Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Stjörnumerkið Litlirefur

Efnisyfirlit

Litlirefur (e. Vulpecula) er stjörnumerki sem lætur lítið yfir sér á norðurhimninum milli Svansins og Örvarinnar. Litlirefur er eitt hinna sjö stjörnumerkja sem þýski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus kynnti til sögunnar árið 1690 í stjörnuskrá sinni Uranographia. Hevelíus kallaði stjörnumerkið upphaflega Vulpecula cum Anser sem þýðir „Litli refurinn og gæsin“. Í dag er nafnið Litlirefur nánast eingöngu notað.

Á himninum minnir stjörnumerkið mun frekar á máv á flugi heldur en ref. Litlirefur er í hágöngu 25. júlí og sést best á haustmánuðum.

Stjörnur Litlarefs

Litlirefur er mjög dauft merki enda eru flestar stjörnur þess af fjórða og fimmta birtustigi.

Bjartasta stjarna Litlarefs heitir Anser (α Vulpeculae) og er eina stjarna merkisins sem ber almennt heiti. Hana er að finna tæplega þrjár gráður suður af Albíreó í Svaninum og sjö gráður frá ζ (zeta) Sagittae í Örinni. α Vulpeculae er stjarna af fjórða birtustigi (+4,40) og fellur í litrófsflokk M0 sem þýðir að hún er appelsínugul risastjarna og fremur köld eða aðeins 3850 Kelvin.

Heimildum ber heldur illa saman um fjarlægðina til α Vulpeculae. Í Íslenskum stjörnuatlas segir að fjarlægðin til hennar sé aðeins 85 ljósár. Aðrar heimildir gefa upp mun hærri tölu eða allt að 395 ljósár. Sé stjarnan svo fjarlæg er hún 390 sinnum bjartari en sólin okkar og 90 sinnum stærri að þvermáli. Sé hún svo stór næði hún að minnsta kosti tvo þriðju hluta af vegalengdinni til Merkúríusar væri hún staðsett í miðju sólkerfisins okkar.

Í handsjónauka sést að α Vulpeculae er tvístirni (sýndartvístirni). Hin stjarnan er af fimmta birtustigi (+5,8) og oft nefnd 8 Vulpeculae en er mun fjarlægari en α Vulpeculae.

Djúpfyrirbæri

Vetrarbrautin gengur í gegnum Litlaref og því eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri innan merkisins.

 • M27 eða Dymbilþokan er þekktasta djúpfyrirbærið í Litlarefi. Þokan er svokölluð hringþoka og leifar deyjandi stjörnu sem varpað hefur ystu efnislögum sínum út í geiminn.

  Við horfum nokkurn veginn beint á miðbaugsflöt þokunnar, þ.e.a.s. beint framan í hana. Ef við horfðum beint ofan á hana, þ.e.a.s. á pólsvæði hennar, líktist hún væntanlega hringþokunni M57 í Hörpunni. Birtustig þokunnar er +7,4 og stærðin á við hálft sýndarþvermál tunglsins. Þokan er því stór og björt og þannig mjög vel sýnileg í góðum handsjónauka, til dæmis 7x50 eða stærri, og í litlum stjörnusjónaukum við sæmilegar aðstæður. M27 er þar af leiðandi meðal allra glæsilegustu fyrirbæra himinsins.
 • NGC 6830 er um það bil tvær gráður vestur af M27 er að finna sérkennilegan hóp 20-30 mjög dreifðra stjarna. Af þeim eru tíu stjörnur áberandi bjartastar eða af fimmta og sjöunda birtustigi. Sex þeirra mynda beina línu en hinar fjórar krók sem stendur út úr línunni miðri sunnanmegin. Útlínur hópsins minna óneitanlega á herðatré á hvolfi og er hópurinn því oft nefndur Herðatrésþyrpingin.

  Þyrpinguna uppgötvaði persneski stjörnufræðingurinn Abd-al Rahman Al Sufi og lýsti hann henni í riti sínu Um fastastjörnurnar árið 964 e.Kr. Á fyrri hluta 17. aldar enduruppgötvaði síðan ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Hodierna þyrpinguna. Athyglisvert er að hvorki Charles Messier né William Herschel og sonur hans John skráðu þyrpinguna í stjörnuskrár sínar, líklegast vegna þess hve víðfeðm hún er á himninum.

  Þessi fallega þyrping er stundum nefnd þyrping Brocchis eftir bandaríska stjörnuáhugamanninum D.F. Brocchi sem kortlagði hana í kringum 1920. Ellefu árum síðar eða 1931 rataði þyrpingin í skrá sænska stjörnufræðingsins Per Colliander yfir lausþyrpingar, sú 399 í röðinni. Hún er þar af leiðandi einnig kölluð Cr 399.

  Stærstan hluta 20. aldar töldu stjörnufræðingar að hópurinn væri venjuleg stjörnuþyrping en undir lok aldarinnar komu fram gögn sem kollvörpuðu þeirri skoðun. Rannsókn á gögnum frá evrópska gervitunglinu Hipparkos leiddu í ljós að hér er ekki um hefðbundna stjörnuþyrpingu að ræða heldur samstirni þar sem stjörnurnar raðast fyrir tilviljun í sömu sjónlínu frá okkur séð. Allar stjörnurnar eru í 200 til 1100 ljósára fjarlægð en misbjartar svo þær virðast samankomnar í eina þyrpingu. Stjörnurnar hreyfast heldur ekki saman um geiminn heldur allar hver í sína áttina.

  Herðatrésþyrpinginuna er auðvelt að finna á himninum enda nokkuð áberandi, jafnvel með berum augum. Hún sést vel í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka með vítt sjónsvið.

Kort sem sýnir djúpfyrirbærin M27 og Herðatrésþyrpinguna í Litlarefi. Hér sést einnig Albíreó í Svaninum auk djúpfyrirbæranna M56 og M71 í stjörnumerkinu Örin. Kortið var útbúið í Starry Night Pro Plus hugbúnaðinum.

Stjörnukort

Stjörnumerki, helstu stjörnur og nokkur djúpfyrirbæri í nágrenni Litlarefs.
Stjörnukort af Litlarefi og Örinni
Stjörnukort af Litlarefi og Örinni. Smellið á myndina til þess að ná í stærra kort.
Stjörnukort af Svaninum, Hörpunni, Litlarefi, Örinni og ýmsum djúpfyrirbærum
Stjörnukort af Svaninum, Hörpunni, Litlarefi, Örinni og ýmsum djúpfyrirbærum. Smellið á myndina til þess að ná í stærra kort.

Heimildir:

 • Messier Object 27

 • Brocchi's Cluster, Collinder 399

 • Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook