Athugaðu, opna í nýjum glugga. Senda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Stjörnulíffræði

„Engin merk uppgötvun hefur orðið án djarfra tilgáta."
- Sir Ísak Newton

Stjörnulíffræði
  • Stjörnulíffræði
  • Hvað er líf?
  • Lífræn efnasambönd
  • Lifandi alheimur
  • Lífbelti
Líf á jörðinni
Líf í sólkerfinu
  • Lífvænlegir staðir í sólkerfinu
  • Líf á Mars
  • Líf á tunglum Júpíters?
  • Líf á tunglum Satúrnusar?
Líf meðal stjarnanna
Meira um stjörnulíffræði
  • Bækur og ítarefni

Vísindagreinin stjörnulíffræði (bioastronomy, astrobiology, exobiology) er ný af nálinni en byggir þó á gömlum grunni. Hún er sammengi þeirra sviða líffræði, jarðfræði, efnafræði, eðlisfræði og stjarnvísinda sem fjalla um uppruna og þróun lífs í víðu samhengi. En stjörnulíffræðin er þó meira en slitur annarra vísindagreina; hún sameinar undir einum hatti öll þau fræði sem varpað geta ljósi á þá meginspurningu hvernig lífið varð til og hvort við séum ein í heiminum. Þannig verður til nýr vettvangur þar sem ýmsar vísindagreinar skarast.

Vísindamenn úr ólíkum greinum ræða um stjörnulíffræði

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar voru haldnar ýmiss konar ráðstefnur um líf utan jarðar og samskipti við vitsmunaverur. Segja má að hinn gríðarmikli áhugi, sem fyrir hendi er á lífi utan jarðar, hafi komið í ljós fyrir alvöru á 17. aðalfundi alþjóðasambands stjarnvísindamanna (IAU) í Montréal árið 1979. Þar var haldin fyrsta alvöru ráðstefnan um stjörnulíffræði og fór þátttakan fram úr öllum væntingum. Í kjölfarið var á næsta aðalfundi 1982 stofnuð deild 51 í IAU til að halda utan um samstarf vísindamanna á þessu sviði og skipuleggja ráðstefnur. Var hin fyrsta haldin í Boston 1984 undir yfirskriftinni „Bioastronomy: The Search for Extraterrestrial Life“ og komu þá fram helstu áherslur þessarar nýju vísindagreinar:

+ Leitin að reikistjörnum utan okkar sólkerfis

+ Þróun reikistjarna og lofthjúpa

+ Hæfileiki reikistjarna til að viðhalda lífvænum skilyrðum til lengri tíma

+ Leitin að lífrænum sameindum í miðgeimefni (interstellar matter)

+ Leitin að útvarpsmerkjum frá lífverum utan jarðarinnar

+ Vangaveltur um möguleika vitræns lífs

+ Greining lífmerkja, þ.e. hvernig er unnt að greina merki um líf umhverfis nálægar stjörnur

+ Samhæfing allra þessara þátta á alþjóðavísu

Í kjölfarið voru haldnar ráðstefnur þriðja hvert ár, í Ungverjalandi 1987, Frakklandi 1990,. Santa Cruz í Kaliforníu 1993, á Kaprí á Ítalíu 1996, Hawaii 1999 og í Ástralíu 2002. Áhuginn jókst jafnt og þétt svo ákveðið var að halda þessar ráðstefnur annað hvert ár og var því 8. ráðstefnan haldin á Íslandi sumarið 2004 undir yfirskriftinni „Bioastronomy; Habitable Worlds“. Jafnframt þessu átti sér stað mikil gróska á vegum NASA, sér í lagi vegna mikils áhuga Daniel Goldin, þáverenda forstjóra stofunarinnar, á stjörnulíffræði. Gekkst hann fyrir því að Stjörnulíffræðistofnun NASA (NASA Astrobiology Institute) var sett á laggirnar 1998 til að samhæfa starf 16 háskóla og rannsóknastofnana á þessu sviði. Þótti það nokkuð merkilegt þegar Bandaríska geimvísindastofnunin tók að ráða líffræðinga í stórum stíl. Hefur Stjörnulíffræðistofnun NASA haldið nokkrar ráðstefnur frá 1998 í höfuðstöðvum sínum í Ames-rannsóknastöðinni í Kaliforníu.

Viðfangsefnin eru ævagömul

Óhætt er að segja að á ótrúlega skömmum tíma hafi stjörnulíffræðin breyst úr jaðaráhugamáli örfárra stjarnfræðinga í viðurkennda vísindagrein. Í sjálfu sér þarf þetta ekki að koma á óvart því stjörnulíffræðin leitar svara við ýmsum grundvallarspurningum sem vakna í brjósti allra sem velta fyrir sér alheiminum og hinu kosmíska samhengi mannlegrar tilveru.

Eins og vænta má eru vangaveltur um líf utan jarðar ekki nýjar af nálinni. Grísku atómistarnir Levkippus, Demokrítus og Epíkúrus virðast hafa aðhyllst hugmyndir um ótölulegan fjölda heima („απεροι κοσμοι“) og Rómverski heimspekingurinn Lúkretíus tók skýrt fram að aðrir heimar hlytu að vera til því geimurinn væri „óendanlegur til allra átta og efnisagnir óendanlega margar á sveimi á sífelldri hreyfingu“.

Heimsmynd Aristótelesar hafnaði þó alfarið því að fleiri en ein jörð gæti verið til, því jörðin er miðja alheimsins og viðmiðunarpunktur allrar hreyfingar. Frumefnin jörð og vatn leita að miðju jarðar og ef fleiri en ein jörð væru til kæmi upp sú óheppilega staða að frumefnin gætu ekki ákveðið sig hvert þau ættu að leita. Því gæti ekki verið til fleiri en ein jörð. Á hinn bóginn veltu skólaspekingar miðalda því fyrir sér hvort Guð gæti skapað fleiri heima ef hann kysi svo.

Endurreisnin breytir heimsmynd stjarnvísindanna

Það var samt ekki fyrr en með heimsmynd Kópernikusar sem vangaveltur um fleiri heima (reikistjörnur) fóru að láta á sér kræla. Galileó benti á það (í Siderius nuncius árið 1610) að tunglinu svipaði mjög til jarðarinnar og mætti þar hugsanlega sjá höf og meginlönd. John Wilkins biskup svo út „Discovery of a World in the Moone“ þar sem hann velti fyrir sér trúarlegum afleiðingum þess að tunglbúar væru til.

Frægustu vangaveltur um aðra heima voru þó komnar frá Giordano Bruno sem gaf árið 1584 út De l‰infinito universo e mondi þar sem hann færði rök fyrir óendanlegum fjölda byggilegra hnatta. Fyrir þessa villutrú og aðrar ranghugmyndir var hann brenndur á báli árið 1600 eins og frægt er orðið. Dró það væntanlega mjög úr áhuga fræðimanna að láta hafa eitthvað eftir sér opinberlega um þessi efni. Þó leið ekki á löngu þar til Frakkinn Bernard de Fontenelle gaf út sitt innlegg í umræðuna með Entretiens sur la pluralité des mondes (1686) og Huygens fylgdi fast á eftir með ritið Cosmotheoros (1698).

Nútímavísindi nýtt við leitina að lífi í geimnum

Vangaveltur endurreisnarmanna voru fyrst og fremst á heimspekilegum forsendum fremur en vísindalegum og fátt nýtt kom fram næstu aldirnar. Það var ekki fyrr en á síðustu öld, samfara auknum skilningi á uppruna lífs og myndun sólkerfa, að hægt var að glíma við þessar spurningar á fræðilegan hátt. Stjarnvísindin hafa lagt til hugmyndir um myndun og þróun sólstjarna og sólkerfa, reikistjörnufræðin segir til um myndun og þróun reikistjarna og lofthjúpa og jarðvísindi hafa gefið okkur nokkuð ítarlega mynd af sögu jarðar. Auk þess hefur sameindalíffræðin aukið skilning okkar á upphafi lífs og frumþróun þess og nýtt til þess efnafræðina sem varpar ljósi á hin efnafræðilegu ferli sem þar liggja til grundvallar. Líffræðingar hafa varpað ljósi á þróun lífvera á sem byggja m.a. á sameindalíffræði og þeim leifum lífvera sem steingervingafræðingar hafa grafið úr jörðu.

Á vissan hátt má segja að hin nýja fræðigrein stjörnulíffræðinnar sé meira en bara summa þeirra undirfræðigreina sem hún er sprottin úr. Með henni tekur á sig mynd nýr skilningur sem við getum kallað hið kosmíska samhengi lífs og lífvana efnis. Hinn vélgengi heimur sem Newton ruddi braut er núna hluti af mun yfirgripsmeiri hugmyndum um einhvers konar heildarþróun alheimsins, þar sem reikistjörnur, stjörnur, vetrarbrautir, lífverur, vitund og vitræn hugsun eru allt í senn fyrirbæri sem þróast og tengjast innbyrðis. Lífið er vitaskuld nátengt hinum ólífræan heimi en jafnframt í einhverjum skilningi næsta skref í einhvers konar þrófun því lífið er meira en bara sameindir að leika sér. Leitin að lífi í alheimi og nátengdar rannsóknir á uppruna lífsins á jörðinni eru einhverjar mikilvægustu spurningar sem mannsandinn stendur frammi fyrir. Hún er á vissan hátt leitin að okkur sjálfum.

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook