefni í lofthjúpnum, eða í vatni, og umbreyst í hematít.

Fínkornótt hematít, leir með innan við 5 til 10 míkrómetra kornastærð (1 míkrómetri en þúsundasti hluti af millímetra eða milljónasti hluti úr metra), myndast við veðrunarferli í jarðvegi og með öðrum járnoxíðum eins og geotíti og á þá oftast sök á ryðrauða litnum í mjög veðruðum jarðvegi.

Hematít á Íslandi

Hematít finnst víða á Íslandi, t.d. í rauðu millilögunum í tertíera basaltinu og í rauða litnum á gjalli, t.d. í Rauðhólum og Seyðishólum í Grímsnesi. Það myndast við oxun á járni, ferli sem hvatast mjög af vatni en einkum vantsgufu. Hematítkristallar hafa fundist í holufyllingum, t.d. í Hvalfirði.

Hematít á Mars

Á Mars er hematít bæði fín- og grófkornótt. Fínkornótt hematít, leit, sem er innan við 5 til 10 míkrómetrar í þvermál, gefur Mars rauða litinn og er ástæða þess að hann er oft nefndur rauða reikistjarnan. Þetta fínkornótta hematít dreyfist með rykinu sem þyrlast upp og dreifist um reikistjörnuna samfara árstíðabundnum rykstormum á Mars og sést sem ljósleitari svæði á Mars.

Grófkornótt hematít (stærri en 10 míkrómetrar eða á stærð við sandkorn) er grátt á litinn og finnst á afmarkaðri svæðum á Mars. Myndir Mars Global Surveyor leiddu í ljós þrjú meginsvæði þar sem grátt hematít finnst og eru þau öll á dekkri svæðum Mars - nærri miðbaugnum - til að mynda á svæði sem kallast Sinus Meridiani, í stórum árekstragíg sem kallast Aram og innan Marinergljúfranna.

Eitt sinn hafsbotn? Járnsteindin hematít finnst í þónokkru magni á Meridianihásléttunni á Mars. Þessi mynd er byggð á gögnum frá TES litrófsmælinum um borð í Mars Global Surveyor geimfarinu og sýnir mismikið hematítmagn á sléttunni (5% er blátt og 20% rautt). Hematít myndast oft sem útfelling í fljótandi vatni. Þessi uppgötvun Mars Global Surveyor varð til þess að NASA kaus Meridianihásléttuna sem lendingarstað Marsjeppans Opportunity árið 2004. Opportunity jeppinn lenti innan svörtu sporöskjunnar á myndinni. Bakgrunnsmyndin er innrauð mynd frá Thermal Emission Imaging System myndavélinni í 2001 Mars Odyssey geimfarinu. Mynd: NASA/JPL/ASU

Þegar reikistjörnufræðingar hafa afmarkað þau svæði þar sem þessi járnsteind finnst á Mars geta þeir loks reynt að varpa ljósi á myndun þess. Þetta er gert með því að bera saman reikistjörnurnar. Þannig er jarðfræðilegt myndunarferli hematíts á jörðinni talið vera hið sama og á Mars, þ.e. oftast í tengslum við vatn.

Vatn er óstöðugt á yfirborði Mars vegna þess að lofthjúpurinn er of þunnur og hitastigið of lágt. Þess vegna telja reikistjörnufræðingar að hematítið hafi myndast snemma í sögu Mars, líklega á Nóaskeiðinu, þegar reikistjarnan var sannarlega blautari og hlýrri en í dag.

Tilvist hematíts á yfirborði Mars er með öðrum orðum ein sterkasta vísbendingin um fljótandi vatn í árdaga reikistjörnunnar.

Sjá nánar: Vatn á Mars
Sjá nánar: Marsjeppinn Opportunity

Heimildir og ítarefni

  • Grey Hematite for a Red Planet. Cornell University Science Bites. Sótt 23.06.08.
  • The Lure of Hematite. [email protected] Sótt 23.06.08.
  • Hematite. NASA/JPL. Sótt 23.06.08.
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook