Athugaðu, opna í nýjum glugga. Prenta útSenda hlekk á þessa síðu til vinar

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook

M13 - Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi

M13 - Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi
M13 - Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi
M13 - Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi. Mynd: NASA/ESA/Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
Helstu upplýsingar
Tegund Kúluþyrping (flokkur: V)
Stjörnulengd 16klst 41mín 41,4sek
Stjörnubreidd +36° 27′ 37″
Fjarlægð 25,1 þúsund ljósár (7,7 kílóparsek)
Sýndarbirtustig +5,8
Hornstærð 15 bogamínútur
Stjörnumerki Herkúles
Annað
Önnur skráarnöfn
NGC 6205, M13

Kúluþyrpingin M13 í stjörnumerkinu Herkúlesi er oft nefnd „Kúluþyrpingin mikla“ því hún er glæsilegasta kúluþyrpingin á norðurhveli himinsins. Hún er númer 13 á lista Charles Messier yfir þokukennd fyrirbæri á himinhvelfingunni og er því oft einfaldlega kölluð Messier 13 eða M13 til styttingar.

Talið er að í kúluþyrpingunni séu nokkur hundruð þúsund stjörnur samankomnar í kúlulaga skýi sem er um 150 ljósár í þvermál. Kúluþyrpingar geyma margar af elstu stjörnum Vetrarbrautarinnar okkar. Það kemur því ekki á óvart að gamlar gular eða rauðleitar risastjörnur séu mest áberandi í M13.

M13 á stjörnuhimninum

Kúluþyrpingin M13 sést með berum augum sem daufur þokublettur á himninum þar sem ljósmengun spillir ekki fyrir. Þar sem kúluþyrpingin er með sýndarbirtustigið +5,8 þá þurfa aðstæður að vera góðar svo hún sjáist án sjóntækja. Daufustu stjörnur sem sjást á himninum eru með birtustig á bilinu +6 til +6,5 og því aðeins daufari en M13 (kvarðinn er öfugur sem þýðir að daufari fyrirbæri eru með hærra birtustig).

M13 sést greinilega sem þokublettur í handsjónauka.

Hún enn betur í stjörnusjónaukum af öllum stærðum og gerðum. Í meðalstórum sjónauka má greina ystu stjörnurnar í þyrpingunni við mikla stækkun.

Eitt atriði til viðbótar: Til þess að sjá kúluþyrpinguna sem best í sjónauka eða með berum augum getur verið gott að horfa til hliðar við hana og nota „jaðarsjón“ til þess að átta sig betur á þyrpingunni.

Stjörnuáhugamenn nota oft jaðarsjón til þess að sjá dauf fyrirbæri. Þegar við horfum beint á fyrirbæri þá notum við skynfrumur í miðjum augnbotninum sem nefnast keilur. Með þeim er hægt að sjá liti þegar bjart er úti. Keilurnar eru hins vegar ekki sérlega næmar í myrkri. Önnur tegund augnfruma sem nefnast stafir gagnast hins vegar best í myrkri. Þá er að finna umhverfis keilurnar í augnbotninum. Með stöfunum getum við ekki séð liti en þeir eru aftur á móti ljósnæmir.

Galdurinn við jaðarsjón er að horfa til hliðar við fyrirbærið sem á að skoða. Þannig fellur ljósið frá fyrirbærinu ekki á miðjan augnbotninn heldur á ljósnæmu augnfrumurnar (stafina) sem eru út frá keilunum í augnbotninum. Með því að horfa útundan okkur getum við greint meiri smáatriði.

Hvernig er best að finna M13?

Auðveldasta leiðin til þess að finna M13 er að fylgja eftirfarandi skrefum:

1) Finna stjörnumerkið Herkúles á himninum. Besta leiðin til þess að koma auga á Herkúles er að nota stjörnuna Vegu í stjörnumerkinu Hörpunni. Búkur Herkúlesar er eins og afmyndaður ferhyrningur á milli Vegu og Arktúrusar í Hjarðmanninum en þær eru tvær af björtustu stjörnunum á hausthimninum. Stjarnan Arktúrus er í beinu framhaldi af handfangi Karlsvagnsins. Hún sest á undan Herkúlesi og ef Arktúrus sést ekki lengur á himninum þá er Herkúles að finna undir línu sem tengir saman Vegu og Karlsvagninn.

2) Kúluþyrpingin er á útjaðrinum á ferhyrningi sem er eins og jólakökusneið í laginu. Þegar Herkúles er kominn í leitirnar er best að skanna niður eftir hliðinni sem er fjærst Vegu í Hörpunni. Þá ætti kúluþyrpingin að koma í ljós.

Stjörnukort sem sýnir staðsetningu Herkúlesar og Norðurkórónunnar
Stjörnukort sem sýnir staðsetningu Herkúlesar og Norðurkórónunnar á milli Vegu í Hörpunni og Arktúrusar í Hjarðmanninum. Smellið á myndina til þess að ná í stærra kort.
Stjörnukort af Herkúlesi og Norðurkórónunni
Stjörnukort af Herkúlesi og Norðurkórónunni sem sýnir staðsetningu kúluþyrpinganna M13 og M92. Smellið á myndina til þess að ná í stærra kort.

Heimildir

Hubblesite: A Celestial Snow Globe of Stars. (Vefsíða skoðuð 1. október 2009).
Wikipedia: Messier 13. (Vefsíða skoðuð 1. október 2009).
Karkoschka, E. 2007. The Observer's Sky Atlas. With 50 Star Charts Covering the Entire Sky. 3. útgáfa. Springer.

- Sverrir Guðmundsson

Digg This! Del.icio.us; Reddit Stumble It! Facebook