Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

Ljósmengun á Íslandi

Mynd tekin í vesturátt í stjörnuteiti á Þingvöllum. Ljósmengunin frá höfuðborgarsvæðinu í 30-40 km fjarlægð spillir himininum greinilega. Bláa ljósið er frá Friðarsúlunni í Viðey.
Mynd tekin í vesturátt í stjörnuteiti á Þingvöllum. Ljósmengunin frá höfuðborgarsvæðinu í 30-40 km fjarlægð spillir himininum greinilega. Bláa ljósið er frá Friðarsúlunni í Viðey. Ljósmynd: Sævar Helgi Bragason.

Here is an English website on light pollution in Iceland

Orðið ljósmengun er yfirleitt notað um þann hluta lýsingar sem gerir ekkert gagn heldur sóar einungis rafmagni. Ljósmengun getur bæði átt við þá birtu sem berst upp í himininn, sem og illa hannaða eða óþarflega sterka lýsingu sem truflar vegfarendur og íbúa.

Hér á landi berst talsverður hluti af þeirri birtu sem notuð er til lýsingar á götum, byggingum og bílastæðum upp á við og nýtist því ekki til þess að lýsa upp fyrirbæri á jörðu niðri. Þessi ljósmengun veldur því miklu erfiðara er að skoða stjörnurnar og norðurljósin í stórum þéttbýliskjörnum á Íslandi en úti í sveit eins og gestir í sumarbústöðum hafa sannreynt. Verst er ástandið á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Það eru þrjú atriði sem einkenna vel heppnaða lýsingu:

Vel heppnuð lýsing

...nýtist þar sem hennar er þörf

...þegar hennar er þörf

...og er af hæfilegum styrk

Með því að beina birtunni þangað sem henni er ætlað má draga úr orkunotkun og spara peninga. Glýja frá óskermuðum götuljósum truflar ökumenn og berst jafnvel inn um glugga íbúðarhúsa. Hreyfiskynjarar og tímarofar eru gagnleg tæki til þess að kveikja á lýsingunni þegar á þarf að halda. Algengt dæmi um sóun á rafmagni er lýsing bílastæða með ljóskösturum yfir hánóttina.

Það er útbreiddur misskilningur að samhengi sé á milli birtustyrks og öryggis.

Aukin birta þýðir ekki sjálfkrafa meira öryggi!

Illa stilltir ljóskastarar sem varpa ljósi langt út frá byggingum geta hreinlega auðveldað innbrotsþjófum að leynast við iðju sýna. Uppsetning hreyfiskynjara og ljósa sem lýsa niður með veggjum hafa hins vegar fælingarmátt. Of mikill ljósstyrkur getur einnig skerpt á skilum á milli ljóss og skugga og gert vegfarendum erfitt fyrir að sjá hættur utan upplýstra svæða.

Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hafa tekið saman lítinn bækling um ljósmengun á íslensku. Hann er einnig til í enskri þýðingu svo erlendir áhugamenn geti kynnt sér stöðu mála hér á landi. Bæklingnum er hægt að hlaða niður með því að smella á myndirnar hér að neðan.

   

 

 

 

 

 

Loks má geta þess að Ágúst Bjarnason verkfræðingur hefur sett upp síðu sem fjallar um ljósmengun og þann vanda sem henni fylgir á Íslandi:

Vefsíða Ágústar Bjarnasonar um ljósmengun á Íslandi

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni búa um 200 þúsund manns í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Það er því ekki furða að ljósmengunin sé mest á því svæði. Alls búa um 240 þúsund manns á suðvesturhorninu á svæði sem nær frá Selfossi upp í Borgarfjörð.

Ísland og ljósmengun á suðvesturhorninu

Mynd sem sýnir ljósmengun á suðvesturhorninu. Um 240 þúsund manns (75% landsmanna) búa á svæði sem nær frá Selfossi upp í Borgarfjörð.

 
Light pollution in Reykjavik metropolitan area

Ljósmengun á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum þess. Fjarlægðin eftir loftlínu frá Reykjavík að Keflavíkurflugvelli er um 40 km.

  • Sjá má móta fyrir einfaldri röð ljósastaura meðfram Reykjanesbrautinni (bjartari en aðrir þjóðvegir). Í skýrslu sem unnin var fyrir Vegagerðina árið 2002 kemur fram að ekki hafi tekist að sýna fram á fækkun slysa eftir að veglýsingin var sett upp. Þar gæti fölsk öryggistilfinning haft sitt að segja.
  • Ljósmyndin efst til hægri á síðunni er tekin í grennd við græna depilinn á Þingvöllum.
  • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness áformar að reisa nýja stjörnustöð við Grænavatn í Krísuvík. Þar eru bestu aðstæður til stjörnuskoðunar í grennd við höfuðborgarsvæðið og útsýni til suðurs er óskert.
Mynd úr Google Earth forritinu. Myndatexti: Adam Thor Murtomaa.
 

Reykjavíkurborg slökkti ljósin þann 28. september 2006 við upphaf alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Margir íbúar tóku þátt í borgarmyrkvanum en því miður var ekki sama þátttaka hjá eigendum fyrirtækja í borginni.

Tveir félagar í Stjörnuskoðunarfélaginu héldu út fyrir borgina og tóku myndir af borgarmyrkvanum úr hlíðum Esjunnar. Hér að neðan eru fjórar samsettar myndir sem Grétar Örn Ómarsson tók við þetta tækifæri, bæði á meðan á myrkvanum stóð og einnig eftir að ljósin höfðu verið kveikt. Efri myndirnar eru teknar með 5 sekúndna lýsingartíma en neðra parið með 15 sekúndna lýsingartíma. Gróft áætlað þá tvöfaldaðist birtan þegar kveikt var ljósunum.

Með því að smella á myndirnar má sjá þær í stórri útgáfu á myndasvæði Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Mynd samsett úr 5 römmum á meðan á myrkvanum stóð. Lýsingartími 5 sekúndur með stillingunni 800 asa F 2,8.

Mynd samsett úr 6 römmum eftir að kveikt hafði verið á ljósunum. Lýsingartími 5 sekúndur með stillingunni 800 asa F 2,8.

 

 

Mynd samsett úr 7 römmum á meðan á myrkvanum stóð. Lýsingartími 15 sekúndur með stillingunni 800 asa F 2,8.

Mynd samsett úr 9 römmum eftir að kveikt hafði verið á ljósunum. Lýsingartími 15 sekúndur með stillingunni 800 asa F 2,8.


Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook