Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Hrúturinn

 

Efnisyfirlit

Hrúturinn er eitt hinna 88 stjörnumerkja sem þekja himinhvelfinguna. Hrútsmerkið er fremur smátt um sig og er í 39. sæti í stærðarröð stjörnumerkjanna.

Hrúturinn er norðan við miðbaug himins og markast af stjörnumerkjunum Nautinu austri, Perseifi og Þríhyrningnum í norðri, Fiskunum í vestri og Hvalnum í suðri. Hrúturinn er eitt þeirra 48 stjörnumerkja sem Ptólmæos lýsir í ritum sínum.

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Hrútinn og telst hann því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Afstaða stjörnumerkjanna hefur breyst á þeim tvö til þrjú þúsund árum síðan stjörnuspekikerfið kom fram og því er sólin nú innan marka Hrútsmerkisins frá 18. apríl til 13. maí (en ekki frá 21. mars til 20. apríl eins og segir í stjörnuspám). Þótt stjörnumerkin sjáist ekki að degi til er samt hægt að reikna út hvar sólin er stödd á himinum með aðstoð stjörnukorta. Það gerist svo einstaka sinnum að allir fá tækifæri til þess að sannreyna í hvaða stjörnumerki sólin er þegar tunglið gengur fyrir sólskífuna við almyrkva á sólu og myrkur skellur á um miðjan dag.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Hrútnum. Júpíter kemur til með að sjást í Hrútsmerkinu veturinn 2011 til 2012 (sjá kort af Hrútnum og nágrenni neðar á síðunni).

Loftsteinadrífan Aríetítarnir er kennd við merkið en hún nær hámarki sínu 7. júní ár hvert.

Hrúturinn á himninum yfir Íslandi

Hrúturinn er ofar miðbaugi himins og er hægt að sjá hann að kvöldlagi allan veturinn (frá september fram í mars). Hann er í suðri klukkan níu að kvöldi í janúar.

Stjörnumerkið Hrúturinn á íslenska næturhimninum um miðjan vetur (1. desember) klukkan 21:00. Horft er í suðausturátt. Nautið í suðaustri, Perseifur og Þríhyrningurinn í norðri, Fiskarnir í vestri og suðvestan við Hrútsmerkið er Hvalurinn. Myndin er úr Starry Night forritinu.

Hrúturinn er fremur dauft stjörnumerki og stjörnurnar eru teljandi á fingrum annarrar handar sem sjást frá stöðum þar sem ljósmengun er mikil (líkt og á talsverðum hluta höfuðborgarsvæðisins). Til þess að finna Hrútinn á himninum er einfaldast að notast við Nautið og stjörnuþyrpinguna Sjöstirnið í Nautinu austan við Hrútsmerkið.

Uppruni stjörnumerkisins

Stjörnumerkið hefur oft verið spyrt saman við frásögnina af Jasoni og gullna reyfinu. Í grófum dráttum var hún á þá leið að hrútur með gullreyfi flaug með prins á baki sér til lands við Svartahaf en prinsinn launaði flugferðina með því að fórna hrútnum til dýrðar guðunum. Síðar lagði annar prins, Jason að nafni, upp í mikla hættuför á skipinu Argó til þess að ná reyfinu og tókst það að lokum. Þegar sögurnar um grísku kappana voru færðar í letur fyrir rúmum tvö þúsund árum var vorpunkturinn í Hrútsmerkinu (staðurinn þar sem sólin er stödd um sólstöður að vori og sólbaugurinn og miðbaugur himins mætast). Pólveltan hefur síðan valdið því að vorpunkturinn hefur færst yfir í Fiskamerkið. (Hugtakið pólvelta er notað yfir færslu jarðmöndulsins sem vísar út í geim en hún veldur því að norðurpóll himins færist og að reglulega þarf að finna nýja pólstjörnu).

Stjörnur í Hrútnum

Um 28 stjörnur í Hrútnum sjást með berum augum en einungis þrjár þeirra eru bjartari en 4. birtustig.

  • Hamal (α (alfa) arietis) er bjartasta stjarna Hrútsmerkisins með birtustigið +2,0. Nafnið merkir lamb á arabísku sem vísar til stjörnumerkisins. Hún er um tvöfalt massameiri en sólin og er á lokaskeiði ævi sinnar (risaskeiðinu). Nákvæmar mælingar hafa farið fram á þvermáli Hamal sem er 14,7 sinnum breiðari en sólin og hafa stjarneðlisfræðingar komið auga á jaðarhúmun á Hamal líkt og á sólinni okkar. Jaðrarnir virðast dekkri en miðja skífunnar því þar sést ekki jafnlangt inn í sólstjörnuna og um miðbikið (kallast jaðarhúmun). Hitinn fer vaxandi eftir því sem innar dregur í stjörnum og með auknum hita eykst orka ljóseinda. Færri orkuríkar ljóseindir berast frá ytri hluta skífunnar og því er hann dekkri en miðjan.
  • λ (lambda) arietis er tvístirni þar sem önnur stjarnan er gulleit með birtustigið +4,9 en hin bláhvít með birtustigið +7,7. Hornbilið á milli þeirra er 37'' og því má aðgreina þær bæði í hand- og stjörnusjónauka.

Djúpfyrirbæri í Hrútnum

Engin fyrirbæri úr Messier-skránni er að finna í Hrútnum en þar er að finna margar vetrarbrautir sem voru of daufar til þess að rata á lista Messier.

  • NGC 772 er þyrilvetrarbraut með birtustigið +11,1. Hún sést sem daufur þokublettur í meðalstórum sjónauka.

Stjörnukort

Góð stjörnukort er að finna í bók Snævarrs Guðmundssonar, Íslenskur stjörnuatlas. Við mælum með því að allir eignist þá fínu bók. Einnig er hægt að fá góð stjörnukort í Starry Night hugbúnaðinum en þar má prenta út hvaða hluta himinsins sem er á mjög einfaldan hátt. Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Sjónaukar.is.

Hér eru nokkur kort sem hægt er að prenta út. Smellið á kortin til þess að fá upp stærri mynd.

Hrúturinn (einfalt kort)

Hrúturinn

Tvær daufar stjörnur eru merktar inn á kortið til þess að auðvelda leit að lambda og NGC 772.


Hrúturinn og stjörnumerki umhverfis hann.

Staða Júpíters að hausti 2011.

Kortið er ekki mjög nákvæmt en sýnir ágætlega afstöðu Hrútsins til stjörnumerkja í nágrenninu.


 

Heimildir:

  1. Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
  2. Vefsíða um Hrútinn á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
  3. Vefsíða um loftsteinadrífur á Wikipediu (skoðuð 22. júlí 2008).
  4. http://www.backyard-astro.com/blog/index.php/weblog/comments/2005_08_30/ (skoðuð 22. júlí 2008).
  5. Vefsíða stjörnufræðingsins James Kaler um stjörnur (skoðuð 22. júlí 2008).
  6. Vefsíðan The Internet Encyclopedia of Science (skoðuð 22. júlí 2008).
Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook